Iðnhönnun

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:10:57 (4507)


[16:10]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir mjög greinargóð svör við mínum spurningum. Mér sýnist að þessi svör leiði það í ljós að á vegum iðnrn. og í samstarfi við aðila atvinnulífsins sé ýmislegt verið að gera sem lýtur að iðnhönnun og hvers konar hönnun og áætlanagerð er styrkir framleiðsluiðnaðinn í landinu.
    Tvennt vil ég þó draga sérstaklega fram. Það er annars vegar samstarf sem snýr að sjávarútvegi. Það fer ekki á milli mála að íslenskir hönnuðir og íslenskir iðnaðarmenn hafa lyft grettistaki í framleiðslu á margs konar vélbúnaði sem tengist vinnslu sjávarafurða. Það er ástæða til að draga það fram hér.
    Að hinu leytinu vildi ég nefna að ég tel að það sé eitt svið í íslenskum iðnaði sem þyrfti að taka alveg sérstaklega til meðferðar og það er íslenskur byggingariðnaður. Það er mjög kvartað undan mikilli greiðslubyrði húsbyggjenda og húseigenda og yfirleitt litið á það frá því sjónarhorni að tekið sé of mikið af lánum. Ég tel að það þyrfti að gera sérstakt átak við þróunarstarf í íslenskum byggingariðnaði til þess að leita allra leiða til að lækka byggingarkostnað, bæði á húshlutum, innréttingum og öðru. Það væri e.t.v. mikilvægasta og merkasta kjarabót sem íslenskir launþegar gætu fengið ef verulega góður árangur tækist á því sviði.
    Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin en legg áherslu á það að þó að þessu verkefni hönnunarstöðvar ljúki að loknum tveimur árum þá vinni iðnrn. að því að undirbúa nýja áætlun sem taki við þegar þessu tímabili lýkur því mér sýnist að af nógu sé að taka.