Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:24:17 (4536)


[17:24]
     Frsm. iðnn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Iðnn. hefur fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum um kísilgúrverksmiðju við Mývatn. Efni frv. er í raun og veru mjög einfalt. Það gengur út á það að samræma skattprósentu kísilgúrverksmiðjunnar og annarra fyrirtækja í landinu, þ.e. þannig að kísilgúrverksmiðjan borgi 36% eins og önnur fyrirtæki í landinu. Iðnn. er sammála því að það sé sjálfsagt að það sé samræmi í skattlagningu fyrirtækja og það sama eigi við um þetta fyrirtæki og önnur.
    Fjárlagaskrifstofa fjmrn. fjallaði sérstaklega um þetta mál áður en það var lagt hér fram og fylgir álit fjárlagaskrifstofunnar í sérstöku fskj. með frv. þar sem gerð er grein fyrir hinum efnislegu afleiðingum þess ef það verður samþykkt, því að það segir:
    ,,Verði frv. að lögum má gera ráð fyrir að tekjutap ríkissjóðs verði um 8,3 millj. kr. árið 1994 sem breytist síðan í hlutfalli við afkomu fyrirtækisins.``
    Nú er það því miður svo, hæstv. forseti, að málið er ekki alveg svona einfalt vegna þess að tekjur ríkisins af tekjuskatti kísilgúrverksmiðjunnar hafa runnið til Skútustaðahrepps til uppbyggingar þar samkvæmt sérstöku samkomulagi sem Gunnar Thoroddsen, þáv. félmrh. og iðnrh., gerði við staðaryfirvöld fyrir allmörgum árum. Þegar frá þessu máli var gengið og um það var fjallað við 1. umr. og sömuleiðis í hv. iðnn. þá lágu ekki fyrir upplýsingar um þetta efni og það var ekki fyrr en hv. þm. Guðmundur Bjarnason og fleiri þingmenn Norðurl. e. höfðu heyrt í trúi ég sveitarstjóranum í Skútustaðahreppi að á þetta atriði var bent og þess vegna settum við það í sérstaka skoðun.
    Ég ræddi sjálfur við sveitarstjórann í Skútustaðahreppi og niðurstaða hans var sú að þrátt fyrir þennan ágalla á málinu teldi hann engu að síður rétt að frv. yrði samþykkt eins og það lítur út hér, en lét það koma fram að hann mundi á síðari stigum fyrir hönd sveitarfélagsins taka upp viðræður við ríkissjóð og fjmrh. þannig að Skútustaðahreppur yrði ekki af peningum vegna samþykktar þessa frv.
    Með öðrum orðum, nefndin mælir með samþykkt frv. og telur sig hafa þar á bak við sig ekki einasta stuðning flokkanna sem fulltrúa eiga í iðnn. heldur líka sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, þó að henni sé ljóst hvaða vandi fylgir afgreiðslu málsins fyrir sveitarfélagið. Við leggjum með öðrum orðum til, hæstv. forseti, að frv. verði samþykkt eins og það lítur út á þskj. 491.