Áhættumat fyrir Reykjavíkurflugvöll

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:39:49 (4518)


[16:39]
     Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir hans svör en mér heyrist á þeim svörum að lítið hafi tillögunum verið fylgt eftir, a.m.k. að því er þennan lið varðar og ég ætla ekki að fara að ræða um aðrar tillögur nefndarinnar. Ég tek undir með hv. 1. þm. Norðurl. v. að það er sjálfsagt að reyna að draga úr bæði áhættu og ónæði sem er vegna þessa flugvallar í miðri Reykjavíkurborg, ónæði sem við verðum m.a. vör við stundum í þessu húsi.
    Það er alveg ljóst að þegar eitthvað ber út af í ferjuflugi þá hefur raunverulega alltaf verið leitað til Keflavíkurflugvallar með þær vélar og reyndar hefur björgunarsveit varnarliðsins oftar en ekki verið tilkvödd til þess að veita aðstoð þegar þannig hefur borið við.
    Ég skora því á ráðherrann að taka þetta mál fastari tökum því svo ég vitni í nefndarálitið aftur þá segir á bls. 76:
    ,,Farþegaflugi og einkaflugi útlendinga má beina til Keflavíkurflugvallar með því að bæta þar þjónustu við smáflugvélar en einnig með umtalsverðri hækkun lendingargjalda og þjónustugjalda á Reykjavíkurflugvelli fyrir millilandaflug. Nú eru komin hótel í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli er góð aðstaða til tollafgreiðslu og útlendingaeftirlits eins og nauðsynlegt verður að teljast. Góð þjónusta við smærri flugvélar mundi einnig tengja innanlandsflug með farþega og frakt, til að mynda með ferskan fisk, við millilandaflug frá Keflavíkurflugvelli.``
    Ég held að því verði ekki á móti mælt að öll þjónusta suður frá er miklu betri en er á Reykjavíkurflugvelli fyrir þetta flug og ég held að þó að við ræðum síðar um hluti eins og kennsluflugið og því um líkt þá tek ég undir með hv. 1. þm. Norðurl. v. að það á skilyrðislaust að flytja ferjuflugið og einkaflug útlendinga suður eftir og það á að beita hvaða ráðum sem möguleg eru til þess og jafnvel enn meiri hækkun gjalda hér en hefur verið gert þó að þar hafi eitthvað verið að gert.
    Aðstaðan öll er orðin mjög góð suður frá og þetta mundi draga mjög úr þeim áhættuþáttum og ónæði sem er af flugvellinum í Reykjavík.
    Ég vil svo að lokum skora á ráðherrann að taka þetta mál upp þó ekki væri nema þennan lið í tillögum nefndarinnar.