Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 15:14:08 (4466)


[15:14]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að bæta örlitlu við það sem ég hafði um málið að segja í fyrri ræðu minni og nýta mér því síðari rétt til að tala í þessari umræðu. Ég vil fara aðeins betur yfir stjórnsýsluþáttinn í málinu og beina athyglinni að því hversu mjög sú breyting að flytja ákveðna þætti yfir til sveitarfélaga hefur gert framkvæmd málanna flóknari og skapað nokkur vandamál vegna þess að ekki hefur farið saman forræði málsins og ákvörðunartakan annars vegar og ábyrgðin á ákvarðanatökunni hins vegar.
    Eitt skýrasta dæmið um þetta er að finna í reynslunni af almennu kaupleiguíbúðunum þegar þáv. félmrh. ákvað og beitti sér fyrir því að stofna nýjan útlánaflokk sem síðan var lögfestur, svokallaðar kaupleiguíbúðar, bæði almennar og félagslegar. Í framhaldi af því beitti ráðherrann, þáv. varaformaður Alþfl., sér fyrir því að veitt yrði verulegu fé til að koma á fót þessum íbúðum. Því var haldið nokkuð að sveitarstjórnarmönnum að nýta sér þennan nýja valkost í lánakerfinu. Að sjálfsögðu nýttu sveitarstjórnarmenn sér það að peningahrúga væri í boði til að byggja íbúðir og í allnokkrum sveitarfélögum var það gert í umtalsverðum mæli þar sem menn fengu mjög ríflegar úthlutanir í því skyni. Má t.d. nefna Siglufjörð og Ísafjörð sem dæmi um það.
    Reynslan af þessu er því miður sú að þeir sem fengu úthlutunina tóku sjálfir ákvarðanir um íbúðastærðir og byggingar og völdu verktaka og ákváðu hvernig yrði staðið að því að finna sér verktaka. Þetta er eitt allra skýrasta dæmið um þá stöðu sem uppi er að menn hafa hlutina á tveimur höndum. Í annarri hendinni er aðilinn sem tekur ákvörðunina um útgjöldin, stofnar til útgjaldanna, þ.e. heima í héraði, en í hinni hendinni er aðilinn sem á að borga, þ.e. ríkisstofnunin. Og af því að ábyrgðin var ekki á sömu hendi og ákvarðanatakan í þessu varð reynslan sú og niðurstaðan, getum við sagt, að menn byggðu of stórar íbúðir. Menn byggðu íbúðir sem voru of dýrar og með hörmulegum afleiðingum. Þær seldust ekki og urðu mikið vandamál fyrir þá aðila sem stóðu að framkvæmdinni.
    Það hefur ekki farið mjög hátt en eitt af verkefnum húsnæðismálastjórnar hefur verið að leysa úr þessu vandamáli sem fyrrv. félmrh. bjó til með ábyrgðarlausum uppboðsmálflutningi eins og enn þá hendir einstaka ráðherra í Alþfl. Er hæstv. viðskrh. nýjasta dæmið um yfirborðsráðherra sem iðkar gylliboð og yfirboð í ýmsum málum, en það er önnur saga og höldum honum utan við þessa umræðu um húsnæðismálin.
    Það hefur því miður lent á stofnuninni að finna lausnir sem hafa verið fólgnar í því að auka niðurgreiðslur ríkissjóðs á þessum íbúðum, með því að færa þær á milli lánaflokka úr almennri kaupleiguíbúð og yfir í félagslega lánaflokka sem þýðir að menn hafa verið að taka ákvörðun um að greiða niður þessar íbúðir um svo og svo háar fjárhæðir, allt eftir því hvað lánin eru há í hverju tilviki. Má nefna sem dæmi að meðalniðurgreiðsla ríkisins af félagslegri íbúð sem kostar um 6 millj. kr. er um 2 millj. Það eru um 2 millj. kr. sem ríkið er að borga með hverri íbúð með því að lána út á vöxtum sem eru lægri en þeir vextir sem stofnunin er látin taka til að fjármagna lánið. Þessi fjárhæð er þeim mun hærri í þeim tilvikum sem íbúðirnar voru stærri og dýrari en í þeim tilvikum sem ég er að ræða um varðandi almennu kaupleiguíbúðirnar eru mjög margar íbúðir sem voru dýrar, kostuðu 8, 9 og 10 millj. kr. Þarna gerðu menn breytingu í stjórnsýslunni sem var ,,poppuler``, hún var poppuð. Hún innihélt klisjuna: Færum valdið heim í hérað. Gerði það hins vegar ekki í raun heldur færði bara ákveðinn ákvörðunarþátt út í hérað en skildi ábyrgðina eftir. Fyrir vikið urðu menn að borga af sameiginlegum sjóðum stofnunarinnar til þess að leysa úr þessu vandamáli.
