Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 16:31:45 (4591)


[16:31]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að hinn harði kapítalismi er að bíða skipbrot víðast hvar aðeins örfáum árum eftir að kommúnisminn beið skipbrot og eftir stendur að það er hin hófsama miðja sem á framtíðina fyrir sér sem byggist ekki á átökum aðilanna í þjóðfélaginu heldur samvinnunni. ( BBj: Samvinnustefnunni.) Hv. þm. Björn Bjarnason nefndi samvinnustefnuna. Ég er alveg tilbúinn að taka viðtal við þingmanninn um það þegar við höfum tækifæri til þess hér. Ég býst við að hvað það snertir sé hv. þm. inni í sömu, þröngu kompunni ofan í Morgunblaði eins og þegar hv. þm. ræðir alþjóðleg stjórnmál frá miðjum og fyrri hluta þessarar aldar og það sé svona álíka að ræða við hv. þm. um þá þætti á vitrænum nótum eins og því.
    En ég ítreka það sem ég sagði að mér finnst hv. þm. Svavar Gestsson staðfesta hér að það sé hin hófsama miðja sem byggist á samvinnu allra þátta þjóðfélagsins, ekki stéttabaráttu eða yfirgangi auðvaldsins í kapítalismanum.