Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:35:38 (4456)


[14:35]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir því í framsögu með máli þessu að það eru nokkrar breytingar sem ég legg til á þessu frv. Það hefur verið lagt fram nákvæmlega eins og það kom frá nefnd um leið og það var unnt milli jóla og nýárs einmitt til þess bæði að það yrði sýnilegt og til þess að auðveldara yrði að fjalla um það við ýmsa þá hópa sem láta sig málið varða. Þannig hef ég gert grein fyrir því að það verði fallið frá þeirri tillögu sem er í frv. að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar falli út úr húsnæðisnefndum og að það hefur náðst sátt um það mál við forustu Sambands sveitarfélaga svo að ýmis þau atriði sem tekið er á í frv. er sátt um utan veggja þessa húss þó svo að það sé hér sem það ráðist, hversu mikið af frv. kemst í gegn, hversu lítill hluti eða e.t.v. allt í þeirri mynd sem lagt er til hér.
    Ég hef líka sagt að þingmenn þekki svo vel til ýmissa og allflestra þeirra ákvæða sem frv. tekur til, ekki síst þeir sem sitja í félmn. og hafa verið að fjalla um þessa hluti og hafa jafnvel beðið eftir sumum ákvæðunum, að ég treysti því að menn sameinist um það að gera það sem þeir geta í að hleypa mikilvægum ákvæðum í gegn þó svo skammt lifi eftir af þinginu.
    Hins vegar er það svo að í nokkrum tilfellum er brtt. af minni hálfu og ég hef valið að kynna það strax í þessari framsögu. Ein brtt. á einmitt við um 25. gr. sem síðasti ræðumaður ræddi hér um, um breytingu vaxta. Ég ætla ekkert að fjalla um það sem þingmaðurinn nefndi hér um hversu margir hafa verið í vanskilum sem lentu í vaxtahækkuninni en þá er þó eitt sem við megum ekki gleyma og sem var nýtt fyrir margt af því fólki og það er að á móti því að vextir hækkuðu þá komu einnig vaxtabætur sem eiginlega komu ekki til eða sáralítið áður en vaxtahækkun kom til hjá þessum hópum. En sem sagt, sú tillaga sem þingmaðurinn vísaði til í 25. gr. stendur ekki óbreytt eftir og mun ég síðar kynna þær brtt. sem ég fór yfir í minni framsögu.
    Ég ætla áður að svara örfáum af þeim spurningum sem hér hafa komið fram, m.a. spurningu hv. 11. þm. Reykv., Finns Ingólfssonar: Af hverju standa íbúðir auðar úti á landi og hvaða stefna er það að 4--5 bíði eftir íbúðum í Reykjavík en annars staðar standi íbúðir auðar? Auðvitað eru á þessu ýmsar skýringar. Á ákveðnu tímabili var miklu meira byggt upp af félagslegu húsnæði úti á landi og það var sótt mjög um það og sótt mjög eftir því og í miklu ríkara mæli af sveitarfélögum úti um land að byggja upp félagslegt húsnæði og á sumum stöðum á landsbyggðinni er yfir 20% af húsnæði félagslegt húsnæði á meðan það telur hér kannski fáein prósent og ekki mörg ár síðan t.d. félagslegt húsnæði á Reykjanesi var í kringum 3% af húsnæði.
    Það verður að segjast eins og er að það er mjög margt sem bendir til þess að oft hafi verið sótt mjög mikið eftir því að fá úthlutað félagslegu húsnæði til þess að viðhalda störfum og í raun og veru með tilliti til þess byggingariðnaðar sem var á hverjum stað. Þess vegna var það eitt af því sem ég vildi bregðast við og brást við þegar ég kom að sem formaður stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins með því að sú stjórn setti nýjar reglur og það var að e.t.v. á sama tíma og sveitarfélag var að úthluta íbúð og óskaði eftir undanþágu til að mega úthluta henni til einhvers sem var yfir tekjumörkum vegna þess að aðrir umsækjendur væru ekki til staðar einmitt núna, á sama tíma var sama sveitarstjórn e.t.v. að sækja um að fá að byggja 4, 6 eða 8 félagslegar íbúðir á næsta ári og með umsókn inni um nýja úthlutun. Auðvitað gaf

þetta ýmsar vísbendingar og þegar var tekið á þessu máli og bæði sótt eftir aðstoð Byggðastofnunar varðandi kaupleiguíbúðir, hvar þær ættu best heima miðað við vaxtarbrodd í sveitarfélögum, þá var það svo að það var brugðist mjög illa við af þeim sem ekki fengu úthlutað út á þá reglu að þeir sem hefðu á yfirstandandi ári úthlutað til einstaklinga sem voru yfir tekjumörkum, og fengu ekki úthlutað nýjum íbúðum næst. Auðvitað eru á þessu ýmsar skýringar en að sumu leyti hefur þetta þótt eðlilegur hlutur að byggja félagslegar íbúðir en ekki kannski litið á það sömu augum og í sveitarfélögum í þéttbýlinu að það hafa bæði verið gerðar kannanir og eins að það hefur verið mjög strangt eftirlit með hverjir hafa fengið þær og að fólk væri undir tekjuviðmiðun.
