Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:55:23 (4459)


[14:55]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki góð framsaga eða góð rök sem skipta hér sköpum heldur efnisinnihaldið og það er þetta efnisinnihald sem ég er að mótmæla. Það breytir því ekki að ef það á að fella þetta út þá er verið að stíga skref til baka frá því sem frv. hljóðar. Frv. er gott og ég verð að harma það mjög ef menn eru farnir að krukka í það á þennan veg að þetta sem er eitt hið allra besta í þessu frv. verður fellt út. Þá er bókstaflega verið að grafa undan því að þessi leiðrétting eigi sér stað.
    Ég er út af fyrir sig alveg sammála því að það séu ekki eins miklar líkur á því að fólk hækki í vöxtum eins og fyrir er. En þetta kemur hins vegar ekki þeim til góða sem þegar sitja í súpunni, hafa af einhverjum ástæðum lent í því að vera metnir upp og það þýðir þriggja ára bið áður en þessir aðilar eiga möguleika á leiðréttingu mála sinna og eins og ég gat um í mínu máli, þá eru um 40% af þeim hópi sem voru eða hafa verið metnir upp í vöxtum í vanskilum núna og það fólk er ekki allt í vanskilum vegna þess að það sé eitthvað að gera það að gamni sínu. Það gerir það ekki nokkur maður að gamni sínu. Það eru einfaldlega ýmsar ástæður og mér er kunnugt um að það eru allmörg dæmi um það einmitt að þarna sé um að ræða fólk sem hefur lent í atvinnuleysi, tekjulækkun og öðrum slíkum hremmingum og jafnframt fólk sem hefur látið glepjast til þess að fá sér e.t.v. í skárri tíð bifreið eða eitthvað slíkt og lent í því að vera metið upp. Þetta fólk fær ekki leiðréttingu fyrr en það er kannski orðið of seint.