Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 18:32:44 (4625)


[18:32]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. er að sjálfsögu kunnugri á Sauðárkróksflugvelli en ég. Ég hygg að það sé rétt með farið að það eigi að leggja á 1.200 metra braut á Sauðárkróki en í báðar áttir sé búið að leggja á 200 metra þannig að brautin verði 1.600 metrar. Mér hefur skilist að málið sé þannig vaxið.
    Það kemur mér mjög mikið á óvart ef flugmálastjóri bregst ekki vel við því ef óskað er upplýsinga hjá honum. Það er skammt eftir af þinginu nú. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort samgn. hefur svigrúm til að kalla flugmálastjóra til fundar til að ræða þau mál sem hv. þm. hefur áhuga á. Ef svo er ekki þá skal ég nefna það við flugmálastjóra að hann ræði sérstaklega og persónulega við hv. þm. þannig að hann geti fengið þær upplýsingar sem hann leitar eftir.
    Ég tek ekki undir með þingmanninum að sérstaklega sé níðst á Norðurlandi vestra í þeirri flugmálaáætlun sem í gildi er frá 1994--1997. Það var í henni gert ráð fyrir því að verja 80 millj. kr. til Sauðárkróks á þessu ári og 35 á hinu næsta. Hér er lagt til að fresta framkvæmdum upp á 15 millj. kr. Það var tekin ákvörðun um þennan niðurskurð á flugmálaáætlun og rökin fyrir því voru þau að menn vildu leggja áherslu á aðra þætti samgöngumála. Þetta er auðvitað alltaf umdeilt en aðalatriðið er að ég hygg að Skagfirðingar og ég veit ekki hvort ég má segja Sauðkrækingar eða Sauðkræklingar megi vel við una þeirri afgreiðslu sem hér er á flugmálaáætlun.