Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 16:15:33 (4588)


[16:15]
     Svavar Gestsson :

    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. iðnrh., þá hefur verið fjallað lauslega um þetta mál í drögum í hv. iðnn. og aðallega þó það atriði að það verður að framlengja þessi ákvæði sem í gildi eru um Iðnþróunarsjóð af því að lög um hann falla úr gildi 9. mars 1995 og til þess að ekki myndist tómarúm í löggjöf um málið, þá verður að framlengja lagaákvæðin. Í fljótu bragði lítur þetta kannski þannig út að hérna sé um að ræða minni háttar tæknilega lagfæringu.
    Í óformlegri umfjöllun um þetta mál í hv. iðnn. kom það greinilega fram að nefndarmenn eru tilbúnir til þess að greiða fyrir því að hérna verði ekki slys eða áföll í löggjöf landsins, en því verður hins vegar ekki neitað að það hvernig þetta mál ber að er satt að segja mjög sérkennilegt.
    Það var rifjað upp þegar við ræddum þetta mál í hv. iðnn. þegar minnst var að ég hygg 900 ára afmælis biskupsstóls í Skálholti, tók einhver maður þannig til orða að þetta afmæli hefði verið undirbúið um skeið en kannski ekki gefist nægilegur tími þar sem þetta hefði borið býsna brátt að. Eins finnst mér vera með þessa lagabreytingartillögu sem hér er á dagskrá í þessu frv. að það hefur eiginlega legið fyrir í um 25 ár að það mundi verða nauðsynlegt að taka á þessu máli fyrir 9. mars 1995 þannig að það hefur gefist talsvert mikill tími til þess að fara yfir málið og ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki af hverju þetta kemur svona rosalega seint hérna inn og vil spyrja hæstv. iðnrh. af hverju það er og biðja hann að lýsa því, hvað það er sem veldur því að þetta mál kemur núna inn. Það er verið að tala um að ljúka þinginu á laugardaginn, það er þriðjudagur í dag, það eru eftir þrír heilir þingdagar af þessu þingi. Hvernig stendur á því að málið kemur fyrst inn með þessum hætti?
    Ég met það mikils sem formaður iðnn. að hæstv. ráðherra skuli bera það traust til nefndarinnar að henni auðnist að afgreiða þetta mál á þremur dögum eða illa það, en ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta nokkuð sérkennilegt og vil spyrja hæstv. ráðherra um það: Hefur verið ágreiningur um málið í ríkisstjórninni? Á hverju hefur þetta mál strandað? Það hefur komið fram opinberlega að það hefur ekki verið full samstaða um það hvernig ætti að fara með þennan sjóð í framtíðinni, m.a. um það hver ætti hann og það hafa komið fram upplýsingar um það að hæstv. forsrh. hafi haft á þessu máli talsvert aðra skoðun en hæstv. iðnrh. og það kann að vera skýringin á þeim átökum sem verið hafa um málið og skýringin á því hversu seint það kemur fram. En það er alveg óhjákvæmilegt að skýra þetta vegna þess að ég tel nauðsynlegt að hæstv. iðnrh. geri grein fyrir því hvað þetta á eiginlega að þýða.
