Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 17:22:39 (4600)


[17:22]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að takmarka umræðuna af minni hálfu við að reyna að svara þeim fyrirspurnum og ábendingum sem fram hafa komið en leiða hjá mér að þessu sinni almenna umræðu um atvinnumál eða atvinnumálastefnu, þó að það sé rétt hjá hv. þm. að það sé vissulega ástæða til að taka slíka umræðu. En ég tel að hún eigi af minni hálfu ekki við við þessar umræður.
    Í fyrsta lagi er spurt hvernig standi á því að frv. sé svona seint fram komið og í öðru lagi hvort Alþingi sé með þessu frv. og afgreiðslu þess að taka afstöðu til iðnaðarstefnu þeirrar sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 17. febrúar sl. og fram kemur í greinargerð með frv. Að sjálfsögðu er ekki svo. Ég vil taka það fram til þess að forðast allan misskilning um það. Hins vegar á svarið við spurningunni, af hverju er málið svona seint fram komið, rætur sínar að rekja einmitt til þess sem fram kemur í greinargerðinni.
    Fyrir um það bil tveimur árum síðan var lagt fram á Alþingi frv. til laga um Fjárfestingarbanka iðnaðarins. Þar var gert ráð fyrir að Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður yrðu sameinaðir í hlutafélagabanka, þar sem eignaraðildin skiptist í ákveðnum hlutföllum á milli hins opinbera eða ríkisins og samtaka iðnaðarins fyrir hönd þeirra sem greitt hafa iðnlánasjóðsgjald til þessara sjóða. Þetta frv. var lagt fram hér til kynningar og það komu talsverð viðbrögð við því, m.a. frá samtökum iðnaðarins, þannig að það var ljóst að það var ekki sátt um málið.
    Þá var farið að leita annarra leiða, en það sem má segja að hafi skipt sköpum í því sambandi var það sem gerðist í kjölfar laga sem Alþingi setti um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Það kom nefnilega í ljós þegar farið var að grandskoða þau lög og lögfræðingar voru beðnir um álitsgerðir á grundvelli þeirra laga, hvað þær þýddu fyrir starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna, að samkvæmt þeim lögum hafði verið rutt úr vegi öllum hindrunum fyrir því að fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna einskorðuðu sig við

