Vernd barna og ungmenna

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:38:43 (4539)

[17:38]
     Frsm. félmn. (Gísli S. Einarsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 668 um frv. til laga um breyting á lögum um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992.
    Félmn. hefur verið með þetta mál í allnokkurri umfjöllun. Fékk til sín fjölmarga aðila sem fjalla um þennan málaflokk, flestalla að ég tel sem til voru kvaddir og ég vil leyfa mér að þakka þeim aðilum og síðan hv. nefndarmönnum fyrir mjög góða vinnu og fyrir að greiða fyrir því að þetta mikilvæga mál næði fram að ganga.
    En frv. sem hér er til umræðu er liður í endurskipulagningu barna- og unglingamála. Unglingaheimili ríkisins verður lagt niður, en í stað þess komi annars vegar barnaverndarstofa er starfi undir stjórn félmrn. og hins vegar móttöku- og meðferðarstöð fyrir unglinga. Meðal hlutverka barnastofu er að veita heimilum, stofnunum og barnaverndarnefndum leiðbeiningar og hafa með þeim eftirlit.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með nokkrum breytingum sem gerð er góð grein fyrir

á þskj. 668, m.a. er lögð til breyting á 14. gr. og 5. mgr. 16. gr. laganna með hliðsjón af því hlutverki sem dómstólar hafa eftir aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði og samkvæmt nýrri réttarfarslöggjöf, en þeir hafa nú ekki lengur með höndum rannsóknarhlutverk.
    Hvað snertir breytingar á 14. gr. eru ákvæði 2. og 3. mgr. víðtækari en 1. mgr. að því leyti að þær taka ekki eingöngu til mála þar sem grunur leikur á að refsiverður verknaður hafi verið framinn af barni eða gegn því heldur einnig til mála þar sem tekin er skýrsla af barni sem vitni. Ákvæði um rétt foreldris til að vera viðstatt skýrslutöku af barni styðst við b-lið í 2. mgr. 40. gr. samnings um réttindi barnsins. Synjun lögreglu um að foreldri fái að vera viðstatt væri unnt að bera undir dómstóla, sbr. 75. gr. laga um meðferð opinberra mála.
    Þetta er ásamt fleiri liðum sem hér eru helstu atriðin. M.a. er lagt til að bætt verði við 10. og 11. gr. ákvæðum sem taka til vistforeldra og barna í sveit. Til þess að réttarstaða þess fólks verði skýr er lagt til að kveðið verði á um þessa starfsemi í lögum og heimilt verði að setja reglugerð um hana, þar á meðal um skilyrði til leyfisveitingar vegna starfseminnar. Í reglugerð þarf enn fremur að skilgreina nánar um hvers konar heimili sé að ræða til að greina þau nánar frá heimilum samkvæmt b-lið 10. gr. frv.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þskj., en það er þskj. 669, sem fjallar um sjálfar brtt.
    Ég tel, frú forseti, ekki ástæðu til að fara nánar út í að lesa það upp hér, en legg til að málinu verði vísað til 3. umr. og afgreiðslu samkvæmt reglum.