Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 16:44:41 (4594)


[16:44]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er til umfjöllunar hefur vakið upp umræðu um atvinnuþróunarmál og það er í rauninni mjög eðlilegt að það sé tengt þessu máli sem hér er fyrir lagt, ekki síst ef litið er á bakgrunninn sem er viðleitni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til þess að koma fram stefnu varðandi fjárfestingarlánasjóði í landinu en sem virðist hafa strandað ef marka má það sem óbeint kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra en með skýrum hætti verður lesið úr greinargerð með frv. á bls. 4 sem ég kem aðeins að á eftir.
    Þetta frv. sem er sérstaklega tekið út úr áformum ríkisstjórnarinnar með samþykkt þann 17. febr. 1995, eins og þar stendur, er svona hálfgerð neyðarlending út úr þessu starfi sem ríkisstjórnin hefur verið að reyna að koma fram í sambandi við fjárfestingarlánasjóðinn og þá sumpart einnig þróunarsjóði að svo miklu leyti sem þeir hafa gegnt slíku eða gegna slíku hlutverki.
    Sá sjóður sem hér um ræðir, Iðnþróunarsjóður, er merkileg stofnun og merkilegt dæmi um samstarf Norðurlanda og góðvild í garð okkar Íslendinga af hálfu frændþjóða okkar á Norðurlöndum sem áttu hlut að því að stofna þennan sjóð fyrir um það bil 25 árum síðan. Ég hafði eðlilega á sínum tíma nokkur afskipti af málum sjóðsins þegar ég var að störfum í iðnrn. og minnist góðra samskipta sem þá ríktu við bæði stjórn sjóðsins og þá sem í henni sátu og þá sem með málefni sjóðsins fóru hér heima fyrir. En eins og fram er tekið og menn þekkja sem hafa starfað að þessum málum þá er það í raun framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóri sem þar hafa farið með hinn daglega rekstur og tekið ákvarðanir í umboði stjórnarinnar og samkvæmt þar til settum reglum. Þessi sjóður hefur gert verulegt gagn í okkar atvinnumálum á þeim tíma sem hann hefur starfað þó að hér liggi ekki fyrir nein úttekt um það sem hefði þó verið fróðlegt að fylgdi með á þessum tímamótum, þá þekkja margir til þess að þessi sjóður hefur lagt gott til, bæði einn og sér en einnig í samvinnu við aðra aðila sem hann hefur tekið þátt í fyrirgreiðslu varðandi fyrirtæki og varðandi þróun á nýjum verkefnum. Auðvitað hefur það ekki allt saman gengið eftir sem vonir stóðu til í sambandi við ráðstöfun fjármagns Iðnþróunarsjóðs og við þekkjum það úr gjaldþrotasögu fyrirtækja á undanförnum árum, gjaldþrotin eru mörg bæði í fáum og stórum fyrirtækjum hér á landi, að Iðnþróunarsjóður hefur tapað fjármagni við slíkar aðgerðir og það er vissulega ekkert óeðlilegt út af fyrir sig þó að það gerist hjá áhættulánasjóðum þó að gjaldþrotin hafi aldrei talist góð niðurstaða úr rekstri. Ég er að nefna þetta hér vegna þess að mér finnst nauðsynlegt að það komi fram við umræðu um þetta mál skilningur á því að hér var lagt upp með gott mál og margt gott hefur sprottið af starfsemi þessa sjóðs sem hér er verið að gera ráð fyrir að ljúki sínum störfum eða breyti nokkuð um áherslur í sambandi við þetta þar sem Íslendingar einir taki við málefnum sjóðsins og verði lagður af á miðju ári 1996 samkvæmt ákvæðum 6. gr. þessa frv. Reyndir menn hafa komið að stjórn þessa sjóðs á liðnum tíma og ef ég man það rétt þá hefur fyrrv. seðlabankastjóri Jóhannes Nordal fylgt þessu máli líklega alla sögu sjóðsins og verið fulltrúi okkar í stjórn sjóðsins og lagt þar mikið til mála. Framkvæmdastjóri sjóðsins hefur verið hinn sami um langt árabil og kannski alla tíð án þess að ég muni það nákvæmlega og sinnt þessum verkum vel.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að staldra við þessa sögulegu þætti þó að ég nefni þetta hér í mínu máli, en ég vil taka það fram að mér finnst ofur eðlilegt að nú þegar við eigum þess kost að taka við þessu samkvæmt stofnskrá sjóðsins að 25 árum liðnum þá séu lagðar eitthvað breyttar áherslur í sambandi við starfsemi hans og svona það meginhlutverk sem hér var reifað af hæstv. ráðherra og kemur fram í frv. er auðvitað mjög eðlilegt að reyna að nýta Iðnþróunarsjóð að breyttum lögum til atvinnuþróunar í landinu, nýsköpunar eins og við köllum það og það verði áherslan á meðan hann starfar.
