Raforkukostnaður garðyrkjunnar

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 15:44:16 (4583)


[15:44]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég kann ekki við að vera að afþakka orðið hérna dag eftir dag eins og frægt er orðið þannig að ég ætla að nýta mér þetta tækifæri. Það er þannig að garðyrkjan hefur verið ein sú grein íslensks landbúnaðar undanfarin 10--15 ár eða svo sem hefur verið í helstum vexti og menn hafa í þessari grein í góðri trú verið að fjárfesta og byggja sig upp, m.a. tæknivæða framleiðsluna til þess að lengja framleiðslutímann og nú er svo komið að ekki vantar mikið upp á að unnt sé að fullnægja eftirspurn eftir mörgum tegundum mestallt árið.
    Eitt sem haldið hefur aftur af þessari þróun öðru fremur er þó hátt orkuverð undanfarin ár. Það er þeim mun furðulegra þegar haft er í huga að allan þennan tíma, eða frá því að Blönduvirkjun komst í gagnið, hefur verið bullandi umframorka í kerfinu sem runnið hefur ónýtt til sjávar.
    Það er ekki hægt að ræða þessi mál nema koma jafnframt inn á alþjóðasamninga og áhrif þeirra á garðyrkjuna. Það er alveg ljóst að garðyrkjan er sú grein sem er í mestri hættu allra íslenskra landbúnaðargreina og það er rétt sem hv. þm. Páll Pétursson sagði að það hefði þurft að taka þá á beinið, hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. ekki síður en hæstv. iðnrh. Þegar það svo bætist við að hæstv. ríkisstjórn er í raun og veru óstarfhæf í málefnum landbúnaðarins og hefur verið svo til allt þetta kjörtímabil þá er auðvitað ekki von á góðu. Og enn hanga málefni þessarar greinar sem og landbúnaðarins almennt algerlega í lausu lofti hvað varðar meðferð GATT-samninganna og álagningu jöfnunartolla.
    Á krataþingi boðar hæstv. utanrrh. að það beri að leggja á eins lága og jafnvel enga tolla til þess að lækka matvælaverð og hæstv. landbrh. virðist hvorki komast lönd né strönd með þetta mál. Síðan heyra menn svör hæstv. iðnrh.: Alger þoka, hrein og klár Austfjarðaþoka svífur yfir vötnunum þegar kemur að iðnrn. hvað sé hægt að gera í þessu þó tiltölulega einfalda máli. Ætli það mundi nú setja Landsvirkjun á

hausinn eða valda öðrum búsifjum þó að garðyrkjan fengi á þessum erfiða tíma sæmilega hagstæða orku til nota næstu 2--3 árin eða svo?