Náttúruverndarár Evrópuráðsins

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:02:32 (4527)

[17:02]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. og þingheimi öllum er vafalaust kunnugt þá var tekin ákvörðun um það á ráðherrafundi Evrópuráðsins í Luzern árið 1993 að tileinka árið 1995 náttúruvernd og það var ákveðið að Evrópuráðið og aðildarlönd þess mundu standa fyrir upplýsingaherferð undir heitinu: Náttúruverndarár Evrópu 1995, en í ár eru einmitt liðin 25 ár frá því að Evrópuráðið stóð fyrir sínu fyrsta náttúruverndarári. Þá var athyglinni fyrst og fremst beint að nauðsyn þess að koma upp friðlöndum og þjóðgörðum. Í ár er það hins vegar svo að athyglinni er fyrst og fremst beint að nauðsyn þess að vernda náttúruna og umgangast hana með jákvæðum hætti, líka utan friðlanda og ekki síst í nágrenni byggðarlaga og jafnvel innan byggðarlaga. Þetta er afskaplega mikilvægt.
    Í framhaldi af ákvörðun ráðherrafundarins og ósk Evrópuráðsins um undirbúningsnefndir í aðildarlöndunum þá tók umhvrn. fyrir hönd Íslands ákvörðun um að taka þátt í þessu ári og skipuleggja aðgerðir hér á landi. Það var leitað eftir tilnefningum nokkurra félagasamtaka í undirbúningsnefnd sem skipuð var á haustdögum 1993. Í þessari nefnd sitja fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags ísl. skáta, Sambands ísl. sveitarfélaga, Íþróttasambands Íslands, Búnaðarfélags Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands, Kennarasambands Íslands, Náttúruverndarráðs, Landverndar og auk þess fulltrúi umhvrn. Formaður nefndarinnar var Baldvin Jónsson.
    Þessari nefnd var falið að gera tillögu að dagskrá ársins hér á landi og í samvinnu við umhvrn. að undirbúa og sjá um framkvæmd náttúruverndarársins hérlendis. Nefndin skilaði tillögum um aðgerðir síðla síðasta árs sem ráðuneytið samþykkti að flestu leyti og nú er unnið að því að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd. Reyndar fór það líka svo að við ákváðum að reyna að draga inn fleiri félagasamtök og aðila og erum raunar að opna þetta þannig. Við höfum auglýst eftir því að sem flestir komi með hugmyndir og menn geta gert það eftir því sem líður á árið og við munum reyna að taka þátt í því að hrinda því í framkvæmd.
    Eins og hv. þm. er kunnugt þá var árið formlega sett í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 4. febrúar. Þá var opnuð sýning á 33 verðlaunamyndum úr ljósmyndasamkeppni sem Evrópuráðið stóð fyrir í tilefni af náttúruverndarárinu. Þessi samkeppni var kynnt hér á landi með sérstökum bæklingi sem var dreift til fjölmiðla, samtaka ljósmyndara og lá frammi í ljósmyndavörubúðum og svo skemmtilega vill til að það var

einmitt Íslendingur sem bar sigurorð af öllum öðrum 2.200 keppendum, Sigrún Stefánsdóttir fréttamaður, sem vann til 1. verðlauna með ljósmynd sem hún tók á Grænlandi. Við höfum líka látið gera sérstakt merki fyrir hið íslenska náttúruverndarár. Það er gert af Áslaugu Jónsdóttur myndlistarmanni og byggir á hugmyndum um þjóðarblóm Íslendinga, holtasóley. Jafnframt hefur verið kynnt opinberlega lag náttúruverndarársins hér á landi sem var samið af Melkorku Ólafsdóttur sem hún gerði þegar hún var 10 vetra gömul. Textinn er eftir Sigrúnu Helgadóttur. Það er unnið að hljóðritun lagsins sem á síðan að dreifa.
    Aðgerðunum hefur í megindráttum verið skipt í tvennt. Annars vegar aðgerðir sem ráðuneytið í samvinnu við undirbúningsnefndina eða aðra aðila stendur sérstaklega fyrir í tilefni ársins og hins vegar aðgerðir sem skipulagðar eru af ýmsum frjálsum félagasamtökum, áhugamannasamtökum, fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum og undirbúningsnefndin samþykkir að falli undir markmið ársins og heimilar þá viðkomandi aðilum að nota slagorðið, merkið og lagið. Með þessu er ætlunin að reyna að fá sem flesta til þess að taka þátt í þeim framkvæmdum sem hér tengjast náttúruverndarári Evrópu.
    Á árinu hyggst umhvrn. í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaganna standa fyrir kynningarfundum í landshlutunum um málefni sem tengjast náttúrunni og náttúrulegum svæðum í nágrenni byggðar í viðkomandi landshlutum. Þess má líka geta að Evrópuráðið fór þess á leit að allar póst- og símamálastjórnir í Evrópu gæfu út sérstakt frímerki í tilefni ársins. Við höfum kannað hvort það er mögulegt hér á landi og okkur hefur borist svar frá Pósti og síma um að það sé mögulegt og munum óska eftir að það verði gert og sérstakur póststimpill jafnframt.
    Í samvinnu við menntmrn. áformar umhvrn. að standa fyrir ritgerðasamkeppni í grunnskólum landsins um efni sem tengist megináherslum náttúruverndarársins, m.a. náttúrlegum svæðum í nágrenni skólanna og í nágrenni heimilanna.
    Við höfum líka í samvinnu við Ungmennafélag Íslands ákveðið að standa fyrir hreinsunarátaki á árinu þar sem verður lögð áhersla á umgengni við hafið, strendur og ár og vötn landsins. Þetta átak verður kynnt bráðlega. Á vegum ungmennafélaganna verða þá um allt land haldnar ráðstefnur um umhverfismál á tímabilinu frá mars og fram í júní og í sumar mun þessu átaki ljúka með mjög víðtækri fjöruhreinsun á vegum félagsmanna hreyfingarinnar sem umhvrn. styrkir með fjárframlögum. Í lok átaksins verður síðan tekið saman hver árangur hreinsunarinnar hefur verið, hversu mikið og hvers eðlis rusl á fjörum landsins er.
    Þá má jafnframt geta þess að innan skamms verður haldin ráðstefna sem umhvrn. hafði frumkvæði að. Hún verður haldin með Siðfræðistofnun háskólans og í tengslum við þjóðkirkjuna og tengist náttúruverndarárinu. Hún mun fjalla um siðfræði náttúrunnar og verður öllum opin. Það er ýmislegt fleira, virðulegur hv. þm., sem ég gæti tínt til ef ekki væri hinn strangi forseti sem nú vill mig hrekja héðan úr pontu.