Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 17:04:53 (4595)



[17:04]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Þar sem ég á sæti í hv. iðnn. þá fæ ég tækifæri til þess að fjalla nánar um efni þessa frv. í nefndarstarfinu og ætla þess vegna ekki að eyða löngum tíma við 1. umr. hér í hv. þingi um frv. Ég vil þó segja það út af því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra og eins hjá hv. formanni iðnn., hv. þm. Svavari Gestssyni, þá höfum við fengið lítils háttar kynningu á efni frv. í nefndinni af hálfu starfsmanna iðnrn. Þar hafa verið lagðar fram þær hugmyndir sem hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hefur haft að leiðarljósi við undirbúning þessa frv.
    Ég verð þó að segja það og taka undir með hv. formanni nefndarinnar að það kom mér ofurlítið á óvart að heyra hvernig hæstv. ráðherra lagði hér upp efni frv. í sinni framsöguræðu og vitnaði reyndar til greinargerðar sem við sáum ekki og höfðum ekki séð í iðnn. í þeirri stuttu kynningu sem við fengum á málinu, enda var það meira lagt upp fyrir nefndina þess eðlis að það þyrfti að bregðast við, tími sjóðsins væri að renna út og það þyrfti að framlengja lög um sjóðinn í einhverju formi, en það yrði þá líka að taka á nokkrum þáttum sem því fylgja þar sem núgildandi lög gætu ekki gilt áfram óbreytt. Ég hygg að það megi segja að viðbrögð nefndarinnar við málinu í því formi hafi verið jákvæð. Nú er ég ekki að segja að þau þurfi endilega að breytast eða séu neikvæð þó að hér komi fram frv. með nokkuð öðrum formerkjum. Mig langar að ítreka þá skoðun mína með því að vitna til greinargerðar í frv. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Til að undirstrika að hér er um að ræða fyrsta skref í viðameiri nýskipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna samþykkir ríkisstjórnin eftirfarandi stefnumótun í ljósi niðurstaðna úr fyrrgreindum viðræðum.``
    Ég hirði ekki um að lesa þessa stefnumótun hæstv. ríkisstjórnar í atvinnumálum eða hvað varðar nýskipan í málefnum fjárfestingarlánasjóðanna. Ég vona eins og fleiri hv. þm. sem hér hafa talað að hennar líftími sé senn að styttast og það verði aðrir herrar sem taka á því að setja fram stefnumótun í uppbyggingu atvinnulífsins.
    Nú er ég ekki að segja að það séu ekki vissir þættir í þessu sem hér er sett á blað sem eru jákvæðir og við getum fallist á, t.d. jákvæð hugsun í 2. og 4. gr. frv. um verkefni sjóðsins. Ég leyfi mér að vitna t.d. til 2. gr. 4. tölul. þar sem segir: ,,Að veita lán með hagstæðum kjörum eða framlög, m.a. til tækniaðstoðar, rannsókna, vöruþróunar og markaðsathugana.`` Allt er þetta jákvætt, en að sama skapi nokkuð seint fram komið af hálfu þessarar hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr og er kannski í stíl við annað sem frá henni hefur komið í sambandi við uppbyggingu atvinnulífsins og stuðning við það og er þá skemmst að minnast yfirlýsingar sem kom frá hæstv. ríkisstjórn á haustdögum með fögrum fyrirheitum um það sem ætti að gera, en slík yfirlýsing hefði átt að koma fram fyrr á starfsferli hæstv. ríkisstjórnarinnar ef eitthvað hefði átt með það að gera.
    Þetta vildi ég nefna hér, virðulegur forseti, af því að mér finnst nauðsynlegt að það komi fram af því að það var vitnað til þess að hv. iðnn. hefði fengið málið til forathugunar. En mér finnst að það hafi verið undir nokkuð öðrum formerkjum heldur en hér er lagt upp í greinargerð og í framsöguræðu hæstv. ráðherra.
