Almenn hegningarlög

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 19:17:20 (4566)


[19:17]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál af eðlilegum ástæðum. Ég hef á tveimur þingum flutt þingmál sem er að efni til það sama og felst í þessu stjfrv., þ.e. að felld verði úr almennum hegningarlögum 108. gr. þeirra laga.
    Í fyrra sinnið var málinu vísað til nefndar en komst ekki þaðan og varð ekki útrætt. Í síðara sinnið var málið tekið út úr nefnd í maíbyrjun 1993. Þar klofnaði nefndin í tvo hluta, reyndar jafnstóra, og annar hlutinn mælti með að málið yrði samþykkt og hinn hlutinn mælti með því að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Það varð ekki vegna þess að þingfrestun bar óvenjubrátt að það vor þannig að ekki var gengið til 2. umr. og afgreiðslu á tillögum nefndarhlutanna.
    Ég fagna því að hæstv. ráðherra hafi flutt þetta mál, einkum í ljósi þess að það voru flokksmenn hans sem lögðust gegn því fyrir tveimur árum að málið yrði samþykkt og vænti ég þess að ráðherrann tryggi stuðning þeirra við málið að þessu sinni.
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki hafa frekari ræðuhöld um þetta mál. Það er nokkuð ljóst og hefur lengi vel verið allnokkuð umrætt í þjóðfélaginu en ég minni á að nefnd sú sem ráðherra vísað til skilaði af sér í aprílmánuði 1993 frv. að lögum um að lögfesta Evrópusáttmálann en það var ekki fyrr en ári síðar 10. apríl 1994, þá eftir nokkra eftirgangsmuni að nefndin skilaði af sér tillögum varðandi 108. gr. Ég fékk ekki vitneskju um niðurstöðu nefndarinnar hvað það varðar fyrr en laust fyrir síðustu jól þegar ég fékk senda álitsgerð nefndarinnar frá dómsmrn.
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað fortíð að rifja upp gang málsins fram til þessa og ekki ætla ég að leggjast í sérstakan meting við ráðherrann eða stjórnarliða um framgang málsins heldur stuðla að því ásamt þeim að málið nái fram að ganga og bendi á að fyrir liggur í skjölum þingnefndarinnar álitsgerðir allmargra umsagnaraðila um efnið, þ.e. hvort fella eigi brott 108. gr. þannig að ég tel að slík gögn liggi fyrir frá allmörgum aðilum sem málið varðar, muni mjög flýta fyrir meðförum málsins nú í þinginu.