    Svo verð ég í annan stað að kvarta undan því hvernig málið er lagt hér fram. Það er lagt fram sem hluti af einhverri almennri atvinnustefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar sem mjög fáir hafa orðið varir við og birtist kannski fyrst og fremst í atvinnuleysistölum allt það kjörtímabil sem nú er senn á enda. En þegar málið er kynnt hér þá er það sett fram eins og einhver hluti af atvinnustefnu núv. ríkisstjórnar, alla vega núverandi ríkisstjórnar þessar vikur sem hún á eftir ólifað. Og mér finnst það satt að segja ekki greiða fyrir málinu. Ég hélt að hérna væru menn einfaldlega að leggja fyrir nánast tæknilegar breytingartillögur en í raun og veru er hv. Alþingi stillt upp við þann vegg að þurfa að taka afstöðu til iðnaðarstefnu núv. ríkisstjórnar og þá má segja að réttast væri að taka þau mál til rækilegrar umræðu í framhaldi af greinargerð frv. og framsöguræðu hæstv. iðnrh. vegna þess að þar gaf hann upp boltann fyrir það að hér færu af stað almennar umræður um þróun atvinnumála og áherslur flokkanna í þeim efnum svo að ég tel að framlagning málsins sé pólitískt gölluð. Hún trufli það að hægt sé að taka það fyrir með þeim hætti sem ég hafði gert ráð fyrir að yrði gert í hv. iðnn. sem svona fyrst og fremst tæknilega lagfæringu vegna þess að hlutirnir væru á síðasta snúningi.
    Ég vek athygli á þessu atriði, hæstv. forseti. Auðvitað má segja að það komi ekkert á óvart þó iðnrh. Alþfl. leggi fram frv. nákvæmlega með þessum hætti einmitt þessa dagana. Það er bersýnilegt að stjórnarflokkarnir eru að búa sig undir það að reyna að halda þannig á málum í næstu kosningum að þeir hafi meiri hluta til áframhaldandi samstarfs núverandi stjórnarflokka. Ég held að menn þurfi alveg að gera sér grein fyrir því að eins og horfur eru núna bendir ýmislegt til þess ef menn ekki ugga að sér að svo illa gæti farið að þessi stjórn gæti jafnvel setið áfram. Með hliðsjón af því má auðvitað segja að það sé ekkert óeðlilegt þó að núv. hæstv. ráðherra leggi fram tillögu að iðnaðarstefnu fyrir ríkisstjórnina og stjórnarflokkana báða. En ég kann satt að segja ekki að meta þetta vegna þess að málið er ósköp einfaldlega það að það verður ekkert farið í gegn með þetta mál nema stjórnarandstöðuflokkarnir taki með einhverjum hætti þátt í því.
    Út af fyrir sig er það þannig að það hefur aldrei verið nein deila uppi um það á þessu kjörtímabili að það þyrfti að taka á atvinnumálum með öðrum hætti en gert hefur verið. Við alþýðubandalagsmenn höfum lagt á það áherslu að það þyrfti að reyna að þróa sóknarlínur atvinnulífsins með stuðningi og þátttöku allra aðila í þjóðfélaginu. Við höfum talið að sú stefna núv. ríkisstjórnar að halda stjórnvöldum og sveitarfélögum alveg frá þessu verki hafi mistekist alls staðar og við höfum m.a. í tillögum okkar um atvinnumál, þar sem við birtum fleiri hundruð nýjar hugmyndir um þróunarverkefni í atvinnulífinu undir heitinu ,,Útflutningsleið``, sýnt fram á mjög sterka möguleika til þess að þróa íslenskt atvinnulíf einmitt í samvinnu allra þessara þátta. Og í þessu sambandi má kannski benda á að í skýrslu Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þróun atvinnulífs í Austur-Asíu núna á síðustu árum er það sérstaklega undirstrikað að það hefur verið um að ræða samvinnu fjármagnseigenda, fyrirtækjanna, sveitarfélaganna, ríkisins, verkalýðsfélaganna, stéttarfélaganna og allra aðila til þess að ná upp hagvexti og til þess að rífa atvinnulífið upp úr því vonleysi sem hefur ríkt hér á landi. Og það er auðvitað sá kjarni málsins sem núv.

ríkisstjórn hefur neitað að horfast í augu við og þetta frv. breytir auðvitað engu um það að það er greinilega ekki meiningin á því sem eftir lifir af þessu kjörtímabili að breyta neinu í þessum efnum.
