Raforkukostnaður garðyrkjunnar

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 15:32:26 (4578)


[15:32]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. gaf það til kynna hér áðan að það væru takmörk fyrir því hvað

ráðuneytið gæti beitt sér í þessu máli. Iðnrn. hefur engu að síður á undanförnum mánuðum verið að leita eftir samningsaðilum víða um veröldina til þess að kaupa ódýra orku á Íslandi og m.a. bankað upp á hjá aðilum í Sviss sem lýstu því yfir að þeir hefðu ákveðið að sýna iðnrh. þá kurteisi að ræða við hann.
    Nú vill svo til, hæstv. iðnrh., að á Íslandi eru orkukaupendur í garðyrkju sem samanlagt eru öflugur orkukaupandi sem eru líka reiðubúnir að kaupa viðbótarorku og tryggja föst viðskipti. Það eru tvíþætt rök fyrir því að stjórnvöld, sérstaklega iðnrn. eigi að beita sér fyrir samningum við garðyrkjubændur og draga Landsvirkjun og Rarik að samningsborði um þetta mál. Í fyrsta lagi eru þau rök að það viðurkenna allir nauðsyn nokkurra ára aðlögunartíma vegna þeirra erlendu samninga sem hér var vikið að áðan. Í öðru lagi er ljóst að við eigum í garðyrkjunni mikilvæga auðlind til þess að styrkja markaðsímynd Íslands sem framleiðanda á vöru sem menn geta treyst og er dýrmæt í menguðum heimi. Það er hlutur í alþjóðlegri markaðssókn Íslendinga, samkeppnisstöðu okkar í veröldinni og á þess vegna að vera þáttur í atvinnuuppbyggingu framtíðarinnar.
    Landsvirkjun tók þá ákvörðun að gera sérsamninga við fiskimjölsverksmiður, loðnuverksmiðjur, vegna þess að það var talið skynsamlegt. Það eru þess vegna ærin dæmi um að það er hægt að taka frumkvæði í þessu máli ef viljinn er fyrir hendi og ég skora á hæstv. ráðherra að búa nú til umræðuborð, samningaborð um þetta mál þar sem ráðuneytið, Landsvirkjun, Rarik og garðyrkjubændur koma allir að og leysa málið á næstu vikum.