Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 17:16:12 (4597)


[17:16]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það þarf kannski ekki út af fyrir sig að lengja mjög þessa umræðu en sjálfsagt að koma hér örstutt upp í tilefni af vangaveltum hv. 4. þm. Austurl. út af máli mínu. Ég leyfi mér að halda því samt sem áður fullum fetum fram að það sé nauðsynlegt að horfa til þessara sáttarsjónarmiða, ef ég held mig áfram við það að tala um þessi sáttarsjónarmið með þeim þjóðfélagskerfum --- það er kannski ekki rétt að tala um tvö þjóðfélagskerfi. Við erum þó annars vegar að tala um markaðskerfi, markaðsbúskap sem við höfum byggt hér upp og höfum auðvitað fetað okkur áfram á þeirri leið og ég tel að það séu ekki líkur á að við hverfum burtu frá. En ég leyfi mér að fullyrða að það sé vilji til þess hjá stjórnmálaöflum í þessu þjóðfélagi sem vilja sátt með hinu félagslega kerfi. Þó þau kunni sjálfsagt að finnast hér þau stjórnmálaöfl sem ekki vilja slíka sátt, sem eru tilbúin til þess að keyra markaðsleiðina til hins ýtrasta og til enda hvað sem tautar, þá leyfi ég mér að álíta að það séu enn þá til þau stjórnmálaöfl í þessu landi sem vilji leita annarra leiða til þess að ná því fram að við búum við fulla atvinnu og að við reynum að verjast þeim félagslegu áföllum sem atvinnuleysið hefur í för með sér og við höfum nú þegar fengið smjörþefinn af, þó að það sé ekki í neinni líkingu við það sem gerist í nágrannalöndunum í kringum okkur og það eigi í sjálfu sér ekki endilega skylt við það þó að við tökum þátt í samstarfi við aðrar þjóðir sem hafa kannski markaðsstefnuna enn frekar að leiðarljósi heldur en við gerum þó.
    Þetta vildi ég láta koma alveg skýrt fram og get vitnað aftur til þess, virðulegur forseti, að ég hef hlýtt á fulltrúa þeirra þjóða sem þó kenna sig mjög við markaðshyggju sem eru nú að viðurkenna það, augu þeirra eru að opnast fyrir því, að atvinnuleysið og félagslegar afleiðingar þess eru alvarlegt vandamál sem verður að horfast í augu við. Markaðshagkerfið leysir ekki öll vandamálin sem því hefur þó sjálfsagt verið ætlað að gera.