Raforkukostnaður garðyrkjunnar

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 15:22:45 (4575)


[15:22]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Rarik tók upp svokallaðan víkjandi taxta hinn 1. jan. 1992. Um er að ræða forgangsorku sem má rjúfa meðan stýring afltopps er virk. Þessi taxti er þannig miðaður við að notkun samkvæmt honum myndi ekki afltopp hjá Rarik. Taxtinn er sérstaklega sniðinn að starfsemi sem lagst getur niður tímabundið meðan rofið er. Þó er heimilt að leyfa afhendingu orku á stýritíma með 10% álagi til að mæta orkutapi.
    Á þessu ári, einkum nú í febrúar, hefur stýritíminn verið óvenjulangur. Það á hins vegar ekki við um sl. ár eins og ég mun koma að á eftir. Stýritíminn ræðst fyrst og fremst af veðurfari. Þegar mjög kalt er í veðri verður hitunarálag mjög mikið jafnframt því sem rennsli til virkjana Rariks er þá í lágmarki. Um þessar mundir er orkuvinnsla í Lagarfossvirkjun óveruleg. Þegar svo bætist við sérstakt álag, t.d. vegna frystingar og bræðslu loðnu, eykst stýritími enn. Það er einmitt á þessum árstíma sem þörf er fyrir lýsingu í gróðurhúsum er hvað mest. Þessi árstíðarsveifla í orkunotkun endurspeglast í orkuverðinu og er verðið hjá Landsvirkjun fyrir orkuna tvöfalt hærra á veturna en á sumrin. Rarik hefur sagt þeim sem vilja nýta sér taxtann fyrir víkjandi orku að búast megi við að roftíminn sé að jafnaði 300--400 klukkustundir á ári. Í þessu sambandi má nefna að roftíminn var 322 stundir 1992, 382 stundir 1993, 339 stundir 1994 og í gærkvöldi var roftíminn orðinn 311 stundir frá áramótum. Rofið var því hvorki á síðasta ári né á árunum 1992--1993 meira en notendur gátu vænst. Hins vegar stefnir í að svo verði á þessu ári. Eigi að síður hefur Rarik aukið afláskrift sína um 2,4 mw. frá síðasta ári.
    Ráðuneytið hefur rætt bæði við starfsmenn Rariks og Landsvirkjunar og beðið þá um að ræða sín á milli hvort unnt sé að breyta þessari skipan með það að markmiði að stytta roftímann. Rarik hefur formlega farið fram á það við Landsvirkjun að fá breytingu á samningnum um áskriftarafl til að stytta þennan roftíma. Landsvirkjun hefur hins vegar ekki talið sér fært að koma til móts við þessa ósk án undangenginna viðræðna við allar rafveitur sem eru í viðskiptum við fyrirtækið. Þær viðræður munu fara fram á næstu vikum.
    Þá er spurt hvort það verði komið í veg fyrir að garðyrkjubændur séu beittir refsigjaldi vegna gróðurlýsingar á roftíma. Þeir, eins og aðrir sem kaupa raforku af orkusölufyrirtækjunum, undirgangast þá söluskilmála sem koma fram í gjaldskrám fyrirtækjanna. Sama gildir um viðskipti milli orkufyrirtækjanna. Á stýritíma þarf Rarik þannig að greiða umframaflgjald til Landsvirkjunar vegna aflkaupa umfram áskriftarafl. Iðnrh. getur ekki vísað Rarik á að senda þann reikning annað en til þeirra sem þjónustunnar njóta. Þess má geta að á árinu 1991 var umframaflgjald í gjaldskrá Landsvirkjunar lækkað verulega með það fyrir augum að koma í veg fyrir að orkufyrirtækin noti dísilstöðvar til að framleiða raforku á stýritíma.
    Þá er spurt hvort ráðherra sé reiðubúinn að beita sér fyrir lækkun á orkuverði til garðyrkjunnar í samræmi við óskir garðyrkjubænda. Ef þingmaðurinn á við að garðyrkjubændur eða aðrir raforkunotendur ákveði sjálfir verðið á því rafmagni sem þeir vilja greiða er svarið nei, það getur iðnrh. ekki. Ég hef hins vegar reynt og mun áfram reyna að stuðla að því að garðyrkjan eins og aðrar atvinnugreinar fái rafmagn á eins lágu verði og aðstæður leyfa.
    Á undanförnum árum hafa raforkufyrirtækin gert ýmislegt til að stuðla að aukinni raflýsingu í gróðurhúsum og þannig reynt að hlúa að þeirri nýsköpun sem þar á sér stað. Fyrirtækin hafa sömuleiðis tekið þátt í margvíslegu samstarfi í þessu efni. Meðal þess sem nefna má er að í heildsölugjaldskrá Rariks er heimild til samrekstrarsamninga við rafveitur. Samningur milli Rariks og rafveitustofnunar Hveragerðis tók gildi 1. jan. 1991 og hafa bæði veitustjóri og garðyrkjubændur lýst sérstakri ánægju með þann samning.
    Þegar hefur verið getið víkjandi taxta fyrir rafmagn sem Rarik tók upp í byrjun árs 1992. Sá taxti var sérstaklega sniðinn að þessari notkun. Í október 1992 samþykkti stjórn Landsvirkjunar almenna söluskilmála um sölu á umframrafmagni. Samkomulagið fól í sér að fyrirtækið veitti einnar krónu afslátt á hverja kwst. í viðbótarraforkusölu umfram 300 mwst. á ári. Sérstakt samkomulag var gert við garðyrkjubændur sem heimilaði þeim að mynda samlög um orkukaupin og fá þeir því afslátt á alla aukningu. Slíkir samningar hafa ekki verið gerðir við aðra aðila að sama skapi.
    Þá hafa Landsvirkjun og Rarik tekið þátt í samstarfshópi með Búnaðarsambandi Suðurlands, Sambandi garðyrkjubænda, atvinnuráðgjöf Suðurlands, Garðyrkjuskóla ríkisins, landbrn., iðnrn. o.fl. um rannsóknarverkefni á lýsingu tómat- og paprikuplantna. Rarik tekur þegar þátt í forverkefni til að kanna áhrif lýsingar á tómatplöntur og fjármagnaði fyrirtækið tímabundið kaup á lömpum í gróðurhús til að verkefnið gæti farið af stað strax upp úr sl. áramótum. Ef samkomulag næst um að fara út í stærra rannsóknarverkefni, sem áætlað er að taki þrjú ár og lýtur að lýsingu bæði tómat- og paprikuplantna, munu Rarik og Landsvirkjun væntanlega taka þátt í verkefninu með afslætti og með því að leggja til mælistöðvar. Verkefninu er m.a. ætlað að leita svars við því hvort raunhæft sé að nota lýsingu á þessar plöntutegundir, hvort slík ræktun verði arðbær og veita upplýsingar um hvernig ná megi sem mestum árangri við sem lægstum kostnaði.
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki tíma til að svara fjórðu og síðustu spurningu hv. þm. en mun reyna að gera það í síðari ræðutíma mínum hér á eftir.