Tilvísanakerfið

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:42:17 (4498)


[15:42]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þau svör sem hann veitti þó að þau væru engan veginn fullnægjandi, enda bjóst ég alls ekki við því vegna þess að það er greinilegt að þessi undirbúningur er ekki nægjanlega góður. En mig langar að segja það áður en ég fer út í einstaka liði varðandi hæstv. ráðherra að síðasta ræða var alveg með eindæmum. Hér stendur upp hv. 1. þm. Vesturl. og talar um það að hann skilur ekkert í Framsfl. að spyrja nokkurra spurninga um þetta tilvísanakerfi. Við höfum ekki verið að skrifa skítagreinar í blöðin um tilvísanakerfið. Það hafa sjálfstæðismenn aftur á móti verið að gera þannig að mér finnast þessi tilsvör þingmannsins undarleg. En það er algjört aukaatriði, enda vissi ég ekki hvar hann var staddur í þessu máli því að hann hafði engin rök, hvorki með né á móti þessu kerfi.

    En faglegu rökin sem hæstv. heilbrrh. talaði um að væru tryggð í þessari reglugerð um tilvísanir tel ég alls ekki vera tryggð. Ég tel engan veginn meiri tryggingu nú en áður fyrir því að sjúkrasaga sjúklingsins sé vistuð hjá heilsugæslulækni. Það tel ég ekki vera nægilega öruggt eins og þetta er í dag því að það tel ég vera til mikilla bóta ef það næðist. Ég tel, eins og margir hafa talað um, að auðvitað eigi grunnheilsugæslan að vera á heilsugæslustöðvunum. En ég tel að það þurfi margt að gerast áður. T.d. þarf að byggja í Reykjavík einar þrjár til fjórar heilsugæslustöðvar og eitthvað hlýtur það að kosta af því að hann talaði um sparnaðinn af þessu kerfi. Hæstv. ráðherra talaði líka um það að göngudeildirnar geti tekið á móti þeim sjúklingum sem ekki fari til sérfræðings. Það er alger misskilningur vegna þess að þær göngudeildir sem eru starfandi í Reykjavík eru fullbókaðar allar saman.
    Hæstv. heilbrrh. sagði að þetta mundi spara sjúklingum 56 millj. Þá hlýtur ráðherra að vera að tala um það að sjúklingar hætti að fara til sérfræðings. Annars geta þessar 56 millj. alls ekki sparast.
    Það er sem sagt niðurstaða mín eftir þessar umræður að þetta sé enn einn nýr sjúklingaskatturinn og það er ekki gott.