Almenn hegningarlög

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 19:15:01 (4565)


[19:15]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir um breytingar á almennum hegningarlögum felur að meginstefnu í sér að gert er ráð fyrir því að 108. gr. hegningarlaganna falli brott. Ég skipaði sérstaka nefnd til þess að fjalla um þetta álitaefni og um leið og fjallað var um hvort rétt væri að lögleiða ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Það hefur nú verið gert eins og kunnugt er og í framhaldi af því nefndaráliti, sem fyrir liggur um þetta efni, hefur verið unnið það frv. sem hér liggur fyrir.
    Nefndin sem um þetta fjallaði benti á nokkra kosti við útfærslu á þeim möguleikum sem fyrir hendi væru varðandi niðurfellingu á 108. gr. hegningarlaganna en almennt hefur það komið fram af minni hálfu í umræðum um þessi efni að ekki væri lengur unnt eða skynsamlegt að hafa sérstök ákvæði til þess að verja æru opinberra starfsmanna með þeim hætti sem nú er gert. Í ljósi breyttra aðstæðna og þeirra tillagna sem fyrir liggja í þessum efnum er lagt til að þessi meginbreyting verði gerð.
    Að öðru leyti vísa ég til athugasemda með frv. og legg til að því verði vísað 2. umr. og hv. allshn. að lokinni þessari umræðu.