Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 17:13:50 (4596)


[17:13]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það gæti nú verið þörf á einhverju meira en andsvari af minni hálfu, ekki af tilefni síðustu ræðu sérstaklega, en þó. Hér er verið af fleiri en einum hv. ræðumanni að færa inn spurninguna um almenna atvinnustefnu eða réttara sagt hvernig þjóðfélagið er rekið. Það er ekkert minna undir í máli manna. Og vegna þess sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason mælti hér áðan, um takmarkanir og hættur markaðskerfisins, hins frjálsa, óháða markaðskerfis eins og það er um það rætt, þá er vissulega hægt að taka undir það. Mér fannst hins vegar að hv. þm. ræddi um það sem möguleika sem væri í uppsiglingu að þessi sjónarmið yrðu sætt.
    Ég fæ ekki séð að sú skipan mála sé á leiðinni eða hafi verið hér uppi. Við erum nýlega gegin í hið Evrópska efnahagssvæði þar sem hin ég vil segja nær altæku lögmál markaðarins eru innleidd með fjórfrelsinu svokallaða. Nú veit ég að hv. þm. greiddi atkvæði gegn þeim samningi góðu heilli, en nærri því helmingurinn af hans þingflokki hafði ekki fyrir því að reyna að spyrna við þessari altæku markaðsvæðingu innan hins Evrópska efnahagssvæðis. ( VS: Og er stolt af.) Og er stolt af, segir samþingmaður hv. þm. úr Norðurl. e., hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Ég verð að segja að mér finnst þetta tal hér af hálfu manna sem taka fullum fetum þátt í því að herða hér á markaðsvæðingunni, eins og raun ber vitni, að þeir hinir sömu geti ekki haft uppi tal um það að það séu að takast þarna einhverjar sættir eða séu í sjónmáli.