Varnir gegn mengun af útblæstri bifreiða og brennslu olíu og bensíns

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:47:40 (4521)


[16:47]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að vekja máls á nauðsyn þess að efla varnir gegn mengandi útblæstri í bifreiðum og reyndar frá brennslu olíu og bensíns. Nú er það ekki svo, eins og mátti ráða af máli hv. þm., að mönnum væri leyfilegt að koma á bifreiðum sem spúa mengandi efnum nánast óhamið eins og ég skildi mál hv. þm. Staðreyndin er sú að við höfum ákveðnar reglur til þess að fara eftir og höfum á síðustu árum verið að þrengja þær reglur.
    Varðandi svar við fyrri lið fyrirspurnar hv. þm. er það að segja að í 6. viðauka með mengunarvarnareglugerð nr. 48 frá síðasta ári, sem var raunar breytt síðast í október, eru ákvæði um leyfilegt hámark tiltekinna mengunarefna í útblæstri bifreiða. Þau mörk sem þar eru sett jafngilda kröfu um fullkominn hreinsibúnað á útblásturinn. Þannig að það er raunhæft að gera ráð fyrir því að mengun frá útblæstri bifreiða muni minnka á næstu árum eftir því sem notkun eldri bifreiða, sem fluttar voru inn fyrir mitt ár 1992, verður hætt.
    Þá er þess að geta að markaðshlutdeild blýlauss bensíns hefur stöðugt vaxið á undanförnum árum og er nú um það bil 85% af markaðnum. Þetta hefur haft í för með sér að styrkur blýs í andrúmslofti hefur minnkað til muna. Þessi þróun hefur verið staðfest með mælingum Hollustuverndar ríkisins á ákveðnum mengunarefnum í andrúmslofti hér í Reykjavík þar sem kemur t.d. fram að mengun núna að því er blý varðar er einungis fimmtungur af því sem hún var áður. Þessi þróun mun væntanlega halda áfram enda eru allar nýrri bifreiðar gerðar til þess að nota eingöngu blýlaust bensín. Það er vitaskuld líka nauðsynlegt að tryggja að hreinsibúnaður bifreiða sé virkur. Eftirlit með og mæling á efnasamsetningu útblásturslofts fer fram samhliða árlegri skoðun bifreiða og þá eru gerðar athugasemdir ef útblástur fer yfir ákveðin mörk. Það er gerð krafa um endurskoðun. Í alvarlegri tilvikum eru bifreiðar teknar úr umferð.
    Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að lausagangur bifreiða er vandamál og er nánast óþolandi og sérhver ætti auðvitað að byrja í sínum eigin bakgarði. Það er nú einu sinni þannig, hv. þm., að einmitt við þetta hús, Alþingi Íslendinga, má mjög oft sjá bifreiðar í lausagangi einmitt hérna fyrir utan. Þarna þurfa menn auðvitað að taka höndum saman, ekki bara umhvrn. heldur Alþingi og raunar flestar stofnanir og landsmenn allir.
    Varðandi seinni spurningu hv. þm. er því til að svara að það hafa ekki enn þá verið gerðar kröfur til útblásturs annarra tækja en bifreiða. Þessi mál hafa samt verið athuguð af kostgæfni og það er í undirbúningi tilskipun Evrópusambandsins þar sem verða settar fram kröfur til útblásturs véla annarra en bílvéla sem eru notaðar hér á landi. Ísland tekur þátt í þessu og sömu kröfur verða gerðar hér og í ESB þegar þar að kemur.
    Nýlega hefur hins vegar verið sett reglugerð um leyfilegt hámark brennisteins í gasolíu hér á landi. Hún tekur yfir alla notkun gasolíu, hvort heldur er um að ræða til upphitunar, í iðnaði eða til þess að knýja vélar ýmissa tækja.
    Annað sem skiptir líka miklu máli varðandi upphitun og notkun olíu í iðnaði er förgun og nýting olíuúrgangs. Það þarf vitaskuld að koma þeim málum í miklu betri farveg heldur en hefur verið á undanförnum árum. Úrgangsolían hefur oft verið notuð til húshitunar og í iðnaði á undanförnum árum, oftast við óviðunandi aðstæður. Í úrgangsolíu geta verið óæskileg úrgangsefni, t.d. þungmálmar og ýmis önnur óæskileg efni sem þarf að farga með sérstakri varúð. Þetta hefur verið talsvert vandamál hér innan lands en það hefur verið unnið ötullega að þessu síðustu missiri og nú er komin viðunandi förgunarleið hér á landi sem um leið nýtir þá orku sem er fólgin í olíuúrganginum.
    Þá er þess líka að geta að það er í undirbúningi tilskipun á vegum Evrópusambandsins um takmörkum á brennisteinsinnihaldi í öllu eldsneyti af jarðefnatoga. Það verður auðvitað fylgst með þróun þeirra mála og kröfur sem verða mótaðar innan hins Evrópska efnahagssambands munu einnig gilda hér á landi og þar með verður dregið úr útblástursmengun af völdum brennslufljótandi jarðolíueldsneytis.
    Það má líka geta þess að það hafa verið unnin drög að framkvæmdaáætlun til þess að draga úr losun efna sem geta valdið svokölluðum gróðurhúsaáhrifum. Áætlunin felur m.a. í sér betri nýtingu á orku og aukna hlutdeild hreinni orkugjafa. Það er fyrst og fremst koltvíildi sem kemur frá brennsluolíum og kolaeldsneyti sem skiptir hér mestu máli, sú takmörkun á losun efna sem getur valdið gróðurhúsaáhrifum og ef það verður samkomulag um þessa takmörkun þá mun það einnig hafa veruleg áhrif á útblástursmengun á Íslandi af völdum brennslu á olíu í framtíðinni. En ég vek athygli á því að hér er um að ræða vandamál sem er auðvitað ekki einskorðað við Ísland heldur við heiminn allan, einmitt út af þessum gróðarhúsaáhrifum sem að stórum hluta til koma af brennslu eldsneytis af jarðefnatoga. Þá kunna að verða veðrabreytingar sem geta leitt til þess að heilar þjóðir og heil menningarsamfélög í ákveðnum hlutum heims munu bókstaflega hverfa undir yfirborð sjávar. Það geta jafnframt orðið straumbreytingar hér á norðurhveli jarðar sem geta leitt til þess að innan einhverra alda kynni Ísland ekki að vera jafnbyggilegt og það er nú fyrir tilstilli Golfstraumsins.