    Það er líka spurt um hvort það hafi verið tekið á vanda varðandi kaupleiguíbúðir sem standa auðar með frv. og vísað til þess að það að þær standa auðar hljóti að þýða að þær séu dýr kostur. Það er þannig að kaupleiguíbúðir reyndust dýr kostur, sérstaklega meðan lánin voru 70% lán til langs tíma frá Húsnæðisstofnun og 20% lán eingöngu til 5 ára frá sveitarfélagi. Með því að fólk væri kannski að taka lán fyrir sínum eigin 10% skapaði mjög þunga greiðslubyrði þessi fyrstu 5 ár og gerði það að verkum að ef það væri litið á þessa íbúð sem kost til framtíðar þá hafa margir talið að þetta reyndist mjög góður kostur eins og búseturéttaríbúðirnar, en þetta þótti mjög erfitt og margir vildu fara út úr þessum íbúðum aftur á þessum fyrstu 5 árum.
    Þessu var breytt í meðförum félmn. fyrir ári síðan þannig að 5 árin voru lengd í 25 ár og nú hefur verið tekið á þessu máli þannig að það verður eitt 90% lán sem verður veitt til kaupleiguíbúða. Allt lánið er til 43 ára og ekki þessi aðskilnaður og ekki þessi mismunur á greiðslubyrði.
    Það hefur líka verið spurt um sölu íbúða út úr kerfi. Ég vísa til þess af því að það er mjög greinargott hvernig farið er yfir það á bls. 11 í frv., þ.e. 92. og 93. gr. undir 26. gr., en þar kemur fram hvernig skuli staðið að fyrirgreiðslu til þess að hjálpa til ef íbúðir standa auðar og ef á að selja þær eða ef á að styðja við sveitarfélagið meðan íbúðin stendur auð. En þá vil ég líka geta þess að það er ekki ákvæði þarna um að lækka íbúð ef hún er dýr í kerfinu og það á að selja hana eins og hér kom fram. Hvernig á að vera hægt að selja íbúðina ef hún er svo dýr að enginn vill kaupa hana af því að markaðsverð hefur hrunið á staðnum? Það er ekki ákvæði þarna um að það eigi að fara að lækka íbúð sem stendur í einhverri ákveðinni upphæð eða hefur ákveðið söluverð en ef það er eitthvað sem kemur í ljós að gerist að íbúð standi auð þrátt fyrir heimildir til þess að selja hana út úr kerfinu og þá breytingu sem hér er gerð þá verður að sjálfsögðu að taka á því.
    Það var líka nefnt hvernig ætti að fara með lán til endurbóta og þá minni ég á það að innan húss eru íbúðir alltaf endurgerðar og standsettar áður en þeim er úthlutað. Þannig er það því að í flestum tilfellum er félagslegt húsnæði í mjög góðu ástandi innan húss en það er utanhússviðhaldið sem oft hefur reynst mjög erfitt og sem er stundum haldið fram að heilar íbúðarblokkir eða fjölbýlishús standi undir skemmdum vegna þessa og það er tekið á því í þessu frv. að það er heimild til þess að lána til utanhússviðhalds og það er ákvæði sem er mjög mikilvægt og hefur verið beðið eftir og kallað eftir að væri sett í lög.
    Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði einnig um það hvernig ætti að bregðast við því ef ekki yrði úthlutað nema um 130 framkvæmdaheimildum á þessu ári. Ég kannast ekkert við það að um það hafi komið tillaga að fækka svo úthlutunum að öðru leyti en því að eins og þingmenn vita, þá var gerð samþykkt um það að fara af stað með færri félagslegar íbúðir á þessu ári en árinu á undan sem að meðaltali hefur verið um 500 íbúðir vegna þess að það var gert samkomulag við upptöku húsaleigubóta og við lagasetninguna þar að þessum íbúðum yrði fækkað um 100. En ég geri mér grein fyrir því að þingmaðurinn vísar til skoðunar á greiðsluflæði út og inn í Byggingarsjóð verkamanna. Það er búið að miða að því í langan tíma að jöfnuður yrði í áætlunum þegar til framtíðar er litið og að það hefur komið skekkja inn í þá framtíðaráætlun, ef ég get tekið þannig til orða, þar sem endursöluíbúðir hafa ekki verið inni í tölunni yfir þær íbúðir sem hefur verið úthlutað heldur hafa þær komið utan við þær 500 íbúðir sem hefur verið úthlutað á ári og það er ekki hlutur sem er leiðréttur í einni úthlutun eða á einu ári. Það er spurning um það hvort það hafi einhverjum íbúðum fleiri en menn gerðu ráð fyrir verið úthlutað og yrði þá tekið á á löngum tíma svo að ég svara því ekki öðruvísi en svo að það er að sjálfsögðu hlutur sem er jafnað uppi í sjóðnum ef þessar endursöluíbúðir hafa skekkt eitthvað myndina og hef reyndar aðeins heyrt um þetta en ekki komið að því máli öðruvísi en ég vil að sjálfsögðu skoða það.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, fjalla um þær breytingartillögur sem ég kynnti í minni framsögu og þær eru þá í fyrsta lagi það að 4. gr. frv. fellur brott og eftirfarandi grein kemur inn:
    ,,Í sveitarfélögum með 400 íbúa eða fleiri skal sveitarstjórn skipa húsnæðisnefnd að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum. Nefndarmenn skulu vera þrír, fimm eða sjö eftir ákvörðun sveitarstjórnar og jafnmargir til vara. Skal meiri hlutinn kjörinn af sveitarstjórn en minni hlutinn, þ.e. einn af þremur, tveir af fimm eða þrír af sjö, tilnefndur af fjölmennustu samtökum launafólks í sveitarfélaginu.
