Launamyndun og kynbundinn launamismunur

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 15:33:06 (4469)


[15:33]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra í tilefni af útkomu skýrslu um launamyndun og kynbundinn launamismun sem unnin er af Félagsvísindastofnun háskólans fyrir Jafnréttisráð. Ég vil fyrst láta það sjónarmið koma fram að ég held að þetta sé hin merkasta skýrsla og hin merkasta niðurstaða og Jafnréttisráð, norræna jafnlaunaverkefnið og höfundar eiga hrós skilið fyrir þetta framtak. Það kemur fram í inngangi skýrslunnar að ein ríkisstofnun hafi neitað að taka þátt í verkefninu og ég tel réttmætt að upplýsa hvaða opinbera stofnun er þar á ferðinni þó að öðru leyti verði ekki gefin upp nöfn. Ég skora á hæstv. félmrh. að sjá til þess að sú stofnun verði dregin fram í dagsljósið.
    Fyrst nokkur orð um helstu niðurstöður skýrslunnar. Ef skoðaðar eru heildartekjur karla og kvenna og þær bornar saman þá hafa konur einungis um 59% af tekjum karla. Þetta skýrist að sjálfsögðu að einhverju leyti af mismunandi starfshlutfalli. En þegar aðeins eru bornar saman tekjur þeirra sem eru í fullu starfi er hlutfall tekna kvennanna þó aðeins 65% þannig að mismunandi starfshlutfall dugar skammt til að skýra muninn. Ef skoðað er hvernig heildartekjur karla og kvenna í þessum hópi sem skýrslan fjallar um eru saman settar kemur í ljós að konur eru með 78% af hreinum dagvinnulaunum karla. Þegar aukagreiðslur eins og óunnin yfirvinna, þóknunareiningar og bílastyrkir og fleira því um líkt bætist við hallar á konurnar því við þetta hækkar kaup karlanna um 16% en kvennanna aðeins um 4%. Þegar yfirvinnu er svo bætt við og fundið út meðaltímakaup dregur enn í sundur og er meðaltímakaup eða jafnaðarkaup kvennanna aðeins 68% af meðalkaupi karla.
    Ef skoðað er samhengi menntunar og launamunar kemur sú ískyggilega mynd fram að launamunur vex með aukinni menntun. Ekki er marktækur munur á launum karla og kvenna með grunnskólamenntun, konur sem lokið hafa framhaldsskólaprófi eru með 78% af launum sambærilegra menntaðra karla og konur með háskólamenntun aðeins 64%.
    Þegar þetta er betur skoðað kemur í ljós að eiginlegur launamunur eða launamisrétti heldur innreið sína samfara aukinni menntun. Það er ekki marktækur munur á meðaltímakaupi í verkamanna-, iðnaðar-, þjónustu- og skrifstofustörfum eftir kynjum. Meiri heildartekjur karla í þessum stéttum skýrast af lengri vinnutíma. En slíkar skýringar duga ekki þegar um fólk með meiri menntun er að ræða. Þá er orðinn marktækur munur á meðaltímakaupi og í reynd verður ekki séð að neinar hefðbundnar skýringar svo sem mismunandi störf, mismikil menntun, mismikil yfirvinna, mismunandi starfsaldur o.s.frv. dugi til. Hér virðist því vera um blákalt launamisrétti að ræða.
    Eitt aðalbirtingarform þessa misréttis eru aukagreiðslur ýmiss konar. Mun fleiri karlar fá miklu hærri aukagreiðslur af ýmsu tagi en konur í sambærilegum hópum. Rætur þessa vanda virðast ekki síst liggja í því hvernig laun og kjör eru ákveðin og þeim viðhorfum sem eru ríkjandi í þeim efnum. Viðhorf til mannaráðninga og stöðubreytinga sem könnuð voru staðfesta að rík tilhneiging virðist vera til þess að láta konur gjalda þess að eiga ung börn og jafnvel láta undar konur gjalda þess möguleika að þær gætu átt barneignir í vændum.
    Sem sagt, hæstv. forseti, niðurstaðan er harla ljót. Það viðgengst grimmilegt launamisrétti eftir að allar gjaldgengar skýringar til að útskýra launamun karla og kvenna eru þrotnar. Það, hæstv. forseti, er lögbrot framan við nefið á okkur. Í opinberum stofnunum ekki síður en einkafyrirtækjum eru bersýnilega ekki virt þau ákvæði laga að greiða sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Önnur grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir: ,,Konum og körlum skulu með stjórnvaldsaðgerðum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu, launa og menntunar.`` Í 4. gr. er enn þá betur hnykkt á þessu og tekið fram að þar sé átt við allar greiðslur, yfirborganir og þóknanir af hvaða tagi sem er einnig. Vandinn, hæstv. forseti, er ekki sá að við eigum ekki góð lög heldur hinn að það er ekki farið eftir þeim.
    Í opinberum stofnunum er verið að skrifa upp á óunna yfirvinnureikninga, semja um nefndareiningar eða þóknunareiningar, bílastyrki og svo framvegis sem í reynd búa til launamistétti. Skýrslan er afhjúpandi um það. Léleg laun og tvöfalt launakerfi ýta undir þetta því í gegnum aukasporslurnar, sem eru aðferð manna til að bæta sér upp léleg laun, kemur launamisréttið. Svarið hlýtur að felast í einföldu og gagnsæju launakerfi þar sem öllum, jafnt konum sem körlum, eru greidd mannsæmandi umsamin föst laun.
    Ég vil að lokum leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. félmrh.:
    Hverjar eru að mati ráðherrans markverðustu niðurstöður skýrslunnar?
    Kalla niðurstöðurnar á breytingar á jafnréttislögum, framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum eða öðrum framkvæmdaatriðum í jafnréttismálum?
    Telur félmrh. koma til greina að láta yfirmenn stofnana og fyrirtækja sæta aukinni ábyrgð og telur ráðherra rétt að endurskoða 6. kafla jafnréttislaga um viðurlög og réttarfar?
    Til hvaða ráðstafana telur ráðherra rétt að grípa sérstaklega gagnvart þeirri niðurstöðu skýrslunnar að launamunur vex með aukinni menntun?
    Að lokum: Telur ráðherra að starfsmat til að mynda hjá opinberum stofnunum sé ein af þeim leiðum sem vænleg sé til árangurs til að vinna bug á launamisréttinu?