    Ég hlýt að nefna það hins vegar, virðulegur forseti, að mér er nokkuð til efs að það sé skynsamlegt að fara að lögbjóða starfslok þessa sjóðs eins og gert er með 6. gr. frv. Það mætti lesa út úr því svipað og einhver gerði hér við umræðuna að þeir sem gerðu bókun 17. febr. sl. við ríkisstjórnarborð að þeir ætli að halda þessa götu greitt fram og ljúka málum í framhaldi af því sem þar er látið að liggja um samruna á fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna, Fiskveiðasjóði annars vegar og Iðnlánasjóði og Iðnþróunarsjóði sem verður breytt í tvö hlutafélög er taki til starfa 1. júlí 1996 eins og það er orðað í bókun ríkisstjórnarinnar á nefndum degi en síðan að einnig verði gert ráð fyrir því og stefnt að því að þessi tvö hlutafélög verði síðan sameinuð og renni saman í eina stofnun í ársbyrjun 1998. Hér er sem sagt verið að gera ráð fyrir því að lögleiða það að lög á grundvelli þessa frv. falli úr gildi nákvæmlega á miðju ári 1996. Það getur verið út af fyrir sig eðlilegt að endurskoða lög, en beinlínis að bjóða það að þau falli úr gildi og byggja það á ríkisstjórnarstefnu, stefnu ríkisstjórnar sem nú er vonandi að leggja upp laupana, alla vega tekur við enn þá endurnýjuð ef svo ólíklega færi að hún fengi til þess umboð, sem við skulum vona að verði ekki, fyrir lok þessa vetrar og það væri skynsamlegt að hafa þarna annan hátt á en bjóða þetta eins og fram kemur í 6. gr. frv.
    Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að breyta verulega til um stjórn sjóðsins og að ráðherra skipi þrjá menn í stjórn Iðnþróunarsjóðs og einn þeirra sé skipaður formaður stjórnar. Það er ástæða til að nefna það hér að þetta ákvæði er og samkvæmt því ætlar núv. hæstv. iðnrh. að skipa stjórn Iðnþróunarsjóðs að lögfestu þessu frv. svo lengi sem lögin halda gildi eða a.m.k. til loka samkvæmt 6. gr. til 1. júlí 1996. Mér finnst ástæða til þess að íhuga hvort að sé rétt að fela hæstv. núv. iðnrh. þetta skipunarvald á sjóðstjórninni sem þarna er gert ráð fyrir þó að það geti kannski verið svolítið umhendis að koma við öðrum ákvæðum miðað við hvernig þetta mál er vaxið, þ.e. það er svona seint fram komið og tekur mið af núverandi reglum eða samþykktum Iðnþróunarsjóðs. En það er alveg ljóst að hér er verið að fela hæstv. núv. iðnrh. þetta skipunarvald samkvæmt frv. á stjórn sjóðsins.
    Í 2. gr. frv. er að finna ákvæði sem varða hlutverk sjóðsins. Þar er tekið fram í síðustu málsgrein að sjóðurinn megi ekki verja hærri fjárhæð samanlagt til verkefna samkvæmt 3. og 4. tölul. 2. mgr. en 250 millj. kr. Um þetta er fjallað í skýringum með frumvarpsgreininni en það er ekki tekið skýrt fram hæstv. ráðherra, svo að ég leyfi mér, virðulegur forseti, að beina máli til hæstv. ráðherra. Mér finnst ekki vera með

skýrum hætti tekið fram vegna hvers upphæðin 250 millj. er til viðmiðunar, hvort það eru eignir sjóðsins eða það fjármagn sem þar um ræðir en það er ekkert að finna það ég sá við yfirlestur málsins um eignalega stöðu sjóðsins og það er dálítið merkilegt. Ég hafði haldið út af fyrir sig að þetta lægi allt saman fyrir og hefði verið eðlilegt, finnst mér, að á þessum tímamótum væri það upplýst og hefði verið ofureðlilegt að það lægi hér fyrir sem fylgiskjal, a.m.k. ef ekki eru lokareikningar eða lokauppgjör fyrir hendi á síðasta ári eða með fyrirvara því að það er dálítið erfitt að meta þetta mál og þær hugmyndir sem liggja þarna í 2. gr. frv. um heildarfjárhæð þegar ekki liggur fyrir staða sjóðsins, stofnfé sem yrði að breyttum lögum sem yfirtekin væru. Því leyfi ég mér að inna eftir þessu atriði hér við 1. umr. málsins.
    Það er líka ástæða til þess, viðurlegi forseti, af minni hálfu að spyrja um það sem vikið er að í greinargerð með frv. þar sem segir á bls. 5, með leyfi forseta:
    ,,Með hliðsjón af ákvæðum 61.--64. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, og ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA um málsmeðferð og efni reglna á sviði ríkisaðstoðar frá 19. jan. 1994 er ljóst að tilkynna verður til stofnunarinnar þá aðstoð við atvinnulífið sem felst í þeirri áherslubreytingu sem lögð er til á starfsemi Iðnþróunarsjóðs.``
    Þetta gengur sjálfsagt skýrt fram ef menn hafa þessi ákvæði fyrir framan sig og kafa ofan í það. Ég átta mig ekki á því hvaða takmarkanir hugsanlega felast í þessu sem þarna er. Ég hef ekki borið þetta saman sérstaklega en um það er eðlilegt að fjallað verði í viðkomandi þingnefnd.