    Formaður og varaformaður skulu kjörnir af sveitarstjórn. Að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum.
    Nefndin fer með stjórn og samræmingu félagslegs húsnæðis á vegum sveitarfélagsins í umboði sveitarstjórnar og veitir almennar upplýsingar og ráðgjöf varðandi húsnæðismál.``
    Og eins og þingmenn heyra er þarna verið að halda ákvæðum frv. að öðru leyti en því að fulltrúar verkalýðshreyfingar koma þarna inn í þetta ákvæði.
    2. 1. mgr. 6. gr. frv. fellur brott og í staðinn kemur:
    ,,Ábyrgð á úthlutun félagslegra íbúða á vegum sveitarfélags til einstaklinga er á vegum húsnæðisnefndar, sbr. 3. tölul. 45. gr.``
    Niðurlag 9. gr. frv. fellur brott. Það niðurlag fjallaði um tilfærslu á milli lánaflokka sem er fremur flókið mál. Það hefur verið heimild til þess í undantekningartilvikum að Húsnæðisstofnun geti flutt á milli lánaflokka og hún hefur gert það í sumum tilfellum og þá ætíð þannig að jöfnuður hafi verið innan kerfisins í þessum efnum. Það hefur kannski verið skipt á ákveðnum fjölda af félagslegum íbúðum í Reykjavík á móti heimildum fyrir almennum kaupleiguíbúðum en ávallt þó þannig að áætlun sem gerð er um úthlutun þessara flokka héldist, þ.e. jöfnuður væri innbyrðis vegna þess eins og ég benti á áðan að inngreiðslur í kerfið og greiðsluflæði sjóðsins er mjög mikilvægt en ég gerði mjög vel grein fyrir þessu í minni framsögu.
    1. og 2. mgr. 25. gr. frv. falla brott og í stað þeirra kemur eftirfarandi málsgrein og það er einmitt það sem lýtur að vöxtunum. 79. gr. hljóði svo:
    ,,Byggingarsjóður verkamanna skal að liðnum sex árum frá undirritun kaupsamnings um félagslega íbúð kanna hvort meðaltekjur kaupenda síðustu þrjú ár, þar af heildartekjur tvö síðustu árin, hvort ár fyrir sig, nemi hærri fjárhæð en tekjumörk samkvæmt b-lið 64. gr. kveða á um. Komi í ljós að þær tekjur eru yfir tekjumörkum skal breyta vöxtum af láni hans þannig að þeir verði hinir sömu og af láni til kaupa á almennum kaupleiguíbúðum. Upp frá því skal slík könnun gerð á þriggja ára fresti.``
    Að vísu stendur hérna tekjur en það er sjálfsagt átt við heildartekjur. Þarna er verið að gera þá breytingu að meðan áður var það þannig að vextir gátu hækkað ef meðaltekjur á síðustu þremur árum fóru yfir mörk þá er þarna verið að taka mið af meðaltekjum ákveðinn fjölda ára en tekjur tvö samliggjandi ár og hvort fyrir sig verða að hækka til að viðkomandi fari í raun út úr kerfinu sem er það sem verið er að gera þegar vaxtahækkun verður. Og þarna er verið að þrengja mjög þann hóp sem getur skyndilega lent í vaxtahækkun og verið að leitast við að þetta virki eins og til var ætlast að það sé verið að taka á því þegar fólk er komið í þær aðstæður að það kallar ekki lengur eftir eða réttlætir ekki að viðkomandi búi í þessu félagslega kerfi við svo mikið niðurgreidda vexti.
    Að lokum, virðulegur forseti, breytist 26. gr. örlítið, þ.e. að næstsíðasti málsliður í 1. mgr. g-liðar orðast svo:
    ,,Fyrning reiknast 1% af framreiknuðu verði íbúðar fyrir hvert ár.``
    Þetta er orðalag þeirra tillagna sem ég kynnti í upphafi, virðulegi forseti, og ég minni enn á að þær eru komnar til sökum þess samráðs sem lögð var áhersla á að hafa frá því að frv. var lagt inn í þingið, en það var lagt inn í þingið um leið og nefndin skilaði af sér og hefur verið kynnt fyrir öllum hlutaðeigandi.