Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 17:36:50 (4605)


[17:36]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þær skýringar sem hann gaf hér á nokkrum atriðum, m.a. svo mikilvægum þætti sem þeirri viðmiðun sem lægi til grundvallar því hámarki sem væri til ráðstöfunar af hálfu sjóðsins, 250 millj kr. og nokkuð sérstakt að það skuli ekki fram tekið í greinargerð hvernig á því stendur eða hvað haft er í huga.
    En það var tvennt sem ég vildi inna hæstv. ráðherra frekar eftir. Þrennt kannski. Það er í fyrsta lagi rökstuðningur fyrir því að lögin falli úr gildi 1. júlí 1996. Ég gerði það atriði nokkuð að umræðuefni í mínu máli og sé að það tengist samþykkt núv. ríkisstjórnar, sem rakin er í greinargerð. En mér finnst það ekki vera rök í þessu máli, ég sé það ekki.
    Í öðru lagi er það spurningin um reglugerðarsetningu þar sem segir í lokaefnisgrein skýringa við 4. gr.:
    ,,Verði talin þörf á því síðar að kveða nánar á um verkefni og starfshætti stjórnar sjóðsins getur ráðherra gert það í reglugerð á grundvelli almennrar heimildar í 7. gr. gildandi laga.``
    Ég hélt að það væri verið að fella gildandi lög og les það hér að þau falli úr gildi samkvæmt 6. gr. og hér er verið að vísa í reglugerðarheimild í lögum sem á að fella brott. Nú hætti ég að skilja lagasmíð hér af hálfu Stjórnarráðsins.
    Þriðja atriðið sneri að því sem segir efst á bls. 5 í greinargerð, að því er varðar hliðsjón af ákvæðum 61.--64. gr. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, þær takmarkanir sem þar eru. Það væri gott ef hæstv. ráðherra greindi okkur aðeins frá því hvaða meginsjónarmið eru það sem þar verður að taka tillit til.