Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 15:52:35 (4586)


[15:52]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Við inngöngu Íslands í Fríverslunarsamtök Evrópu árið 1970 var ákveðið að Norðurlöndin settu sameiginlega á laggirnar norrænan iðnþróunarsjóð til að stuðla að aukinni iðnþróun á Íslandi. Í samningi Norðurlandanna frá 12. des. 1969 um þennan sjóð, sem síðar nefndist Iðnþróunarsjóður, var kveðið á um að stofnframlag Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar skuli endurgreitt á 15 árum. Þessum endurgreiðslum skal að fullu lokið að loknum 25 árum frá stofnun sjóðsins. Þá fellur samningur Norðurlandanna um stofnun og starfsemi sjóðsins úr gildi og eftir það verður sjóðurinn eign og undir stjórn íslenska ríkisins. Sjóðurinn telst hafa verið stofnaður 9. mars 1970 þegar fyrrgreindur samningur tók gildi.
    Með lögum nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð, var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrrgreindan samning ríkisstjórnar Norðurlandanna um norrænan iðnþróunarsjóð. Texti samningsins fylgir lögunum og telst hluti af þeim og hafa ákvæði hans lagagildi hér á landi. Í honum er m.a. kveðið á um þátttöku Norðurlandanna í stjórn sjóðsins en í athugasemdum með frv., sem varð að lögum nr. 9/1970, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Sú löggjöf sem hér er sett um sjóðinn getur gilt fyrstu 25 árin í starfi hans, þ.e. gildistíma samnings landanna um sjóðinn meðan hann er í sameign þeirra. Að þeim tíma loknum, ef starfsemin heldur áfram, er nauðsynlegt að setja sjóðnum ný lög undir alinnlendri stjórn án erlendrar aðildar.``
    9. mars 1995, þ.e. eftir nokkra daga, verða 25 ár liðin frá stofnun Iðnþróunarsjóðs. Þá skal inna af hendi lokagreiðsluna á stofnfé hinna Norðurlandanna og samtímis fellur úr gildi samningur Norðurlandanna um Iðnþróunarsjóð. Fyrir þann tíma þarf Alþingi að vera búið að taka ákvörðun um framtíð sjóðsins.
    Aðstæður á innlendum lánsfjármarkaði hafa gerbreyst frá því að Iðnþróunarsjóður var stofnaður fyrir 25 árum. Iðnfyrirtæki sem og önnur fyrirtæki landsins eiga nú greiðan aðgang að stofnlánum hjá ýmsum lánastofnunum auk þess sem nokkur þeirra hafa aflað sér lánsfjármagns með útgáfu skuldabréfa á verðbréfamarkaði. Því er ekki lengur sama þörf á stofnlánastarfsemi Iðnþróunarsjóðs og áður.
    Í þeirri efnahagsstöðnun sem ríkt hefur hér á landi frá 1987 hefur það berlega komið fram að nauðsynlegt er að auka fjölbreytni og styrkja innviði íslensks atvinnulífs. Í því felst m.a. að hefja framleiðslu á nýjum framleiðsluvörum, hefja markaðssókn á innlendum og erlendum markaði og auka framleiðni í öllum atvinnugreinum. Ýmsar ábendingar hafa komið fram um leiðir til að stuðla að slíkri nýsköpun. Í skýrslu nefndar frá september 1993 um stuðning stjórnvalda við nýsköpun í atvinnulífi sem skipuð var af iðnrh. í kjölfar samþykktar ríkisstjórnarinnar í október 1992 kemur fram að skortur sé á fjármagni til þróunarvöru frá rannsóknarstigi til framleiðslustigs. Hið sama gildir um fjármagn til þróunar þjónustugreina og markaðsstarfsemi bæði hér á landi og erlendis. Í skýrslu nefndar sem iðnrh. skipaði til að fjalla um starfsskilyrði iðnaðar og út kom í september 1994 kemur fram að brýnt sé að stuðla að aukinni framleiðni, hagræðingu og nýsköpun í iðnaði og bent á að beita megi Iðnþróunarsjóði í því skyni þegar Íslendingar fá hann til ráðstöfunar.
