Vernd barna og ungmenna

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 18:20:37 (4548)


[18:20]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þannig er að þegar menn samþykkja lög þá stendur lagatextinn og annað ekki. Í bréfi því sem ég vitnaði til frá 9. febr. gerir hæstv. heilbrrh. athugasemdir við c-lið 10. gr. frv. og bendir á að hætt sé við að ágreiningur kunni að koma upp um hvaða ráðuneyti hafi forræði yfir viðkomandi stofnun eða heimili. Ekki er gerð nein tillaga um að breyta frumvarpsgreininni sem er svo óljós að mati heilbrrh. Hafi heilbrrh. gert samkomulag við félmrh. verður það að koma fram. Það verður að koma fram hvað felst í því samkomulagi til þess að draga úr líkum á því að menn muni síðar deila um túlkun á frumvarpstextanum sem verður þá orðinn lagatexti. Hvernig eiga menn að skilja lagatextann með bréf við höndina sem býður í raun og veru upp á ágreining?