Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:18:40 (4453)


[14:18]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég var í miðju kafi að geta þess að að því máli sem við erum að fjalla um nú hefði verið unnið frá 1993. Ég var að geta þess vegna þess að þegar verið er að kalla eftir því af hverju frv. um greiðsluaðlögun sé ekki komið og hvort það sé ekki að koma þá vil ég minna á að það er mjög skammt síðan nefnd var sett á laggirnar að skoða þau mál. Þetta er mikil réttarfarslöggjöf og það er mikil einföldun að halda að það sé hægt að taka norskt frv., þýða það og gera það að íslensku. Hér þarf að aðlaga hluti mjög að okkar aðstæðum. Það er mjög margt sem er ólíkt hjá okkur og í nágrannalöndunum svo sem hin langvarandi og mikla eignastefna sem hér ríkir. Það þarf að vanda sig með þessa hluti og það er ekki endilega svo að ekki sé vel haldið á málum ef mál koma ekki fram eins hratt og menn kalla eftir úr þessum ræðustól.
    Aðeins varðandi skuldirnar. Ég er sammála því að það á að skoða þau vanskil sem eru erfið hjá fólki, það á að skoða hópana og það á að vita um hvað er verið að tala og á hverju er verið að taka þegar aðgerðir koma. Það hefur sýnt sig við bráðaúttekt að mjög stór hluti lántakenda Húsnæðisstofnunar sem er í vanskilum er fólk með háar tekjur og eignir jafnvel upp á 9 til 10 millj. Það má vel vera að einhverjar breytingar á barnabótum eða vaxtabótum hafi haft áhrif fyrir þetta fólk en við skulum ekki gleyma því að þegar erfiðlega árar er verið að taka á slíkum velferðarmálum í öllum nágrannalöndum okkar og hv. þm. getur þurft að taka á slíku líka þegar illa árar.
    Hitt er annað mál að við eigum að verja þá sem á að verja og við eigum að beina aðgerðum okkar og fjármagni til þeirra sem á að verja og á að styðja og það hef ég haft að leiðarljósi í minni vinnu.