Launamyndun og kynbundinn launamismunur

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 15:39:26 (4470)



[15:39]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Já, þetta er merkileg skýrsla og rannsóknin er liður í samstarfsáætlun jafnréttisráðherra Norðurlanda fyrir tímabilið 1989 til 1994 og var á sviði launajafnréttis kvenna og karla og kallað norræna jafnlaunaverkefnið. Hún er einnig þáttur í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.
    Enda þótt niðurstöður skýrslunnar séu síður en svo ánægjuefni vil ég fagna þeirri umræðu sem átt hefur sér stað undanfarna daga um efni hennar. Mér virðast viðbrögð almennings benda til þess að þær aðstæður séu loksins að skapast í þjóðfélaginu að hægt sé að ráðast að rótum vandans sem fyrst og fremst felast í því að launakerfi hins opinbera er gengið sér til húðar og lágum grunnlaunum á almenna vinnumarkaðnum. Ég held að stjórnmálamönnum og stjórnendum fyrirtækja sé þetta löngu ljóst. Enda er þetta margra ára vandi sem hér er staðfestur.
    Spurningin er að mínu mati ekki sú hvort endurskoða þurfi launakerfi heldur hvenær það verður gert. Og þetta ástand er með öllu óviðunandi og á því verður ekki ráðin bót nema með víðtæku samstarfi og samkomulagi í þjóðfélaginu. Það þarf viðhorfsbreytingu.
    Ég vil að því er varðar skýrsluna lýsa ánægju minni með hana. Hún er fagmannlega gerð og þeim til sóma sem sáu um samningu hennar. Ég vil þó vekja athygli á þeim varnaðarorðum sem koma fram í skýrslunni, fjöldi einstaklinga sem haft var samband við var takmarkaður, dreift var 1.250 spurningaskrám og bárust svör frá 685. Þessi hópur var ekki valinn með tilviljunaraðferð. Af þessari ástæðu er varhugavert að alhæfa út frá niðurstöðum hennar þó að vísbendingarnar séu afar sterkar.
    Mér finnst sérstök ástæða til að þakka þeim atvinnurekendum og forstöðumönnum opinberra fyrirtækja sem veittu upplýsingar úr bókhaldi fyrirtækja sinna og svöruðu spurningum því annars hefði þessi skýrsla tæplega komið fram. Það er ekki hægt að gefa upp hvorki þá sem voru með né þá sem neituðu vegna þess að það er afar mikilvægt að geta átt slíkt samstarf aftur.
    Það er þó ljóst að þessi könnun staðfestir allar aðrar hliðstæðar kannanir. Það má nefna könnun

Þjóðhagsstofnunar um tekjur karla og kvenna og könnun kjararannsóknanefndar frá árinu 1992. Sú niðurstaða skýrslunnar að menntun leiði til launahækkunar bæði hjá konum og körlum kom mér ekki á óvart en sú staðreynd að hún leiðir til meiri launahækkunar hjá körlum en konum kom mér í opna skjöldu. Launamunur kynjanna hverfur því ekki þegar tillit er tekið til menntunar fólks. Þetta eru gífurleg vonbrigði sérstaklega þegar litið er til þeirrar fjölgunar sem orðin er á langskólagengnum konum. Að vísu er enginn munur á launum karla og kvenna sem ekkert nám hafa stundað eftir grunnskóla en töluverður munur er á launum karla og kvenna sem hafa lokið framhalds- og háskólaprófi.
    Niðurstöður sýna einnig að sérsamningar launþega og vinnuveitenda leiða til aukinns munar á launum karla og kvenna. Í þeim stéttum þar sem sérsamningar eru algengastir er langmesti munurinn á launum kynjanna. Þegar tekið er tillit til starfsstéttar, menntunar, starfsaldurs, fjölda yfirvinnutíma, inntak starfs og fjölda sem vinnur í sama herbergi eru konur með 11% lægri dagvinnulaun og aukagreiðslur á klukkustund en karlar. Í skýrslunni er fjallað um viðhorf starfsmanna til starfsins og viðhorf yfirmanna til starfsmanna. Það kemur fram að yfirmenn hvetja karla frekar en konur til að sækja ráðstefnur og koma með eigin hugmyndir og að vinna að sjálfstæðum verkefnum. Það er athyglisverður munur á viðhorfi. Forgangsröðun kvenna eða tilhneiging þeirra til að láta fjölskylduna ganga fyrir vinnunni var ekki eina ástæðan sem var gefin fyrir því að þær væru síðri starfskraftur. Margir töldu þær einnig hafa önnur viðhorf til vinnu, þær hefðu ekki sama áhuga og væru ekki tilbúnar til að fórna sér fyrir stofnunina eða fyrirtækið.
    Ég vil minna á það enn og aftur hversu mikilvægt það er í þessu efni að stjórnvöld setji sér fjölskyldustefnu vegna þess að við erum ekki eingöngu að slást við viðhorf heldur einnig aðstæður.
    Hvort skýrslan kalli á breytingar á jafnréttis- og framkvæmdaáætlun á eftir að skoða nánar. En ég vil benda á að skv. 4. gr. jafnréttislaga skulu konur og karlar fá sömu laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þessa lagagrein tel ég að þurfi að útfæra nánar hvort heldur er í reglugerð eða með setningu leiðbeinandi reglna fyrir vinnumarkaðinn. Ég tel vel koma til greina að settar verði leiðbeinandi reglur sem þá mundu jafnframt nýtast við beitingu starfsmats, eins og þingmaðurinn spurði um, hjá einstöku fyrirtæki eða stofnun og sem gæti nýst bæði hinu opinbera og almenna vinnumarkaðnum. Til þessa þarf gagnasöfnun sem er fyrsta skrefið.
    Einnig finnst mér mjög mikilvægt að mynda starfshóp, setja vinnu í gang eins og gert hefur verið á öðrum Norðurlöndunum, þar sem yrði unnið að starfsmatsreglum í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Ég hef þegar ákveðið að skipa slíkan hóp. Öðrum spurningum verð ég að koma að síðar í máli mínu.