Raforkukostnaður garðyrkjunnar

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 15:46:48 (4584)


[15:46]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni að vissulega hefði verið ástæða til að ég beindi máli mínu líka til hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. en þar sem aðeins er um hálftíma að ræða og um það sérstaka vandamál hvað roftími hefur verið mikill í raforkunotkun hjá garðyrkjubændum á undanförnum dögum þá tók ég þá ákvörðun að beina máli mínu fyrst og fremst til iðnrh.
    Ég þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir það hvað hann kom þessu málefnalega á framfæri eins og hans er von og vísa. Hins vegar er erfitt að standast það að svara hv. þm. Eggert Haukdal í sömu mynt og segja það að hv. þm. beri fulla ábyrgð á því hvernig komið er fyrir garðyrkjunni og því rekstrarumhverfi sem garðyrkjan býr við í dag. Menn hlaupast ekki undan þeim merkjum rétt á síðustu dögum áður en skipt er um ríkisstjórn.
    Ráðherra sagði að þessi taxti víkjandi orku væri miðaður við starfsemi sem getur lagst af tímabundið. Þannig er því ekki háttað með garðyrkjuna. Ef roftími er mikill, og hann þarf í raun og veru ekki að vera nema tvo daga vikunnar, þá eru allt önnur gæði á framleiðslunni og jafnvel hætta á að sú lýsing sem þó hefur verið hina fimm daga ónýtist. Við sjáum bara hvað var að gerast um síðustu helgi þegar við gátum ekki annað innanlandsmarkaði. Það var ekki mögulegt og hér sátu blómakaupmenn alla nóttina fyrir utan heildsölurnar í bílunum sínum til að reyna að ná sér í blóm og mér er sagt að sumir þeirra hafi kannski haft upp úr krafsinu svo sem tvo vendi þegar nóttin leið. Það þarf nauðsynlega að gera orkukaupasamninga við garðyrkjuna, horfa á þetta sem okkar von inn í framtíðina. Þarna eru útflutningsmöguleikar okkar. Við eigum að nýta þá og við eigum að virða þessa atvinnugrein það mikið að við gerum við hana sérstaka orkukaupasamninga.