Barnalög

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 18:33:50 (4555)


[18:33]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allshn. á þskj. 671, um frv. til laga um breytingar á barnalögum, nr. 20/1992, ásamt meðfylgjandi brtt. á þskj. nr. 672.
    Allshn. hefur fjallað um frv. um breytingu á barnalögum. Það var sent til umsagnar og bárust munnlegar athugasemdir annars vegar frá barnaverndarráði og var tekið tillit til þeirra, sbr. brtt. sem nefndin leggur til, og hins vegar frá Lögmannafélagi Íslands sem gerði ekki athugasemdir við frv. Þá kom á fund nefndarinnar Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri dómsmrn.
    Þá barst skrifleg athugasemd frá Barnaheillum daginn eftir að málið var afgreitt úr allshn. en þar er m.a. bent á að ekki verði annað séð en að þessar fyrirhuguðu breytingar séu til góðs. Frv. hefur það markmið að treysta tengsl foreldris við barn sem hefur ekki forsjá þess sbr. ákvæði 1. og 3. gr.

    Í 1. gr. er lagt til að umgengnisréttur skv. 37. gr. barnalaga verði rýmkaður og látinn ná til símasambands, bréfasambands og annars hliðstæðs sambands foreldris við barn. Hinn hefðbundni umgengnisréttur gengur út á að foreldri hafi rétt til að umgangast barnið, þ.e. að fá það í heimsókn eða heimsækja það. Þannig miðast hann við að foreldrarnir hafi barnið í návist sinni. Hins vegar getur staðið svo á að foreldri hafi ekki tök á að umgangast barnið sökum fjarlægðar við það. Er því kveðið á um í frv. að þegar sérstaklega standi á geti sýslumaður að ósk foreldris, sem hefur ekki forsjá barns, mælt fyrir um rétt þess til að hafa fyrrnefnd samskipti við barnið.
    Í 3. gr. er mælt fyrir um rétt foreldris, sem hefur ekki forsjá barns, til að fá upplýsingar um hagi barns hjá hinu foreldrinu og ýmsum stofnunum sem barnið tengist, svo og stjórnvöldum og starfsmönnum er fjalla um málefni barnsins. Fram kom sú ábending frá barnaverndarráði varðandi 2. efnismgr. að ekki væri nægilegt að telja félagsmálastofnanir meðal þeirra aðila sem foreldri gæti fengið upplýsingar hjá því að þær væru ekki alls staðar til staðar í öllum sveitarfélögum. Lögð er fram brtt. á sérstöku þskj. til að bæta úr þessu þar sem kveðið er á að þetta eigi einnig við um félagsmálanefndir sveitarfélaga og barnaverndarnefndir auk félagamálastofnana og annarra stofnana sem taldar eru upp í ákvæðinu.
    3. gr. hefur ekki síst gildi fyrir foreldri sem sökum fjarlægðar við barnið getur ekki fylgst með högum þess með því að umgangast það. Auk þess mun hafa ríkt veruleg óvissa hjá starfsmönnum skóla og annarra uppeldisstofnana, lækna, heilsugæslu og félagsmálastofnana hvort foreldri, sem hefur ekki forsjá barns, eigi rétt á upplýsingum um persónuhagi þess.
    Í 2. gr. frv. er kveðið á um að fari foreldrar sameiginlega með forsjá barns er öðru foreldra óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Ákvæðið stendur í tengslum við Evrópuráðssamning frá 20. maí 1980, um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna o.fl. og Haag-samninginn frá 25. október 1980 um einkaréttarleg áhrif á brottnámi barna til flutnings milli landa en ætlunin er að fullgilda þessa samninga af Íslands hálfu.
    Í 4. og 5. gr. eru ákvæði um heimild dómsmrn. til að lengja málshöfðunarfresti til höfðunar vefengingarmála og mála til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Nefndin telur að frv. feli í sér verulega réttarbót og mælir með samþykkt þess með framangreindri breytingu á 3. gr. sem lögð er fram á sérstöku þskj.