    Hér hafa síðan farið fram nokkrar umræður um atvinnumál almennt og sjálfsagt hefði verið ástæða til þess að taka nokkra umræðu um það og gæti auðvitað gerst þó að fáir dagar lifi nú eftir af þinginu. En ég býst við að hér eigi eftir að koma fyrir þing frv. sem varða aðgerðir tengdar kjarasamningum og síðast en ekki síst má minna á það að eldhúsdagsumræða er fram undan og þar verður auðvitað fjallað um hin pólitísku mál. Ég ætla því ekki að eyða löngum tíma í það núna. Það var þó nefnt í umræðunni áðan að framsóknarmenn í sínum málatilbúnaði á flokksþingi í haust og fyrir væntanlegar kosningar hafi auðvitað lagt á það áherslu að það þurfi að huga að nýsköpun atvinnulífs og stuðningi við það með ýmsu móti og m.a höfum við rætt um hlutverk Iðnþróunarsjóðs í því sambandi. Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson gerði grein fyrir þessum hugmyndum okkar áðan og ég ætla þess vegna ekki að orðlengja um það. Það má hins vegar minna líka á það í framhaldi af þeirri umræðu sem hér fór fram áðan að það er nú eitt af meginviðfangsefnum þjóða í kringum okkur, ekki síst þjóða í Evrópusambandinu og þjóða sem taka þátt í svokölluðu OECD-starfi, að eitt af aðalviðfangsefnum þeirra nú er að berjast gegn atvinnuleysinu, hinu mikla atvinnuleysi sem þar ræður ríkjum og hrjáir þessar þjóðir, ekki bara atvinnulíf þeirra heldur líka hinn félagslega þátt og þær félagslegu afleiðingar sem alls staðar eru fylgifiskur hins alvarlega atvinnuleysis. Það hefur m.a. komið fram á fundum og ráðstefnum sem ég hef setið erlendis að eitt af því sem þessar þjóðir eru nú að átta sig á er það að markaðshyggjan ein og sér, markaðshyggjan sem lögmál, leysir ekki öll vandamál. Hún getur bara ekki ráðið uppbyggingu atvinnulífs svo vel fari þannig að það sé í fullri sátt við uppbyggingu þess velferðarþjóðfélags sem við Íslendingar höfum í það minnsta viljað byggja upp hér. Það er einu sinni staðreyndin. Og því trúi ég eða a.m.k. vona, að hæstv. iðnrh. og þeir flokksbræður hans í svokölluðum jafnaðarmannaflokki hafi enn þá einhverja tilfinningu fyrir því og einhvern snefil af hugsun um það að það þurfi í raun að sætta þessi sjónarmið. Markaðskerfið er auðvitað kerfi sem við erum ekki að leggja af og hugsum okkur ekki að leggja af til þess að taka upp eitthvert annað þjóðfélagsform sem byggi á allt öðrum gildum eða allt annarri þjóðfélagsstýringu eða stjórnarfari. En það þarf að ná saman með

þessum sjónarmiðum. Það þarf að sætta, ef það má orða það svo, sjónarmið markaðskerfisins og sjónarmið þess velferðarþjóðfélags sem við viljum treysta og styrkja og tryggja það að við brjótum ekki niður með því að markaðshyggjan sé látin ráða ferðinni með þeim alvarlegu afleiðingum sem oftar en ekki eru fylgifiskar, því miður, eins og vaxandi atvinnuleysi og þau félagslegu vandamál sem þar fylgja með.
    Þetta er kannski komið örlítið út fyrir efni þessa litla frv. sem lætur ekki mikið yfir sér. Það er ekki margar greinar. Það fjallar þó um efni sem varðar uppbyggingu atvinnulífs, stuðning og styrk við atvinnulífið og að því leytinu til eru efnisatriði frv. jákvæð og sjálfsagt að skoða það ítarlega í nefnd þó að í því geti ekki falist að með því sé verið sérstaklega að styðja eða taka undir atvinnustefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar sem varla er hægt að hrópa húrra fyrir.
    Aðeins að lokum, virðulegur forseti, um 1. mgr. 4. gr. þar sem fjallað er um skipan stjórnar Iðnþróunarsjóðs, þá er það ljóst að stjórnarskipaninni þarf að breyta. Þar er um að ræða nokkurs konar tveggja þrepa stjórnarfyrirkomulag sem ekki gengur áfram eftir að hlutverk sjóðsins hefur breyst. En mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hefði verið eðlilegt að við skipan þeirra þriggja manna í stjórn sjóðsins, sem hér er gert ráð fyrir að ráðherra skipi, kæmu tilnefningar frá einhverjum aðilum sem málið varða heldur en að það sé eingöngu á borði ráðherra að velja alla þessa þrjá menn og skipa stjórnina með þeim hætti sem hér virðist eiga að gera.