Bókhald og ársreikningar

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 18:38:25 (4556)


[18:38]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég flyt frv. þetta fyrir hönd efh.- og viðskn. Alþingis. Í desember sl. urðu frv. um bókhald og ársreikninga að lögum. Þegar þau frumvörp voru lögð fram var ólokið að semja ítarleg ákvæði um viðurlög og málsmeðferð. Sérstök nefnd á vegum fjmrn. vann að því máli. Efh.- og viðskn. fékk hins vegar þær tillögur ekki í hendur fyrr en skömmu fyrir þinghlé. Þar sem sýnt var að ekki gæfist tími til að fara vandlega yfir tillögurnar og fá athugasemdir hagsmunaaðila fór nefndin þá leið að afgreiða frumvörpin. Formaður tók þó fram í framsöguræðu með málinu að unnið yrði að viðurlagaákvæðum á vorþingi.
    Að undanförnu hafa frumvarpskaflar þeir, sem áður lágu fyrir, sætt frekari athugun. Á fund nefndarinnar hafa komið Snorri Olsen, deildarstjóri í fjmrn., Skúli Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóri, Guðmundur Guðbjarnason, fyrrv. skattrannsóknarstjóri, Jónatan Þórmundsson prófessor, Rúnar B. Jóhannsson, löggiltur endurskoðandi og Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi. Fjórir þeir fyrstnefndu eru aðalhöfundar frv.
    Þá sendi nefndin málið til umsagnar Félags löggiltra endurskoðenda, Íslenskrar verslunar, Lögmannafélags Íslands, Verslunarráðs Íslands og Neytendasamtakanna. Að teknu tilliti til fram kominna athugasemda hefur nefndin ákveðið að leggja fram það frv. sem ég mæli fyrir.
    Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka þeim sem unnu að samningu þessa frv. Þar vil ég nefna sérstaklega þá Skúla Eggert Þórðarson, skattrannsóknarstjóra og Guðmund Guðbjarnason, fyrrv. skattrannsóknarstjóra sem hafa verið nefndinni innan handar við alla meðferð málsins.
    Frv. það sem hér liggur fyrir er í sex köflum. Í I. kafla eru breytingar á lögum um bókhald, í II. kafla breytingar á lögum um ársreikninga, í III. kafla breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, í IV. kafla breytingar á lögum um virðisaukaskatt, í V. kafla breytingar á lögum um yfirskattanefnd og í VI. kafla eru gildistökuákvæði.
    Frv. þetta er liður í heildarendurskoðun viðurlagaákvæða í skattalögum og bókhaldslögum. Sérstakt frv. liggur fyrir til breytinga á 262. gr. almennra hegningarlaga, svo og hefur fjmrh. flutt frv. til breytinga á refsiákvæðum nokkurra skattalaga. Bæði þessi frumvörp hafa verið afgreidd úr nefndum til síðari umræðu og voru reyndar til 2. umr. á undan þessu máli.
    Virðulegur forseti. Með þeim frumvörpum og því frv. sem ég mæli fyrir er stefnt að heilsteyptu og skilvirku átaki löggjafans gegn skattsvikum og bókhaldsbrotum. Í skýrslu nefndar, sem skipuð var af hálfu fjmrn. og kannaði umfang skattsvika, var komist að þeirri niðurstöðu að tekjutap ríkis og sveitarfélaga næmi 11 millj. kr. á ári vegna skattsvika. Neðanjarðarhagkerfið var talið hafa minnkað við upptöku staðgreiðslu og virðisaukaskatts en síðan hefur sigið aftur á ógæfuhliðina. Sambærileg könnun hafði áður verið gerð fyrir áratug og niðurstaða skattsvikanefndar hinnar fyrri var á þá lund að skattsvikin væru svipuð. Í niðurstöðum beggja skattsvikanefndanna var á það bent að refsingar fyrir bókhaldsbrot væru ónóg og nauðsynlegt væri að málsmeðferð og viðurlög við bókhaldsbrotum væru skilvirkari en verið hefði.
    Efh.- og viðskn. telur að með því frv., sem liggur hér fyrir, sé verulegt átak gert til að vinna gegn bókhalds- og skattalagabrotum. Ætla verður að almenn varnaðaráhrif geti verið allnokkur. Þá eru hin nýju ákvæði ítarleg og til þess fallin að eyða óvissu um mörk löglegra athafna hvað bókhald varðar.
