Vernd barna og ungmenna

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:53:24 (4541)


[17:53]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég skrifa undir þetta nefndarálit með fyrirvara líkt og þeir félagar mínir, hv. þm. Jónarnir tveir, voru að gera grein fyrir. Þegar lögin sem nú er verið að breyta voru sett á sínum tíma fyrir nokkrum árum þá var Kvennalistinn með miklar efasemdir um að það væri rétt að reisa heimilið að Tindum svo nærri Reykjavíkurborg sem gert var og héldum að annaðhvort þyrfti þetta heimili að vera innan borgarmarkanna eða þó nokkuð lengra í burtu. Það hefur komið á daginn að við höfðum rétt fyrir okkur. Nú á að flytja þessa starfsemi til borgarinnar að hluta til og að öðru leytinu lengra burtu. Ég álít að það sé rétt að gera þetta því að hitt hefur sýnt sig að takast ekki til eins og vænst var.
    Ég held að allar þær breytingar sem við höfum komið inn og voru gerðar á frv. séu til bóta. Ég ætla ekki að fjölyrða um þær nema þá einu að inn kom ákvæði um vistforeldra, ákvæði um starfsemi vistforeldra, en slíkt ákvæði hefur ekki verið og varðar fólk sem tekur börn til dvalar í skemmri eða lengri tíma og er ekki fagfólk heldur venjulegir borgarar. Mér finnst svo oft hinn venjulegi borgari gleymast þegar verið er að tala um meðhöndlun á vandamálum.
    Raunin er nefnilega sú að hinn venjulegi borgari getur lagt geysilega mikið af mörkum því það er hann sem lifir því lífi sem viðkomandi eiga síðan að lifa. Þar af leiðandi koma unglingarnir í umhverfi sem þau eiga að geta hrærst í en ekki í hið velverndaða umhverfi heimilanna eða stofnananna. Ég hef séð í störfum mínum hvernig meira að segja ungmenni sem lengi hefur verið á þessum stofnunum draga dám af því sem þar fer fram innan dyra, ekki það að ég sé að leggja þessari starfsemi neitt last heldur að það er öðruvísi líf sem lifað er á stofnunum en á venjulegum heimilum landsins.
    Ég vil taka undir með hv. þm. Jóni Helgasyni að það þyrfti að breyta mörgu í þessu þjóðfélagi til þess að svo margir rötuðu ekki í þær raunir sem vitni ber. Til þess álít ég að þurfi heila þjóðlífsstefnubreytingu. Við þurfum að breyta viðhorfum okkar til verðmætamats og til þess lífs sem við viljum lifa, til þess sem við viljum leggja áherslu á og þess sem við viljum hafna. Og við þurfum númer eitt, tvö og þrjú, og nú tala ég ekki sem þingmaður heldur sem kennari, að innræta hverri einustu persónu ábyrgðartilfinningu, þ.e. ábyrgð á eigin gerðum og þá á ég ekki bara við foreldrana heldur líka börnin. Þetta er eitt af því sem hefur verið vanrækt í íslensku uppeldi sl. 30 ár.
    Það væri hægt að halda langar ræður um það hvernig við höfum farið út af sporinu á ýmsa vegu en þetta er kannski ekki réttur staður og stund til þess. En orsökin fyrir því að ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara er sú að ég álít að það þurfi að endurskoða þessi lög öll með það í huga að færa ýmsa aðra þætti nær því sem nútíminn þarf en í lögunum er. En allt sem hefur komið þarna fram held ég að sé til bóta og því skrifa ég undir.