    Ríkisstjórnin hefur nú þegar stigið skref í þá átt að stuðla að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Ákveðið hefur verið að efla rannsóknarstarfsemi í landinu og hafa framlög í rannsóknasjóð Rannsóknarráðs ríkisins, sem nú heitir Tæknisjóður Rannsóknarráðs Íslands, verið aukinn verulega. Þá hefur Þróunarsjóður sjávarútvegsins verið settur á laggirnar en hlutverk hans er m.a. að stuðla að nýsköpun í sjávarútvegi. Mikilvægur liður í því að hrinda nýsköpunarstefnu í framkvæmd er að tryggja aukið fé til nýsköpunarverkefna. Því er lagt til að áherslum í starfi Iðnþróunarsjóðs verði breytt þannig að hann fjármagni í auknum mæli verkefni er stuðli að nýsköpun í íslensku atvinnulífi en dragi úr hefðbundnum fjárfestingarlánum sínum að sama skapi. Í því sambandi skal bent á að sjóðurinn getur sinnt nýsköpunarverkefnum samkvæmt fyrrgreindum samningi Norðurlandanna um hann. Þess skal einnig getið að sjóðurinn hefur langa reynslu af nýsköpunarverkefnum þó sú starfsemi hafi að mestu legið niðri undanfarin ár. Hann hefur haft með höndum styrkveitingar og áhættulánveitingar vegna vöruþróunarverkefna og hefur verið öflugur þátttakandi og frumkvöðull í stofnun hlutafélaga á sviði áhættufjármögnunar. Hann er stærsti einstaki hluthafi í Þróunarfélagi Íslands hf. með 11% hlutafjár. Hann á 57% hlut í Draupnissjóði hf. og annast daglegan rekstur hans.
    Í ljósi þess að Iðnþróunarsjóður verður ein helsta meginuppspretta fjár til nýsköpunarverkefna verður að telja eðlilegt að hann freisti þess eftir megni að samræma starf þeirra aðila sem fjármagna nýsköpun og laða slíka aðila til samstarfs.
    Hér á landi eru starfandi fjölmargir fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna. Upphaflega voru þeir stofnaðir til að tryggja aðgang einstakra atvinnugreina að lánsfé á tímum lánsfjárskorts. Allir hinir stærstu eru í eigu ríkisins. Aðstæður á íslenskum fjármagnsmarkaði hafa gerbreyst frá stofnun þessara sjóða. Fyrirtæki eiga nú mun greiðari aðgang að fjármagni en áður, bæði innan lands og utan. Þá gera nýjar reglur um lágmark eiginfjár og lágmarkseiginfjárhlutfall lánastofnana auknar kröfur til fjárhagslegs styrkleika þessara sjóða.
    Loks leiða fyrstu almennu lögin um starfsemi lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða, sem eru lög nr. 123/1993, til þess að fjárfestingarlánasjóðirnir hafa nú mjög rúmar starfsheimildir,

m.a. til að sinna öllu atvinnulífinu svo framarlega sem sérlög um þá kveða ekki á um annað. Breyttar aðstæður á íslenskum fjármagnsmarkaði og aukin samkeppni við erlenda lánveitendur, við verðbréfamarkaðinn og í einhverjum tilvikum banka og sparisjóði kalla á endurskoðun á fjárfestingarlánasjóðskerfinu. Á vegum ríkisstjórnarinnar hafa verið kannaðar ýmsar leiðir til að koma á nýskipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna í tengslum við þau tímamót þegar Iðnþróunarsjóður kemst alfarið í eigu íslenska ríkisins. Jafnframt hafa verið kannaðar leiðir til að kaupa fé til nýsköpunar.
    Starfandi hefur verið óformlegur vinnuhópur um þessi mál á vegum hlutaðeigandi ráðuneyta. Hefur vinnuhópurinn kannað sérstaklega viðhorf ýmissa forustumanna samtaka atvinnulífsins. Í þessum viðræðum var fjallað um hugmyndir sem lúta að framtíðarskipan fjárfestingarlánasjóðanna. Þar var m.a. rætt um þann möguleika að sameina núverandi fjárfestingarlánasjóði iðnaðar og sjávarútvegs í einn öflugan fjárfestingarbanka en ýmsir aðrir kostir voru einnig ræddir. Jafnhliða yrði stofnaður sameiginlegur nýsköpunarsjóður atvinnuveganna og hefði hann sem fastan tekjustofn hluta arðs í hlutafélögunum eða fjárfestingarbankanum auk sérstaks stofnframlags.