    Í 1. gr. I. kafla frv. eru sex stafliðir. Um er að ræða breytingar á lögum nr. 145/1994, um bókhald. Hver stafliður er ný lagagrein í lögum um bókhald og skal hér gerð nokkur breyting fyrir hverjum þeirra.
    A-liður 1. gr. frv. fjallar um hvaða saknæmisskilyrði eru fyrir refsiábyrgð og hvernig henni er háttað. Í ákvæðinu felst mikilvæg nýskipun refsimarka í tengslum við hin nýju ákvæði í 262. gr. almennra hegningarlaga. Í hegningarlagafrv. var gert ráð fyrir að brot gegn bókhaldslögum, ásetningslögum og gegn tilteknum ákvæðum skattalaga varðandi bókhald geti talist meiri háttar brot skv. 262. gr. hegningarlaga að uppfylltum tilteknum viðbótarskilyrðum þessa ákvæðis.
    Ákvæði IV. kafla bókhaldslaga og X. kafla laga um ársreikninga í heild, svo og tvö tiltekin ákvæði skattalaga eru talin upp í 2. mgr. 262. gr. og eins er í þessum ákvæðum vísað til 2. mgr. 262. gr. hegningarlaga. Ef brot telst meiri háttar samkvæmt þessu liggur við því varðhald eða fangelsi allt að sex árum og heimilt er að beita fésektum til viðbótar refsivist. Þó er möguleiki samkvæmt ákvæðinu að dæma einungis í fésekt fyrir meiri háttar brot ef málsbætur eru miklar. Ef háttsemi telst ekki meiri háttar brot varðar hún venjulegum fésektum allt að hámarki því sem tilgreint er í 50. gr. hegningarlaga að hámarki 4 millj. kr. Sérstaklega er ákveðið að brot gegn b-lið frv. sem verður 37. gr. laganna skuli ætíð teljast meiri háttar brot og varðar þau því refsingu skv. 2. mgr. 262. gr. hegningarlaga án tillits til þess hvort eitthvert þeirra viðmiðunaratriða telst vera fyrir hendi sem talin eru upp í 3. mgr. 262. gr. hegningarlaga. Séu málsbætur miklar er þó eins og fyrr hefur verið sagt heimilt að dæma aðeins í fésekt fyrir brot sem telst minni háttar.
    B-liður 1. gr. frv. tekur til háttsemi bókhaldsskyldra manna eða fyrirsvarsmanna bókhaldsskyldra lögaðila að undantekinni 2. mgr. ákvæðisins sem varðar refsiábyrgð annarra manna sem aðstoðar framangreinda menn við bókhaldsbrot eða stuðla að þeim á annan hátt. Eins og áður getur tekur ákvæðið til athafna og athafnaleysistilvika sem talin eru svo alvarlegs eðlis að rétt þykir að virða þau ætíð sem meiri háttar brot. Í stórum dráttum felast í verknaðarlýsingum hinna einstöku liða samhverf brot sem eru refsiverð án tillits til hugsanlegra afleiðinga þeirra. Frávik frá þessu almenna einkenni er í 4. tölul. sem lýsir því tjónsbroti að eyðileggja bókhaldsbækur eða bókhaldsgögn eða skjóta þeim undan, þ.e. áskilið er að tilteknar afleiðingar af háttseminni komi fram í eyðileggingu eða hvarfi gagnanna.
    Í 1. tölul. er lýst þeirri alvarlegu vanrækslu að færa ekki tilskilið bókhald fyrir sjálfan sig eða þann lögaðila sem hinn brotlegi starfar fyrir þannig að hann uppfylli ekki kröfur laga í meginatriðum. Um vanrækslu, sem gengur skemmra að þessu leyti, er hins vegar fjallað í 1. tölul. c-liðar 1. gr. (38. gr. laganna) frumvarpsins og varðar það brot þá fésektum nema það uppfylli skilyrði 262. gr. hegningarlaga.
    Í 2. tölul. er ákvæði sem er eðlilegt framhald af 1. tölul. og tekur til vanrækslu um að varðveita fylgiskjöl eða önnur bókhaldsgögn svo að ógerningur sé að rekja bókhaldsfærslur til viðskipta og byggja bókhaldsbækur og ársreikning á þeim. Um brot þar sem bókhald er ekki fært á nægilega skýran og aðgengilegan hátt þannig að erfitt sé að rekja viðskipti og notkun fjármuna má beita 2. tölul. c-liðar 1. gr. (38. gr. laganna).
