Raforkukostnaður garðyrkjunnar

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 15:39:49 (4581)


[15:39]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Vandi garðyrkjubænda er mikill. Það er ekkert minna en framtíð garðyrkjunnar sem alvöruatvinnugreinar sem er í húfi. Samþykkt EES-samningsins og samþykkt GATT-samningsins, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, þýðir algerlega nýtt umhverfi fyrir garðyrkjuna á Íslandi og þegar GATT-samningurinn kemur til framkvæmda verður að leyfa verulegan innflutning með lágum tollum. Þó að leggja megi 30--40% tolla á vegur það ekki upp á móti þeim niðurgreiðslum sem leyfðar eru.
    Við þetta bætist síðan algerlega tollfrjáls árstíðabundinn innflutningur vegna EES-samningsins því að stjórnarflokkarnir gleymdu nefnilega garðyrkjubændum og sitja þeir þess vegna uppi með tollfrjálsan innflutning á samkeppnisvörum sínum, vörum sem talið er að séu niðurgreiddar um a.m.k. 15--20%. Og núna reynir á þegar örlög atvinnugreinarinnar eru núna prófsteinn á getu okkar og ekki síst vilja til að láta ekki okkar hlut í viðskiptunum í því alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem við höfum valið okkur að keppa í. Orkumálin eru eitt af úrslitaatriðunum fyrir garðyrkjubændur.
    Það er annars sárgrætilegt hve erfiðlega það gengur ár eftir ár að finna leiðir til að koma ónotaðri orku frá virkjunum okkar til nýtingar fyrir okkur sjálfa. Það virðist ekki standa á því að nefna lágar tölur ef stóriðja er nefnd á vegum útlendinga en sé um almenningsnot til húshitunar eða iðnaðar hér á landi að ræða þá virðast öll sund lokast. Og ráðherrann sem er svo kotroskinn og kraftmikill þegar hann er að berja á sérfræðingum og hefur staðið sig nokkuð vel upp á síðkastið fyrir skipasmíðarnar verður örmagna, grútmáttlaus og liðónýtur þegar á að fást við orkumálin. Þannig hefur þetta verið allt kjörtímabilið og svör hæstv. ráðherra nú benda ekki til að það verði neitt öðruvísi það sem eftir er, þá fáu daga sem hann mun sitja í ráðherrastóli, því miður. En það hefði verið gaman að hæstv. ráðherra gæfi yfirlýsingu í sinni seinni ræðu um það hvað hann ætlast fyrir í málefnum garðyrkjunnar á þeim fáu vikum sem hann á eftir ósetið í ráðherrastólnum.