Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 16:34:28 (4593)


[16:34]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er mjög miður að þetta frv. skuli koma svona seint fram. Ég tel samt að það sé mjög nauðsynlegt að það fái afgreiðslu og að það verði alla vega ekki lagður steinn í götu þess að hægt verði að nýta sér Iðnþróunarsjóð til hjálpar við atvinnulífið. Ekki veitir af.
    Ég aftur á móti kem hér upp fyrst og fremst til þess að benda á það að sú stefnumörkun sem hér er verið að boða með frv. þarf miklu meiri umræðu en getur fari fram á þessum tíma sem fram undan er til þess að afgreiða þetta mál en ég tel samt að það verði að finna leið til þess að menn komi málinu í gegn og með þessum fyrirvörum vil ég leggja því lið.
    Ég tel að það sé miklu fleira sem þurfi að ræða í þessu sambandi heldur en hér hefur verið gert. Ég er ekki alveg viss um að það sé endilega rétta leiðin að steypa þessum þremur sjóðum saman og gera ekkert meira, Iðnþróunarsjóður, Iðnlánasjóður og Fiskveiðasjóður eiga nú kannski ekki óskaplega mikið sameiginlegt. Ég held að það gæti komið til greina að skoða bankakerfið og starfsemi ríkisbankanna í tengslum við þessar breytingar. Það er mín reynsla á undanförnum árum með kynnum af bankakerfinu og þessum sjóðum að það myndast ákveðin togstreita og þannig ástand að fyrirtækin í landinu sem hafa yfirleitt mest af sínum bankaviðskiptum við þann banka sem er á því svæði sem þau starfa á, leita yfirleitt til þess banka um stuðning við sínar fyrirætlanir. Þeim er þá gjarnan vísað annað, bent á það hvort Iðnþróunarsjóður eða Fiskveiðasjóður eða Iðnlánasjóður sé ekki rétti aðilinn til þess að skoða þær hugmyndir sem viðkomandi atvinnurekandi er með á prjónunum. Þetta hefur oft valdið erfiðleikum og vandræðum. Ég tel að það eigi að vera eðlilegt hlutverk banka sem starfar á viðkomandi atvinnusvæði að sinna fyrirtækjunum sem þar eru. Það eigi að vera fyrst og fremst nýsköpunarverkefni af stærra taginu sem eigi að fjármagna með

öðrum hætti og ég tel að það eigi að skoða þá hugmynd að sjóður eins og þessi, sem hér er verið að tala um, láni þá frekar til bankanna, hafi forgöngu um fjárútvegun til bankanna í þeim tilgangi að koma af stað nýsköpunarverkefnum á þeim svæðum sem um er að ræða.
    Það hefur a.m.k. ekki reynst vel þar sem ég þekki til að slíta þessa hluti í sundur eins og við höfum gert á undanförnum árum. Það mætti t.d. skoða það í tengslum við uppstokkun í bankakerfinu og sjóðakerfi landsmanna hvort það sé ástæða til þess að reka tvo ríkisbanka, hvort það ætti nú ekki að sameina þessa tvo banka og gera þá að öflugum stofnunum þannig að þeir geti sinnt þessum svæðum sem þeir hafa undir og boðið fyrirtækjunum sem eru í viðskiptum við þá upp á alla þá fjármagnsþjónustu sem um er að ræða.
    Ég vildi koma aðeins að þessu hér og ég vil líka minnast á það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. nefndi að það þarf að verða veruleg breyting á í landinu hvað varðar fjármögnun í nýjum hugmyndum. Þessi steinsteypuhugsjón þeirra sem hafa stjórnað peningakerfinu í landinu fram að þessu er aftan úr fortíðinni. Menn eru ekki enn farnir að meta fyrirtækin einu sinni út frá því hvernig þeim hefur gengið að reka sig á undanförnum árum. Það þýðir ekkert að koma og benda á möguleika fyrirtækisins aftur í tímann og sýna fram á það. Það verður að vera hægt að benda á einhvern húskumbalda eða eitthvað sem ágætir bankastjórar telja einhvers virði, einhverja fasteign til þess að það sé hægt að fá lánafyrirgreiðslu. Og sannleikurinn er sá að á ýmsum svæðum í landinu má benda á hnignun atvinnulífsins sem er hreinlega tilkomin vegna þess hvernig bankakerfið hefur verið rekið á því svæði. Ég tel að það sem menn þurfi að ræða í alvöru í tengslum við þá uppstokkun sem hér er verið að tala um séu þessir hlutir og þeim sé komið öðruvísi fyrir.