    En til viðbótar við þessa samþættingu allra aðila sem koma nálægt atvinnulífinu þá hefur í Austur-Asíu verið lögð alveg sérstök áhersla á það að menntakerfið vinni með atvinnulífinu. Hér á landi hefur þessu verið þveröfugt farið. Hér hefur verið haldið þannig á þessu að framlög til menntamála hafa verið skorin niður að raungildi frá 1991--1995 um 2 þús. millj. kr. Framlög til rannsókna og vísinda hafa ekki aukist í raun og á sama tíma horfum við upp á stórfellt atvinnuleysi þannig að núv. ríkisstjórn hefur á þessum sviðum í raun og veru gert allt öfugt miðað við það sem eðlilegt er talið og menn þekkja frá öðrum löndum þar sem reynt hefur verið að flétta þessa hluti saman, annars vegar þróunarlínur atvinnulífsins og hins vegar menntakerfið. Og vandinn er auðvitað sá með núverandi hæstv. ríkisstjórn að hún lítur á menntakerfið sem hluta af velferðarkerfinu. Hún lítur ekki á menntakerfið sem undirstöðuþátt í efnahags- og atvinnuuppbyggingunni í landinu. Það er litið á menntakerfið svipað og aðstöðu til mjaðmargrindaraðgerða en ekki sem meginþátt sem alltaf verði að vera til og verði að vera mjög gildur þáttur í þróun atvinnulífsins.
    Það er mjög athyglisvert að lesa þær samþykktir ríkisstjórnarinnar sem eru nefndar nokkrar og þar sem farið er yfir þessi mál og þar sem er í sumum tilvikum ekki nærri alltaf farið einu sinni rétt með, hvað þá heldur meira. Hér er auðvitað rakinn þessi skelfingarferill. Auðvitað verður að segja eins og er að forveri núv. hæstv. iðnrh. var náttúrlega alveg ótrúlegur ,,dogmatíker``, með leyfi forseta, í þessum efnum, kreddutrúarmaður. Það mátti aldrei gera neitt á vegum félagslegra aðila eða ríkisins, aldrei nokkurn tíma. Þó var hann nú í Alþfl. sá, enda hefur Alþfl. stundum verið hægra megin við íhaldið í þessari stjórn eins og kunnugt er, en á þessum málum hefur hins vegar aðeins verið tekið í seinni tíð með aðeins öðrum hætti, m.a. í góðri samvinnu við iðnn. Alþingis. Þar er ég t.d. með í huga það sem gert hefur verið í skipasmíðum sem ég tel að sé lítið en gott það litla sem það er svo að í sjálfu sér hefur ríkisstjórnin á því sviði þar sem skipasmíðarnar eru brotið odd af oflæti sínu og fylgt annarri stefnu heldur en gert verið að öðru leyti.
    Varðandi þessi iðnþróunarmál yfirleitt, þá vísa ég sem sagt til stefnu okkar alþýðubandalagsmanna, útflutningsleiðarinnar sem við höfum gert mjög rækilega grein fyrir og er undirstaðan undir þeim tillögum, m.a. í velferðarmálum sem við höfum gert grein fyrir og fjölluðum um á kosningaþingi okkar núna um síðustu helgi og sjálfsagt er auðvitað að hafa til hliðsjónar ef ríkisstjórnin ætlast til þess að hér verði farið í almenna umræðu um þróun iðnaðar og þróun atvinnulífs en ekki eingöngu að fjalla um almenn tæknileg málefni.
    Ég segi fyrir mitt leyti að að svo miklu leyti sem þetta frv. gengur út á það að bjarga ríkinu og þjóðinni liggur mér við að segja, af því að þetta er norrænn sjóður að nokkru leyti, frá skömm þá mun ekki standa á iðnn. að reyna að hrista málið af sér en hins vegar lítum við ekki þannig á geri ég ráð fyrir í iðnn., a.m.k. ekki öll, að með þeirri afgreiðslu værum við að vegsama iðnaðarstefnu eða stefnuleysi núv. hæstv. ríkisstjórnar.