    Í 3. tölul. er fjallað um rangfærslu bókhalds eða bókhaldsgagna, tilbúning gagna sem ekki eiga sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og þá háttsemi að vantelja tekjur kerfisbundið, svo sem með tvöföldu tekjuskráningarkerfi og öðrum svipuðum athöfnum. Í 5. tölul. sama ákvæðis er fjallað um rangfærslu ársreiknings eða einstakra hluta hans. Öll rangfærslubrot falla undir b-lið 1. gr. (37. gr. laganna) og teljast því ætíð meiri háttar brot. Rétt þykir að gera þann fyrirvara að beitt skuli 158. gr. hegningarlaga ef skilyrði hennar eru uppfyllt þótt hámarksrefsing samkvæmt því ákvæði sé fangelsi allt að þremur árum.
    Í 4. tölul. er ákvæði um þann sem eyðileggur bókhald sitt eða bókhald lögaðila sem hann starfar fyrir, hvort sem það nær til bókhaldsins í heild eða einstakra hluta þess, sömuleiðis ef hann skýtur þeim undan eða torveldar aðgang að þeim með öðrum hætti. Sama á við um hvers konar bókhaldsgögn.
    Í 5. tölul. er fjallað um vanrækslu á að semja ársreikning er hafi að geyma þá reikninga og skýringar sem lög þessi kveða á um. Enn fremur er í ákvæðinu vikið að rangfærslu ársreikningsins eða einstakra hluta hans, eins og áður segir.

    Í 2. mgr. er vikið að háttsemi manna sem aðstoða bókhaldsskyldan mann við brot þau sem lýst er í 1.--5. tölul. ákvæðisins eða stuðla að þeim á annan hátt. Með þessu ákvæði er fyrst og fremst átt við verklega aðstoð en þar sem því sleppir má beita hinu almenna ákvæði um hlutdeild í brotum skv. d-lið 1. gr. frumvarpsins (39. gr. laganna).
    C-liður 1. gr. frv. fjallar um önnur bókhaldsbrot. Í því ákvæði eru sex töluliðir og sé ég ekki ástæðu til að fara mjög nákvæmlega yfir hvern fyrir sig en vil víkja að þeim nokkrum almennum orðum.
    Brot þau sem í ákvæði þessu er lýst lúta að ýmis konar athöfnum og athafnaleysi bókhaldsskylds manns. Brot samkvæmt þessu ákvæði varðar yfirleitt fésektum en getur þó varðað þyngri refsingu ef brotin teljast meiri háttar skv. 262. gr. almennra hegningarlaga. Megineinkenni þessa lagaákvæðis er þó að lýst er ýmiss konar verknaði sem ekki telst vera eins alvarlegt brot og hliðstæðar verknaðarlýsingar b-liðar frv. sem ég rakti hér að framan.
    Í 2. mgr. er ákvæði um hlutdeild. D-liður 1. gr. hefur að geyma tilvísun til III. kafla almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eða að öðru leyti því sem lýst er í b- og c-liðum 1. gr. frv. þessa.
    Refsimörk eru fésektir skv. 50. gr. almennra hegningarlaga.
    E-liður 1. gr. um refsiábyrgð lögaðila er sama efnis hliðstæðum ákvæðum í því frv. sem hér liggur fyrir og varðar breytingar á nokkrum ákvæðum skattalaga er fjalla um málsmeðferð og viðurlög.
    F-liður 1. gr. lýtur að málsmeðferð vegna brota á lögunum. Þar er meginreglan vitaskuld sú að hinn brotlegi sætir hefðbundinni sakamálameðferð af hálfu ákæruvalds og dómstóla. Í þessu ákvæði frv. er þó heimiluð önnur meðferð að sönnu nokkru vægari en aðalmeðferðin en hliðstæð við það sem heimilað er vegna refsiverðra brota á skattalögum.
    Samkvæmt því ákvæði er gert ráð fyrir að skattrannsóknarstjóri ríkisins annist rannsókn vegna brota á lögum þessum, leggi mál fyrir yfirskattanefnd og komi fram af hálfu hins opinbera fyrir nefndina þegar hún úrskurðar sektir.
    Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur rannsakað brot á lögum þessum að eigin frumkvæði eða samkvæmt tilkynningu ríkisskattstjóra eða skattstjóra um að bókhaldsbrot hafi verið framið sbr. ákvæði 96. og 101. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og 27. gr. laga um virðisaukaskatt eins og gert er ráð fyrir að þeim verði breytt við meðferð þessa frv.
