Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 18:01:11 (4612)


[18:01]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :

    Virðulegur forseti. Ég ætla ekkert að gagnrýna fundarstjórn forseta almennt séð. Ég vildi hins vegar vekja athygli forseta á því að það er nokkuð bagalegt þegar dansað er til í dagskránni eins og hér er staðið að máli. Það var tekið fyrir annað mál og mér er ljóst að sá ráðherra sem átti að mæla fyrir því var ekki viðlátinn og þess vegna að því ráðið horfið að taka fyrir þetta mál sem forseti hefur tekið á dagskrá, flugmálaáætlun. En það er erfitt fyrir þingmenn að átta sig á því hvernig er hagað þinghaldi þegar viðkomandi hæstv. ráðherrar eru ekki viðlátnir til þess að mæla fyrir sínum málum þannig að nokkurn veginn verði haldið röð á dagskránni. Ég geri ráð fyrir því að m.a. nefndarmenn í hv. samgn. hafi áhuga á því að vera viðstaddir þessa umræðu og ég hitti einn í þinghúsi sem hafði ekki hugmynd um að þetta mál væri komið á dagskrá.
    Ég vildi einfaldlega vekja athygli á því að það er heldur bagalegt þegar forseti neyðist til þess að færa til mál og taka slíkt stökk í dagskránni og raun ber vitni. Þetta er góðfúsleg ábending og væri kannski ekki úr vegi að þingmenn í viðkomandi nefnd séu látnir vita þegar mál er skyndilega tekið á dagskrá, jafnstórt mál og hér um ræðir.