Áhættumat fyrir Reykjavíkurflugvöll

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:34:05 (4516)


[16:34]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil umræða um Reykjavíkurflugvöll, staðsetningu hans, nálægð við þéttbýli með tilliti til hávaðamengunar og slysahættu fyrir byggðina annars vegar og hins vegar hlutverk hans í flugsamgöngum í kerfinu þar sem ljóst er að hann gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki.
    Eins og fram kemur í fsp. hv. þm. var skipuð nefnd í desember 1981 af þáv. samgrh., hv. þm. Steingrími Sigfússyni, til að vinna áhættumat vegna Reykjavíkurflugvallar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að gerð áhættumats vegna flugvallarins krefðist yfirgripsmeiri og sérhæfðari rannsókna en væru á færi nefndarinnar auk þess sem ekki lægi fyrir ákvörðun um hvað geti talist ásættanleg áhætta af rekstri flugvallar í Vatnsmýrinni.
    Það sem gert hefur verið í framhaldi af skýrslu nefndarinnar er eftirfarandi:
    Flugmálastjórn hefur haft til athugunar svæði í Óbrynnishólabruna í landi Hafnarfjarðar þar sem byggja mætti flugvöll fyrir æfingakennslu í einkaflugi í því skyni að draga úr umferð við Reykjavíkurflugvöll með því að þannig mætti minnka slysahættu fyrir byggðina. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði gáfu það svar á sínum tíma að þau væru mótfallin því að byggja flugvöll á þessu svæði vegna mengunarhættu, m.a. vegna nálægðar við vatnsból. Ekki hefur enn fundist annað svæði í nágrenni Stór-Reykjavíkursvæðisins sem gæti þjónað þessu hlutverki jafn vel og Óbrynnishólalandið.
    Skráning á brautarnotkun hefur verið tekin upp en aðrir þættir sem áhersla var lögð á af nefndinni eins og flutningur gas- og eldsneytisgeyma er til athugunar og vinnslu hjá viðkomandi aðilum, þ.e. hjá borgaryfirvöldum og Skeljungi.
    Á undanförnum árum frá því að skýrslan um áhættumatið kom út hafa helstu framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli verið eftirfarandi:
    Gerð öryggissvæða við suðurenda norður/suður flugbrautar, framkvæmdir við nýja girðingu, viðhald á flugskýli númer þrjú, endurnýjun á stefnusendi og nýbygging fyrir véla-, trésmíða- og rafmagnsverkstæði. Auk þess var byggð ný spennustöð ásamt vararafvélum og ljósaspennum. Einnig hefur verið keyptur aðflugshallasendir, vindmælar og skýja- og skyggnismælir.
    Önnur spurning laut að því hvort ákveðið hefði verið að fylgja eftir tillögum nefndarinnar um að hætta öllu ferjuflugi og að millilandaflugi yrði beint til Keflavíkur.
    Ekki hefur verið framkvæmanlegt að beina erlendum minni flugvélum frá Reykjavíkurflugvelli til annarra flugvalla þar sem flugvöllurinn er skráður alþjóðlegur flugvöllur í flugmálahandbók, skammstafað AIP.
    Lendingargjöld vegna erlendra flugvéla hafa verið hækkuð verulega umfram gjaldskrá Keflavíkurflugvallar en lítið hefur samt sem áður dregið úr umferð þessara flugvéla um Reykjavíkurflugvöll. Það að leggja niður notkun á norðaustur/suðvestur braut, skammstafað 07--25, hefur ekki reynst gerlegt m.a. vegna þess að sambærileg flugbraut á Keflavíkurflugvelli hefur ekki verið snjóhreinsuð vegna sparnaðaraðgerða varnarliðsins og eru það eindregin tilmæli flugrekenda að braut 07--25 á Reykjavíkurflugvelli verði ekki lokuð.
    Notkun á þessari flugbraut hefur verið tiltölulega lítil á undanförnum árum ef undanskildir eru veturnir 1992 og 1993 en vegna ríkjandi suðvestanvinda þá var brautin mjög oft notuð í áætlunarflugi.
    Þriðja spurning hv. þm. hljóðar svo: ,,Ef tillögunum hefur verið hafnað, hvaða forsendur liggja þá að baki?``
    Svarið er: Eins og að ofan greinir hefur tillögum nefndarinnar ekki verið hafnað heldur hefur verið leitast við að framkvæma tillögur hennar eftir því sem kostur er og mögulegt hefur verið.