    Ég vil líka vekja athygli á því, virðulegur forseti, að samkvæmt 4. gr. frv. eru heimildir til stjórnar Iðnrþróunarsjóðs nokkuð rúmar eins og það er fram sett þarna og það er ekki gert ráð fyrir því að ég fæ séð að það verði settar reglur eða reglugerð varðandi starfsemi stjórnarinnar af hálfu hæstv. ráðherra. Ég inni hæstv. iðnrh. eftir því hvort það hafi verið metið eða hvort það sé hugsað af hans hálfu sem ég geri tæplega ráð fyrir fyrst þetta er lagt fram sem stjfrv. að ganga frá þessu með þeim hætti sem getur um í 4. gr., síðustu efnisgrein 4. gr., þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Iðnþróunarsjóðs ákveður áherslur í starfi sjóðsins í samræmi við ákvæði 2. gr. og setur reglur um skilyrði fyrir þátttöku sjóðsins í verkefnum, um umsóknir þar að lútandi og um meðferð þeirra. Þess skal gætt að reglur um meðferð umsókna tryggi sem best óháða og faglega umfjöllun um þær.``
    Þetta er vissulega ljós andi sem þarna kemur fram í sambandi við starfshætti stjórnar sjóðsins fyrirhugaða en þetta er nokkuð rúmt. Það getur verið álitamál hversu víðar heimildir stjórn sjóðs sem er rekinn á ábyrgð og er í eigu íslenska ríkisins séu eða hvort gera á ráð fyrir nánari útfærslu og þá reglugerðarheimild til viðkomandi hæstv. ráðherra í sambandi við meðferð málsins.
    Þetta voru þau efnistriði sem ég vildi vekja athygli á við 1. umr. áður en þetta mál fer til nefndar. Ég tek undir það sem hér hefur komi fram, að það er afskaplega óheppilegt að jafnveigamikið mál og hér um ræðir sé svo seint fram komið á þingi og ekki síður sú sérstaka aðstaða sem við erum í hér við umfjöllun mála á hv. Alþingi, að ekkert liggur fyrir um vilja ríkisstjórnarinnar varðandi þann sæg mála sem liggur fyrir þinginu, stór og smá mál. Það er mjög óvenjulegt, hæstv. forseti, að þannig sé háttað starfi þingsins og eru aðeins örfáir dagar þar til þingi hlýtur að ljúka. Þetta setur þingið og þá sem eru hér að starfi í talsverðan vanda því að auðvitað er öllum ljóst að þau mál sem hér er verið að mæla fyrir verða sum hver tæpast lögfest. Það þarf a.m.k. talsverð vinna fram að fara og mjög góðan vilja til að það verði gert, sem ég efast ekki um að sé hjá þingmönnum öllum til þess að fjalla um mál eftir bestu getu, en þetta eru ekki góð vinnubrögð.
    Áður en ég kveð efni frv. þá bendi ég á það sem kemur fram í umsögn frá fjmrn., fjárlagaskrifstofunni, þar sem fjallað er um ábyrgð ríkissjóðs af fjárskuldbindingum, en samkvæmt lögum frá 1970 þá verður á ábyrgð ríkissjóðs, svo að ég leyfi mér að vitna beint í þetta, með leyfi forseta:
    ,,Sú breyting verður á ábyrgð ríkissjóðs á fjárskuldbindingum sjóðsins að samkvæmt lögunum frá 1970 ber ríkissjóður ábyrgð sjóðins umfram stofnfjárframlög en eftir lagabreytinguna ber ríkissjóður ábyrgð á öllum skuldbindingum hans umfram eignir.`` --- Svo er rifjuð upp þessi takmörkun og segir í lokin: ,,Af þessu má ljóst vera að ríkissjóður ætti hvorki að bera kostnað né taka á sig auknar ábyrgðir við lagabreytinguna.``
    Þetta kann að vera alveg réttmæt staðhæfing, en mér finnst þetta samt ekki fullljóst svo ég leyfi mér að nefna þetta til ábendingar fyrir viðkomandi þingnefnd. Ég sé, virðulegur forseti, að tími minn er þrotinn hér. Það hefði verið freistandi, virðulegur forseti, að taka frekar upp þann þráð um almenna atvinnuþróun og atvinnustefnu og hvernig standa beri að þeim málum sem hér fór fram við þessa umræðu. Ég hef ekki tíma til þess og sé ekki ástæðu til þess að ræða það sérstaklega hér og nú, en áherslur Alþb. þar að lútandi liggja fyrir í tillögugerð flokksins, sem ber heitið Útflutningsleið, og þar er tekið undir að æskilegt sé að sameina fjárfestingarlánasjóði og banka og efla starfsemi þeirra til átaka í íslensku atvinnulífi.