Endurgreiðsla virðisaukaskatts til sveitarfélaga

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:57:03 (4502)



[15:57]
     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svör hans en ég verð að segja að ég er mjög ósátt við þá túlkun að söfnun og flutningur á brotamálmum falli ekki undir orðið sorp í þessari reglugerð, einkum og sér í lagi vegna þess að hér hefur verið boðað frv. þar sem verði tekið sérstaklega á meðferð og flutningi brotamálma en það frv. hefur ekki komið fram og við höfum ekki séð það í þinginu. Meðan svo er að ekki gilda um þetta reglur, og þetta er stór hluti af umhverfisátaki sem er í gangi hjá mjög mörgum sveitarfélögum, þá finnst mér eðlilegt að endurgreiðslan eigi sér stað. Sveitarfélögin fóru á sínum tíma fram á að sett væri á laggirnar nefnd þar sem sveitarfélögin og ríkisvaldið kæmu að til að fjalla um þetta. Mér skilst að starfshópur hafi verið skipaður árið 1990 sem var samstarfshópur fjmrn. og sveitarfélaganna. Í bréfi frá skattstjóra sem er frá því í október 1994 stendur, með leyfi forseta:
    ,,Hópur þessi kom saman í fáein skipti á árinu 1990. Var þar helst á döfinni að ræða fjárhagsleg áhrif skattsins á afkomu sveitarfélaganna en ágreiningur var á milli ríkis og sveitarfélaga um það verkefni. Á haustmánuðum 1991 var ákveðið að skipta hópnum í tvennt. Þannig var öðrum hluta hans var falið að kanna ýmis lagatæknileg atriði og hinum hluta hópsins var falið að kanna nánar fjárhagsleg áhrif af upptöku virðisaukaskattsins. Á starfstíma hópsins hafa örfáir fundir verið haldnir og ekki finnast nema tvær fundargerðir þ.e. frá 20. maí 1992 og 1. júlí 1992. Rétt þykir að benda á að fulltrúar frá embætti ríkisskattstjóra höfðu ekkert frumkvæði að því hve oft þessi starfshópur kom saman.``
    Þetta segir kannski svolítið um það af hverju þessi ágreiningur hefur síðan komið upp milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjmrn. um túlkun á þessari reglugerð. Ég mundi vilja biðja hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að þessi starfshópur verði virkur.