,,sínar atvinnugreinar``. Niðurstaða úttektarinnar var með öðrum orðum sú að t.d. Iðnlánasjóður gæti starfað að öllu leyti eins og venjuleg lánastofnun að undanteknu því að sjóðurinn hafi ekki heimild til að taka við innlánum. Iðnlánasjóður hafði samkvæmt þeirri lagasetningu frá Alþingi heimild til þess að lána hvaða aðila sem var, aðila í sjávarútvegi, aðila í landbúnaði, aðila í verslunarrekstri o.s.frv., þannig að búið var í raun að eyða mörkunum á milli fjárfestingarlánasjóðanna, sem sett voru í því gamla kerfi þar sem atvinnugreinarnar voru alveg aðgreindar.
    Það kemur fram í greinargerðinni með þessu frv. að það sama á við um þá fjárfestingarlánasjóði þar sem ekki er skýrt tekið fram í lögum að starfsemi þeirra skuli afmarkast við eitthvert tiltekið svið. Þegar svo er komið þá er eðlilegt að menn spyrji sig: Fyrst svo er komið er þá eðlilegt að menn séu enn með fjárfestingarlánasjóði atvinnuveganna í mörgum sjálfstæðum sjóðum fyrst búið er að ryðja úr veginum þeim hindrunum sem áður voru á starfsemi þeirra, þannig að Fiskveiðasjóður gæti þá lánað í iðnað, iðnaður í fiskveiðar o.s.frv.?
    Þetta varð til þess að menn settust yfir þá hugmynd, sem út af fyrir sig er ekki ný í þingsölum, en var ný að þessu leytinu til að það var búið að eyða þessum mörkum á milli sjóðanna. Þá settust menn yfir að skoða hvort það væri þá ekki rétt að athuga að sameina þessa lánasjóði, þessa fjárfestingarlánasjóði, í einn fjárfestingarlánasjóð atvinnuveganna. Við fyrstu sýn töldu menn ekki rétt og þá er ég að sjálfsögðu að meta afstöðu ráðherra í þeirri ríkisstjórn, að Stofnlánadeild landbúnaðarins væri þar með vegna sérstöðu hennar. Hún veitir lán sem eru eins og hv. þm. vita nokkuð niðurgreidd eða hafa verið og aðstæður hennar eru nokkuð öðruvísi en hinna fjárfestingarlánasjóðanna.
    Sú ákvörðun út af fyrir sig, ja, ekki ákvörðun en sú afstaða getur orkað tvímælis. Menn geta sagt einfaldlega: Fyrst þetta er orðið svona er þá ekki rétt að sameina alla þessa fjárfestingarlánasjóði í einn þannig að allar atvinnugreinar búi við sömu aðstæður hvað varðar lánastarfsemi? Það var hins vegar tekin sú ákvörun af okkur sem unnum í málinu að láta það a.m.k. bíða. Til þess að geta sameinað þó ekki væri nema Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð þá þarf að eiga sér stað mikið og talsvert tafsamt samráð við þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta í greinunum. Það var gert. Ég segi það eins satt og ég stend hér að það kom mér á óvart hve jákvæð viðbrögð komu frá þeim aðilum, þeir voru alveg opnir fyrir því. En sannast sagna þá vannst okkur ekki tími til að ljúka málinu og ég tek alveg undir það með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að slík stefnumörkun sem lögð yrði fyrir Alþingi, það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að Alþingi afgreiði það á nokkrum dögum. Til þess þarf Alþingi að gefa sér góðan tíma og til þess þarf að gefa þeim hagsmunaaðilum sem vilja eiga þar hlut að máli og koma að því máli tíma til þess að hafa afskipti og áhrif á það mál.
    Þess vegna brá ríkisstjórnin á það ráð að skilja það verkefni eftir í höndunum á nýju þingi og nýrri stjórn, hvernig svo sem hún verður skipuð og hverjir svo sem sitja á Alþingi, en gera hins vegar eingöngu það sem ekki bindur hendur manna við afgreiðsluna nú en gæti samt sem áður opnað leið fyrir því, sem er áhugamál flestallra ef ekki allra þingmanna, að nýsköpunarviðfangsefnum sé hægt að sinna í meira mæli en gert er. Frá þessu er greint í greinargerðinni einfaldlega sem frásögn, en afgreiðsla á þeirri stefnumörkun sem þar fer fram fer að sjálfsögðu ekki fram við afgreiðslu á þessu frv. Því með því að afgreiða þetta frv. eru menn að framlengja líf Iðnþróunarsjóðs í eitt ár. Menn eru að gera ráð fyrir því að hann geti starfað undir bráðabirgðastjórn þann tíma. Menn eru að gera ráð fyrir því að honum verði skipuð bráðabirgðastjórn þann tíma. Það er gert ráð fyrir því að hann getið aukið sín afskipti af áhættulánaveitingum. Síðan er það mál skilið eftir í höndunum á nýju þingi og nýrri stjórn hvernig framhaldsvinnsla málsins verður og með afgreiðslu þessa frv. eru alþm. að sjálfsögðu ekkert að binda sig við það.
    Þá kem ég að því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson, 3. þm. Vesturl., sagði, að auðvitað hefði verið rétt að ræða í því samhengi líka sameiningu ríkisbankanna. En það mál er ekki á dagskrá hér og er ekki gerð nein tillaga um það, en ég er honum sammála um það að ef við hefðum verið að ræða svona mikla breytingu og svona nýja stefnumörkun þá hefðu menn þurft að gefa sér tíma til að ræða það líka.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði: Hvernig stendur á því að í síðustu mgr. 2. gr. er takmarkað við 250 millj. kr. hvað Iðnþróunarsjóður má verja til áhættulána? Svarið er að það er verið að ganga út frá því að ganga ekki um of á eigið fé sjóðsins. Eign sjóðsins er nú um 2,5 milljarðar þannig að við erum að tala um 10% eða svo af eign sjóðsins eins og hún er nú, sem er eitthvað ívið meira en menn geta gert ráð fyrir að vaxtatekjur og verðbætur verða, en þó ekki mikið umfram það. En ég vísa á skýringar við 2. gr., í athugasemdum við einstakar greinar. Það er nefnilega þetta sama hlutfall sem gert var ráð fyrir í upphafi sjóðsins að hann mætti verja til skyldra viðfangsefna, þ.e. um 10% af eigin fé sínu. Við erum því einfaldlega að setja þar sambærilegar reglur fyrir þetta eina ár.
    Hv. þm. spyr: Af hverju er lagt til að ráðherra skipi? Ég legg til að sjóðstjórnin verði ekki skipuð eins og hún hefur verið, þ.e. af fulltrúum bankanna. Hin raunverulega sjóðstjórn sem stjórnar daglegum rekstri sjóðsins hefur verið skipuð af fulltrúum bankanna, stjórnendum bankanna. Það hefur komið fram frá mér áður að ég tel að það sé ekki rétt að stjórnendur viðskiptabanka sitji í stjórnum svona sjóða. Þetta er hins vegar algert bráðabirgðafyrirkomulag sem menn eru að ræða um, þriggja manna stjórn og þess vegna geri ég ekki tillögur um það að hún skuli skipuð samkvæmt tilnefningu. Ef það væri verið að gera tillögur um það að sjóðurinn ætti að starfa til einhverra langframa, til lengri tíma en svo skamms tíma, þá hefði ég að sjálfsögðu gert tillögur um það. En til þess að það sé alveg ljóst að hér sé um hreint bráðabirgðaástand að

ræða er ekki gerð tillaga um að í stjórninni sitji fleiri en þrír aðilar og að þeir séu skipaðir án tilnefningar.
    Þá er spurt: Hvað um reglugerð um starf sjóðstjórnar þetta eina ár? Starfsreglur sjóðstjórnarinnar koma nokkuð vel fram í 4. gr. en þó er gert ráð fyrir því, eins og segir í lokamálsgrein í skýringum við 4. gr., með leyfi forseta:
    ,,Verði talin þörf á því síðar að kveða nánar á um verkefni og starfshætti stjórnar sjóðsins getur ráðherra gert það í reglugerð á grundvelli almennrar heimildar í 7. gr. gildandi laga.``
    Ráðherra hefur því slíkt í hendi sér, en það er spurning hversu mikla reglugerðarsetningu eigi að viðhafa fyrir sjóðstjórn sem á aðeins að starfa í eitt ár þar sem koma fram í lagatextanum sjálfum nokkuð ítarlegar reglur um starfsemina.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi svarað öllum þeim spurningum sem komu um efni þessa frv. Ég ítreka að mér er ljóst að það er mjög seint fram komið. Við höfðum hins vegar samband við iðnn. um leið og við tókum þá ákvörðun sem ég tel að hafi verið skynsamleg, að flytja málið svona fyrir Alþingi fremur en að reyna að flytja á síðustu dögum þingsins eitthvað stærra mál sem lengri tími hefði þurft að fara í. Ég vonast satt að segja til þess að iðnn. treysti sér til að afgreiða málið á þinginu þó ég geri mér fyllilega ljóst að það eru ekki æskilegir starfshættir af ráðherra að flytja mál svona seint eins og hér er gert.