    Það hefur líka gerst á undanförnum árum að það er búið að hræða nánast framkvæmdaþrána úr fólki. Ungt fólk í landinu er ekki nándar nærri því eins tilbúið til þess að leggja til atlögu við einhverjar nýjar hugmyndir, setja sig í skuldir til þess að koma nýjum hugmyndum á framfæri til þess að reyna sig við ný verkefni einfaldlega vegna þess að fólk sér allt í kringum sig hvernig farið hefur fyrir þeim sem hafa reynt fyrir sér á undanförnum árum. Hin blinda fjármagnshyggja sem hefur í raun og veru stjórnað öllum peningamálum í landinu á undanförnum árum hefur ekki hlíft fólki. Þar hafa vextir og kostnaður vegna lántöku og lánamála keyrt þannig úr hófi fram að þeir sem voru settir í steininn fyrir okur fyrr á öldinni hefðu verið taldir afreksmenn. Þetta hafa yfirvöld í landinu blessað og talið gott og sérstaklega hæstv. ríkisstjórn sem lýsti því yfir í upphafi síns ferils að það ætti að hækka vextina til að lækna sjúklinginn. Það var sams konar aðgerð og stunduð var fyrrum að taka sjúklingnum blóð. Honum átti að batna af þessu. En af einhverjum ástæðum lögðu læknavísindin þetta af að taka mönnum blóð. En hæstv. ríkisstjórn prófaði þetta eina ferð og átti síðan í miklum erfiðleikum með að snúa til baka en reyndi það og hefur að vísu tekist að snúa lítillega til baka en það er langt frá því að þar hafi nægilegur sigur unnist. Kostnaður bankakerfisins er gífurlegur. Þeir sem bera núna uppi þann herkostnað allan eru að sligast. Mörg fyrirtækin í landinu eru að sligast undan þeim álögum sem bankakerfið neyðist til þess að setja á þessi viðskipti til þess að krafsa sig upp úr þeim pytti sem þessi stefna hefur sett okkur í. Og það er ekki bara við hæstv. ríkisstjórn að sakast. Það er lengri tími sem þarna liggur að baki.
    En ég tel og það skulu vera mín lokaorð, hæstv. forseti, að það eigi að taka á miklu fleira. Það eigi að skoða allt bankakerfið og fjármálastarfsemina í landinu í tengslum við þessar breytingar og þegar menn eru farnir að tala um að slá Fiskveiðasjóði og Iðnlánasjóði saman við Iðnþróunarsjóðinn þá þýðir ekkert minna en líta yfir allt sviðið og út úr því þurfa að koma einhvers konar möguleikar sem virkilega ýta undir fólk að reyna fyrir sér við ný atvinnutækifæri. Það þarf t.d. að bjóða mönnum upp á það og ég bið hæstv. iðnrh. sérstaklega að hlusta á þetta, bjóða fólki í fiskiðnaðinum virkilega upp á það að fjármagna sérstaklega það að þessi fiskiðnaðarfyrirtæki geti nýtt sér þá möguleika sem nú eru fyrir hendi við útflutning á fullunnum iðnaðarvörum. Það þarf sérstaklega að bjóða fram hjálp til þess og það er hluti af því sem við alþýðubandalagsmenn erum að kynna hér með stefnu okkar, þ.e. útflutningsleiðinni. Það er að menn sameinist og reyni að samhæfa alla krafta til þess að taka svona á en hluti af því hlýtur að verða að fjármálakerfið í landinu taki á með og verði kannski prímus mótor númer eitt með í því að ýta á stað möguleikunum fyrir nýja atvinnustarfsemi. Það er ömurlegt að hafa horft upp á það á undanförnum árum að stefnan í þessum málum skuli hreinlega hafa lagt atvinnulífið nánast í rúst á sumum svæðum landsins og þar ætla ég ekki að fara að telja fram hvað ég á við en það er á fleiri en einum stað í landinu sem ég hef fylgst með því að starfsemi bankakerfisins hefur gengið það nærri atvinnulífinu að það hefur litla björg sér getað veitt og atvinnuleysið hefur vaxið mjög af þessum ástæðum.
    Með þeirri von, hæstv. forseti., að menn muni halda göngunni áfram þá mæli ég eindregið með því að þetta frv. fái framgang í þinginu.