    Ljóst er að svo viðamiklar breytingar sem hér hefur verið lýst verða ekki afgreiddar á þeim stutta tíma sem eftir er af þinginu. Ríkisstjórnin ákvað því á fundi sínum hinn 17. febr. 1995 að taka sérstaklega út úr þessum áformum þann þátt sem brýnastur er, þ.e. tímabundna framlengingu á starfsemi Iðnþróunarsjóðs, og beina starfsemi hans í auknum mæli að nýsköpunarverkefnum. Til að undirstrika að hér er um fyrsta skref í viðameiri nýskipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna að ræða samþykkti ríkisstjórnin eftirfarandi stefnumörkun í ljósi niðurstaðna úr fyrri viðræðum og þá gríp ég til beinnar tilvitnunar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fiskveiðasjóði annars vegar og Iðnlánasjóði og Iðnþróunarsjóði hins vegar verði breytt í tvö hlutafélög er taki til starfa 1. júlí 1996. Samtímis stofnun hlutafélaganna verði stofnuð nefnd fulltrúa ríkisins og þeirra atvinnuvega er standa að sjóðnum er hafi það hlutverk að undirbúa samruna sjóðanna tveggja eða gera tillögur um framtíðarskipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna. Stefnt verði að því að sú framtíðarskipan verði komin á í ársbyrjun 1988.
    Fulltrúar atvinnulífsins hafa haft áhrif á stefnu og starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna með setu í stjórnum þeirra. Þess vegna verður nýskipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna einungis hrint í framkvæmd að höfðu nánu samráði við fulltrúa atvinnulífsins í framhaldi af þeim viðræðum sem átt hafa sér stað og þeim sjónarmiðum sem þar hafa fram komið. Jafnframt verði undirbúin löggjöf um nýsköpunarsjóð er taki til starfa 1. júlí 1996. Tekjur hans verði hluti arðs í hinum nýju hlutafélögum er stofnuð verða um Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð. Auk þess fái hann tiltekið framlag af eigin fé Iðnþróunarsjóðs. Hlutverk sjóðsins verði að fjármagna nýsköpunarverkefni í öllum greinum íslensks atvinnulífs. Lögum um Iðnþróunarsjóð verði breytt í febrúar 1995 þannig að hann geti starfað áfram frá 9. mars 1995 til 1. júlí 1996. Á þessum tíma sinni Iðnþróunarsjóður nýsköpunarverkefnum í auknum mæli.`` --- Tilvitnun lýkur í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar sl.
    Meginefni þess frv. sem hér er lagt fram er þannig að stíga fyrsta skrefið í átt til þeirrar niðurstöðu sem að framan var lýst. Gerðar verði lágmarksbreytingar á lögum um Iðnþróunarsjóð þannig að hann geti starfað áfram. Sjóðurinn kemst, eins og fyrr segir, alfarið í eigu ríkisins 9. mars nk. því þá fellur úr gildi samningur ríkisstjórna Norðurlanda þar um. Samningurinn er birtur sem fskj. með lögum nr. 9/1970 og í honum eru ýmis mikilvæg atriði sem nauðsynleg eru vegna áframhaldandi starfsemi sjóðsins og er þeim haldið. Þó að ákvæði frv. byggist að mestu leyti á ákvæðum fyrrnefnds samnings er engu að síður gert ráð fyrir breyttum áherslum í starfsemi sjóðsins þann stutta tíma sem lagt er til að sjóðurinn starfi áfram, eins og ég sagði áðan, og þannig er gert ráð fyrir því að áhersla aukist á fjármögnun nýsköpunarverkefna en verulega dragi úr hefðbundnum stofnlánum eða fjárfestingarlánum. Í gildistökuákvæði frv. er síðan lagt til að lögin nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð, falli úr gildi og ákvæði um skipan stjórnar Iðnþróunarsjóðs dregur dám af því að hér er um bráðabirgðaráðstöfun að ræða sem aðeins er ætlað að standa í skamman tíma.
    Virðulegi forseti. Mér er það ljóst að þetta frv. er seint fram komið. Það hefur verið kynnt fyrir hv. iðnn. sem væntanlega fær frv. til sín þannig að nefndinni hefur gefist aðeins tækifæri til þess að skoða málið. Ég tel að sú breyting sem hér er verið að gera, ég á ekki von á því að hún sæti andstöðu út af fyrir sig hér á Alþingi því að þetta er í samræmi við vilja sem hefur komið fram hér hjá ýmsum þingmönnum, að reyna að auka fjárveitingar til nýsköpunarverkefna, þó sumir hafi bent á að einmitt Iðnþróunarsjóður sé góður vettvangur fyrir slíka starfsemi. Ég vænti því þess og vona að þó að langt sé liðið á þetta þinghald þá gefist tími til þess að afgreiða málið sem lög frá Alþingi.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.