Launamyndun og kynbundinn launamismunur

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 16:10:02 (4481)

[16:10]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tveimur frv. Annars vegar frv. sem er að finna á þskj. 652 og hins vegar 653. Bæði frv. fjalla um sama málið en það er endurgreiðsla oftekinna skatta og gjalda.
    Frv. er ætlað að tryggja að rétt til endurgreiðslu og vaxta af sköttum og gjöldum sem greidd eru umfram lagaskyldu í þeim tilvikum þar sem ákvæðum annarra laga er ekki til að dreifa. Aðdraganda að gerð þessa frv. má rekja til bréfs sem umboðsmaður Alþingis sendi Alþingi í nóvember 1993 þar sem hann óskaði eftir því að tekið yrði til athugunar hvort ekki væri ástæða til að setja lagareglur um endurgreiðslur opinberra gjalda sem greidd eru umfram lagaskyldu.
    Efh.- og viðskn. Alþingis fékk málið til umfjöllunar og lagði um vorið fram frv. um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Fjmrn. taldi undirbúning þess frv. ekki nægilega ítarlegan og mælti með því að málið yrði skoðað betur áður en ráðist yrði í lagabreytingar og í framhaldi af því skipaði ég nefnd sem falið yrði að kanna gildandi reglur á þessu sviði og gera tillögur til úrbóta. Nefndin lagði fram drög að þessu frv. ásamt öðru frv. um breytingar á ákvæðum nokkurra skattalaga til samræmis við þær reglur sem settar eru fram í þessu frv.
    Meginatriði frv. eru þessi: Í fyrsta lagi er settur ótvíræður réttur skattgreiðenda til endurgreiðslu ofgreiddra skatta og gjalda. Sú meginregla er sett fram að gjaldandi sem ofgreitt hefur skatta eða gjöld eigi rétt á endurgreiðslu svo fljótt sem mistökin uppgötvast óháð því hvort hann hefur greitt með fyrirvara eða ekki. Gert er ráð fyrir að stjórnvöld hafi frumkvæði að endurgreiðslum þegar ljóst er að ofgreitt hefur verið og ofgreidd gjöld verði endurgreidd með sama hætti og óháð því hvort rekja megi ofgreiðslu til atvika er varða gjaldanda sjálfan eða mistök stjórnvalda eða önnur atvik.
    Í öðru lagi er um að ræða að endurgreiðslur verði með vöxtum. Ofgreitt skattfé sem endurgreitt er samkvæmt frv. beri vexti frá því að ofgreiðslan á sér stað nema féð sé endurgreitt innan 30 daga. Vextirnir verði jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma en slíkir vextir eru nú 3%.
    Í þriðja lagi er greint frá því í frv. og gert er ráð fyrir greiðslu dráttarvaxta af ofgreiddu fé ef endurgreiðsla fer ekki fram innan 30 daga frá því að sett er fram krafa um endurgreiðslu. Ef stjórnvöld endurgreiða ekki skatt innan þeirra tímamarka mun það í flestum tilvikum stafa af því að ágreiningur er um skattskylduna eða fjárhæð skattsins. Í slíkum tilvikum er eðlilegt að skattgreiðandi eigi rétt á dráttarvöxtum ef réttur til endurgreiðslu er viðurkenndur á síðari stigum enda ber honum að standa skil á greiðslu skattsins þrátt fyrir ágreininginn.
    Þá er í frv. að finna sérreglu um endurgreiðslu gjalda fyrir opinbera þjónustu sem greidd eru fyrir fram eða samkvæmt áætlun og ákvæðum um fyrningu og endurgreiðslu krafna. Gert er ráð fyrir að frv., ef það verður að lögum, öðlist gildi 1. jan.
    Virðulegi forseti. Það er annað frv. sem fylgir þessu og þetta er sama málið, ég mæli þá jafnframt fyrir því. Tildrögin eru þau sömu. Ég vil geta þess jafnframt að hv. þm. Tómas Ingi Olrich hefur sýnt

þessu máli áhuga og flutt um þetta frv. sem hafa legið fyrir hv. efh.- og viðskn. og fengið umræðu þar en afgreiðslu málanna hefur verið frestað af þeim sökum að búast mátti við framlagningu þessa frv. og gert er ráð fyrir því að þetta frv. geti fengið afgreiðslu, bæði frv. reyndar, af því að hv. nefndarmenn í hv. nefnd hafa lýst áhuga sínum á því að leysa úr þessu viðfangsefni. Vil ég geta þess m.a. að haldinn hefur verið fundur í fjmrn., bæði með formanni og varaformanni nefndarinnar og báðir hafa þeir lýst yfir eindregnum stuðningi við frumvörpin.
    Breytingarnar sem felast í síðara frv. eru í fyrsta lagi að um er að ræða verðbætur á endurgreiðslu staðgreiðslufjár eins og kemur fram í 1. gr. Í 2. gr. er um að ræða að almennir vextir séu hækkaðir og dráttarvextir greiddir í ákveðnum tilvikum og þessu er lýst í 2. gr. frv. og til hvaða viðmiðana er gripið. Í þriðja lagi er fjallað um fresti yfirskattanefndar en í 3. gr. frv. eru gerðar breytingar á lögum nr. 30/1992 um yfirskattanefnd í þá veru að lögfesta ákveðna fresti til úrskurðar í öllum málum. Samkvæmt núgildandi lögum eru engin tímamörk í málum þar sem nefndin hefur ákveðið sérstakan málflutning, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Þessi breyting er nauðsynleg til að hægt sé að ákvarða tiltekinn dag sem upphafsdag dráttarvaxta samanber þá breytingu sem nefndin leggur til á 112. gr. tekju- og eignarskattslaganna.
    Virðulegi forseti. Það er ekki tími til þess hér af sérstökum ástæðum að fara efnislega frekar ofan í frv. Þetta eru tiltölulega auðskilin mál en þó þau séu flókin þegar farið er í gegnum alla löggjöfina. Hér er um réttlætis- og framfaramál að ræða og ég leyfi mér í lok ræðu minnar að óska eftir því að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.