Tilvísanakerfið

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:44:57 (4499)


[15:44]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Undirbúningur að upptöku tilvísanakerfis hefur staðið í mörg ár. Það var unnið mikið undirbúningsverk í tíð fyrrv. heilbrrh. Guðmundar Bjarnasonar. M.a. voru sóttir erlendir sérfræðingar til viðræðna við sérfræðilækna, sérfræðingar frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, en þar liggur fyrir að það er álit Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að það kerfi sem gagnist best til að tryggja fagleg samskipti milli lækna og skynsamlega nýtingu fjármuna sé einmitt tilvísanakerfi.
    Árið 1992, þegar ég byrjaði undirbúninginn að því kerfi, óskaði ég sérstaklega eftir því að Félag heimilislækna og Félag sérfræðinga skipuðu hvorn sinn fund fulltrúa til samstarfs við heilbrrn. til að þeir gætu komið sínum sjónarmiðum að. Félag heimilislækna féllst á þetta en Félag sérfræðinga neitaði því. Það var því að þeirra eigin frumkvæði sem ekki var haft það samráð við sérfræðinga sem ég vildi allt frá árinu 1992.
    Skoðun á kostnaðaráhrifum hófst rétt eftir áramótin 1993 og hefur staðið síðan. Það hefur því farið fram mikill og vandaður undirbúningur að þessari aðgerð. Mér er það ljúft og raunar skylt að bjóða flokkum þingsins það að ef menn vilja fá fólk til viðræðna við sig frá heilbrrn. til að útskýra þær breytingar sem þarna er verið að gera, kostnaðarleg áhrif þeirra, fagleg áhrif þeirra o.s.frv., þá er það alveg sjálfsagt.
    Aðeins örfá orð því það er ekki mikill tími sem gefst til þess að svara. Það var sagt: Kallar ekki 10% aukning á komum á heilsugæslustöðvar á aukinn kostnað? Komum á heilsugæslustöðvar fækkaði árið 1993 um 10%. Nú eru menn að tala um að komum á heilsugæslustöðvar kunni að fjölga aftur um 10--15%. Menn eru því að tala um álíka margar komur á heilsugæslustöðvar á árinu 1995 og þær voru á árinu 1993. Ég tel því ekki að það hafi mikil kostnaðaráhrif í för með sér.
    En ég ítreka það, virðulegi forseti, af því það gefst stuttur tími til að ræða þessi mál hér að þau hafa fengið mikinn og vandaðan undirbúning á mörgum sviðum og að þeim þingflokkum sem óska eftir að fá frekari upplýsingar um þetta kerfi er það guðvelkomið og ég skal beita mér sérstaklega í því að þær upplýsingar verði lagðar fram.