    Þetta er því miður verulegt vandamál í félagslega húsnæðislánakerfinu í dag og þetta frv. tekur ekki á því. Það er út af fyrir sig stærra mál en svo að við getum ætlast til að finna lausn á því á þeim stutta tíma sem eftir er til þinglausna en ég tel það eitt allra stærsta málið í húsnæðislöggjöf að menn komi sér niður á lausn í þessu efni. Menn verða að velja úr hvorri Keflavíkinni menn ætla að róa. Ég er ekkert endilega að tala fyrir því að hlutirnir eigi að öllu leyti að vera ákvarðaðir af ríkinu. Ég er miklu frekar talsmaður þess að færa hlutina heim í hérað en þá í miklu ríkari mæli en gert er í núverandi löggjöf þar sem menn hafa aðeins á yfirborðinu fært heim í hérað ákveðna þætti en haldið eftir í hinu miðstýrða stjórnvaldi alla meginþætti málsins.
    Ég vil, virðulegi forseti, líka nefna eitt atriði sem ég tel þýðingarmikið og það er að laga útlánaflokkana að þörfum þeirra sem þeim eru ætlaðir. Ráðherrann kallaði þetta áðan í framsöguræðu sinni sveigjanlegra lánakerfi og það er út af fyrir sig ekki nýtt hugtak. Við alþýðubandalagsmenn höfum oftlega slegið þessu fram og ég vil minna á það sjónarmið okkar að við teljum að við eigum að laga útlánaflokkana að getu fólksins sem á að borga lánin. Við eigum ekki að vera að miða útlánaflokkunina við steinsteypu eða kjörin á lánunum við steinsteypuna. Við eigum að miða þau við getu fólksins sem á að standa undir þeim. Það er segja að við eigum að hafa það breytilegt hvort íbúð er, getum við sagt, á almennum markaði eða félagsleg íbúð eða í hvaða lánaflokki innan hinna félagslegu íbúða. Það fer eftir getu þess sem í íbúðinni er. Við eigum að breyta lánskjörunum eftir því sem hagur viðkomandi breytist en ekki að flytja hann út úr íbúðinni og finna honum aðra íbúð. Það er einstaklingurinn sem á að vera aðalatriði málsins en ekki íbúðin eða steinsteypan.
    Þetta tel ég að menn eigi að hafa að leiðarljósi við endurskoðun laganna og til þess að það nái fram að ganga þarf m.a. að auka sveigjanleikann í kerfinu þannig að unnt sé að breyta lánskjörum eftir aðstæðum hverju sinni.
    Ég minni á að við höfum flutt þingmál um þetta á yfirstandandi kjörtímabili, annars vegar lagafrv. um greiðslufrestun fasteignaveðlána þar sem við gerum ráð fyrir því að greiðslubyrði lánanna verði breytt í samræmi við minnkandi tekjur þeirra sem eiga að borga af þeim og svo hins vegar till. til þál. um greiðsluaðlögun húsnæðislána. Hvorugt þessara þingmála hefur náð fram að ganga en ég er sannfærður um að þær breytingar sem flokkarnir hugsa sér að gera á þessari löggjöf á næsta kjörtímabili grundvallast allar á því atriði að laga kjörin á lánunum að getu þess fólks sem á að borga af þeim.