Tilvísanakerfið

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:19:55 (4490)


[15:19]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara þeim spurningum sem hv. þm. lagði hér fram í lok máls síns. Hún spyr fyrst: Hvað gerist þegar uppsagnarfrestur yfir 200 sérfræðinga við Tryggingastofnun ríkisins rennur út?
    Ég ætla aðeins að skýra þetta örlítið. Samningur sérfræðilækna við Tryggingastofnun ríkisins rann út fyrir einu og hálfu ári síðan þannig að samningar eiga að vera búnir að vera lausir í á annað ár. Ítrekaðar tilraunir til að fá nýja samninga fram hafa ekki tekist. Það sem hins vegar er verið að ræða um er það að hver og einn sérfræðingur hefur þar að auki heimild til þess að segja sig frá viðskiptum við Tryggingastofnun ríkisins. Það er hans ákvörðun og þegar hann hefur gert það þá vinnur hann ekki lengur að sinni eigin ákvörðun fyrir íslenska heilbrigðiskerfið sem sérfræðingur með stofupraxís heldur algerlega á eigin vegum.
    Það eru skráðir alls 373 sérfræðingar hjá Tryggingastofnun ríkisins. 195 þeirra hafa sagt upp starfi eða sagt sig frá viðskiptum við Tryggingastofnun ríkisins. Sú uppsögn tekur gildi þann 1. maí nk. Þá eru eftir um það bil 50% sérfræðinga sem eru í störfum hjá Tryggingastofnun ríkisins eftir 1. maí. 37 þeirra hafa sagt upp störfum miðað við 1. júní þannig að þá verða eftir um 40% sérfræðinga enn í störfum hjá Tryggingastofnun ríkisins
    Hvað gerist þegar þessir menn hætta störfum er einfaldlega það að þá reikna ég með því að þeir sem vilja sækja sérfræðilæknishjálp hjá sérfræðingum sem eru á samningum við ríkið eiga um tvennt að velja. Annars vegar að leita til þeirra sérfræðinga sem þá eru eftir, hins vegar að leita á göngudeildir spítalanna.
    Það er spurt: Hvernig getur tilvísanakerfið sparað 100 millj. kr.? Niðurstaða þeirra sérfræðinga sem unnið hafa að kostnaðarmati á tilvísanakerfinu síðan árið 1993 er sú að það sé líklegast að það spari nettó um 120 millj. kr. Við í heilbrigðisráðuneytinu höfum viljað hafa vaðið fyrir neðan okkur og ekki fullyrt meira um það en 100 millj. kr.
    Þá er líka spurt hvað það kosti sjúklingana. Samkvæmt þessum athugunum lækka útgjöld sjúklinganna um 56 millj. kr. þegar tilvísanakerfið verður tekið upp. Auðvitað byggjast svona áætlanir að nokkru leyti á spásögnum og það er auðvitað reynslan sem sker úr. Til þess að fylgjast grannt með kostnaðaráhrifum tilvísanakerfisins mun ég þess vegna fara þess á leit við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að á því tveggja ára tímabili sem gert er ráð fyrir að tilvísanakerfið verði keyrt til reynslu þá fylgist Hagfræðistofnun Háskóla Íslands með kostnaðaráhrifunum frá degi til dags.
    Það er spurt: Hvernig verður það betur tryggt í nýja tilvísanakerfinu að sjúkrasaga sjúklings vistist á einum stað hjá heilsugæslulækni? Það er meginmarkmið kerfins. Eins og nú standa sakir veit heimilislæknir ekki einu sinni hvort sjúklingur sem hann hefur til meðferðar er jafnframt í meðferð hjá sérfræðingi. Og sérfræðingur sem hefur sjúkling til meðferðar veit ekki hvort sá sjúklingur er í meðferð hjá öðrum sérfræðingi í sömu grein eða hjá öðrum sérfræðingum í annarri grein. Og sérfræðingar og heimilislæknar vita ekki um þær rannsóknir sem hvor um sig er að gera á viðkomandi sjúklingi. Kjarninn í tilvísanakerfinu er að tryggja þetta og það tilvísanakerfi í því sambandi er alþjóðlega viðurkennt. Það er alþjóðlega viðurkennt að það er til þess að bæta fjárhagslega nýtingu opinbers fjár í heilbrigðisrekstri og til þess að bæta samskipti lækna um meðferð sjúklinga og ég vísa einfaldlega til skýrslna OECD í þessu sambandi þar sem þetta kemur mjög glöggt fram.
    Hvað er talið að nýtt tilvísanakerfi kosti sjúkling í peningum? Ég hef svarað því að það er gert ráð fyrir því að það dragi úr útgjöldum sjúklingahópsins um 56 millj. á ári.
    Hvað kostar það ríkið að koma þessu tilvísanakerfi á? Í fjárlögunum er ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum framlögum til þess þannig að heilbrrn. hefur enga möguleika á því að verja einhverju fé í heilbrigðiskerfið í þessu sambandi. Þvert á móti er gert ráð fyrir því í fjárlögunum að þetta kerfi spari ríkinu peninga en ekki að það kosti ríkið fé.
    Þá er sagt að 8 þúsund Reykvíkinga vanti heilsugæslulækni, hvernig eru þeir tryggðir? Samkvæmt upplýsingum heilsugæslunnar í Reykjavík stafar þessi tala, 8--10 þúsund manns sem vantar heimilislækni, af því að þegar börn flytjast úr tryggingu foreldra sinna yfir í sjálfstæðar tryggingar þá verður alltaf tímadráttur á því að viðkomandi skrái sig hjá heimilislækni. Ég hef trúað þessu, eins og hv. þm., að þetta væri svona, en fullyrðingar heilsugæslunnar í Reykjavík eru að það sé ekki svo. Og eins og nú standa sakir þá eru tólf heilsugæslulæknar í Reykjavík, eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið, sem geta tekið við sjúklingum. Þannig að eftir þeim upplýsingum sem heilsugæslan í Reykjavík gefur mér þá á þetta ekki að vera vandamál og fagna ég því, því satt að segja óttaðist ég að þarna gæti orðið um að ræða eitthvert vandamál í Reykjavík.