Tilvísanakerfið

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:25:31 (4491)


[15:25]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur fyrir að taka þetta mál hér upp því satt að segja eru æðimargar spurningar sem hafa vaknað á undanförnum dögum og í þessari umræðu á undanförnum vikum og mánuðum um tilvísanakerfið. Það er með tilvísanakerfið, eins og ýmsar aðrar ákvarðanir sem hæstv. ráðherra hefur tekið á sínum ráðherraferli, að það er afar umdeilt vægast sagt og deilurnar hafa náð inn í hans eigin flokk þar sem menn og jafnvel fyrrv. heilbrrh. eru ekki sammála um ágæti þessa tilvísanakerfis.
    Hæstv. ráðherra svaraði nokkrum spurningum sem hv. þm. bar fram og ég vildi gjarnan heyra enn frekari svör um það hvernig í ósköpunum þetta á að spara eða þýða 56 millj. lækkun til sjúklinga þar sem í raun er um það að ræða að sjúklingurinn þarf að borga fyrst komugjald á heilsugæslustöð og síðan hjá sérfræðingi þannig að það er um tvöföldun að ræða á útgjöldum sjúklings. Ég vildi gjarnan heyra það hverjar verða tekjur ríkisins af þessu tilvísanakerfi. Það má vera að það náist fram einhver sparnaður, sem sagt þetta á að skila einhverjum tekjum inn. Því ef það eru um 60 þúsund komur til sérfræðings, sem eru að vísu miklu fleiri, en setjum nú svo að þær séu 60 þúsund, þá þýðir það 36 millj. kr. sem skila sér inn til heilsugæslunnar í landinu vegna þess að 600 kr. komugjald er á hverri stöð fyrir hvern sjúkling. Mér finnst þetta vera fyrst og fremst óhagræði og kostnaðarsamt og er sannfærð um að þetta mun ekki skila þeim árangri í sparnaði sem ráðherra hefur haldið svo mjög á lofti. Og reyndar hefur fyrrv. hæstv. heilbrrh., Guðmundur Árni Stefánsson, fullyrt það líka að þetta muni ekki skila þessum árangri.