    Þá getur skattrannsóknarstjóri ríkisins á hvaða stigi rannsókna sem er vísað máli af sjálfsdáðun til opinberrar rannsóknar.
    Sektarmeðferð yfirskattanefndar er lokuð málsmeðferð og úrskurðir yfirskattanefndar í málum af þessu tagi eru endanlegir. Yfirskattanefnd ákvarðar ekki vararefsingu og innheimta sektar fer samkvæmt lögum sem gilda um innheimtu opinberra gjalda.
    Grundvallarregla í þessu sambandi er þó að hinn brotlegi getur hverju sinni skorast undan sektarmeðferð yfirskattanefndar og gildir þá meginregla laganna um málsmeðferð hjá lögreglu og dómstólum. Það er kunn staðreynd að bókhaldsbrot og brot á skattalögum fara alloft saman og því augljós hagræðing af því að unnt sé að sameina meðferð skattsvikamála og bókhaldsbrots.
    Efh.- og viðskn. Alþingis hefur rætt þessa tilhögun allnokkuð og er þeirrar skoðunar að valkvæð refsimeðferð að þessu leyti sé til þess fallin að stuðla að einföldun, samræmingu og sparnaði við málsmeðferð án þess að réttaröryggis skattaðila sé á nokkurn hátt skert. Um sakarfyrningu í lokamálsgrein ákvæðisins er stuðst við fyrningarákvæði skattalaga en hefur verið gert nokkuð nákvæmara en áður hefur verið og er það í samræmi við túlkun yfirskattanefndar á þessu ákvæði.
    Ég vil þá sérstaklega geta um það atriði að ekki verði tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar. Yfirskattanefnd hefur í allmörgum málum hafnað sektarbeitingu þar sem of langur tími hefur liðið frá því að endurákvörðun opinberra gjalda hefur lokið og þar til krafist hefur verið refsingar.
    Virðulegur forseti. Næst mun ég víkja að helstu breytingum sem verða á lögum um ársreikninga skv. 3. gr. frv. Það ákvæði er í sjö stafliðum en ég sé ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega ítarlega um þá alla heldur vísa til þess sem ég hef hér fjallað um þar sem mörg ákvæði ásetningslagafrv. eru af sama stofni og frv. um bókhald.
    B-liður 3. gr. fjallar um háttsemi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra þeirra félaga sem talin eru upp í 1. gr. laga um ársreikning og getur varðað refsingu samkvæmt frv. Þar eru alvarlegustu brot að láta undir höfuð leggjast að semja ársreikning, rangfæra þá eða einstaka hluta þeirra. Hvers konar rangfærsla á ársreikningum eða einstökum hlutum þeirra telst vera meiri háttar brot á lögunum og fellur undir 83. gr. laganna eins og hún verður samkvæmt frv.
    C-liður 3. gr. nær til brota sem ekki teljast vera eins alvarleg og b-liður greinar þessarar. Verknaðarlýsingar þar ganga skemur en brot á 83. gr. laganna svo sem einstök vanrækslubrot, birtingu ársreikninga eða ekki sé rétt staðið að kosningu endurskoðenda eða skoðunarmanna.
    D-liður 3. gr. fjallar um tiltekin refsiverð brot löggiltra endurskoðenda og skoðunarmanna. Þar er lýst í þremur töluliðum brotum sem varða við ákvæðið. M.a. er lýst refsivert að framkvæma endurskoðun án þess að skilyrði laganna séu uppfyllt. Endurskoðandi má ekki vera háður stjórnendum félagsins, mökum þeirra né vera tengdur þeim eða fjárhagslega háður félaginu og áritun hans má ekki vera villandi. Þá mega störf endurskoðenda ekki brjóta í bág við góða endurskoðunarvenju.

    Í III. og IV. kafla frv. er mælt fyrir um breytingar á nokkrum skattalögum og eru það allt breytingar sem leiða beint af ákvæðum í I. og II. kafla frv.
    Virðulegur forseti. Ég tel að frv. það sem hér er mælt fyrir muni verða líklegt til að hvetja til góðrar reglusemi í bókhaldi og við ársreikninga. Mun það styrkja mjög þau lög sem Alþingi samþykkti rétt fyrir síðustu jól en höfðu því miður að geyma heldur fátækleg viðurlagaákvæði. Með frv. þessu hefur verið bætt úr því ástandi.
    Virðulegur forseti. Þar sem efh.- og viðskn. flytur þetta frv. og hefur unnið að því á allmörgum fundum eftir jólaleyfið tel ég ekki þörf á að því verði vísað til nefndar.