Náttúruverndarár Evrópuráðsins

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:10:06 (4529)


[17:10]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og yfirleitt alltaf þá er ég sammála hv. síðasta ræðumanni. Ég vil halda aðeins áfram þar sem ég lauk máli mínu áðan. Ég tel að það sé mikilvægt að umhvrn. hefur haft frumkvæði að því að ná tengslum og samvinnu við þjóðkirkjuna um náttúruvernd. Erlendis er að svo að kirkjan hefur í vaxandi mæli tekið umhverfisvernd upp á sína arma og ég tel að það sé mjög þarft verk. Og mér finnst það vera mikilvægt framlag til umræðu um náttúruvernd á Íslandi að draga Siðfræðistofnun háskólans inn

í þetta eins og umhvrn. hefur reyndar gert áður, vegna þess að ég er alltaf að reka mig á það betur og betur að ýmis erfiðustu úrlausnarefni umhverfisverndar á Íslandi eru ekki tæknilegs eðlis, þau eru siðferðlegs og siðfræðilegs eðlis. Og ég tel að ein af þeim stofnunum sem í framtíðinni mun vafalaust leika talsvert hlutverk í þróun umræðu um umhverfisvernd á Íslandi sé einmitt Siðfræðistofnun háskólans. Það er þess vegna sem við reynum með þessum hætti að draga hana þarna inn.
    Annað sem ég vil sérstaklega vekja athygli hv. þm. á, vegna þess að ég veit að hún hefur kosið sér það hlutskipti í lífinu að vera uppalandi og starfar sem kennari þegar hún er ekki að stjórna landinu, það er að öll áhersla umhvrn. í tengslum við nátúruverndarárið og þessa yfirgripsmiklu áætlun sem við höfum liggur á ungu fólki, vegna þess að við erum sammála hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur um það að það er fyrst og fremst æskuna sem þarf að vekja til vitundar. Hún mun ekki bara erfa okkur heldur líka landið og það er hún sem skiptir máli þegar við tölum um að reyna að vekja bætta vitund um umhverfisvernd í landinu. Og vegna þess að ég syndgaði upp á náðina hjá virðulegum forseta áðan þá ætla ég að gefa henni þær 8 sekúndur sem nú lifa eftir af mínu máli.