Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 18:37:23 (4627)


[18:37]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að við förum í vettvangskönnun sameiginlega, ég og hv. þm., til að athuga hvað snýr í norður og hvað í suður á flugbrautinni fyrir norðan. Ég er sæmilega öruggur þegar ég er í Eyjafirðinum en það má vera að ég sé áttavilltur í Skagafirði, ekki þori ég um það að segja.
    Ég kannast ekki við það að ég hafi með einum eða neinum hætti beitt mér fyrir því eða lagt til að draga úr fjármagni til Sauðárkróksflugvallar á þessu ári. Mig rekur ekki minni til þess nema það hafi þá verið vegna þess að fé nýttist betur til þess að ljúka við bundið slitlag á þessum þremur flugvöllum sem var lagt bundið slitlag á fyrir norðan. Það er auðgert að spyrja flugmálastjóra um það en ef svo er þá er það fjármagn nú til reiðu á þessu ári þannig að það hefur ekki horfið.
    Aðalatriðið er að það var óhjákvæmilegt að leggja bundið slitlag á flugvellina á Húsavík og Siglufirði og það var látið sitja fyrir á síðasta ári. Það var svigrúm til þess að leggja bundið slitlag einnig á flugvöllinn á Þórshöfn. Það má deila um hvort það hafi verið rétt að láta þá framkvæmd sitja fyrir og síðan er röðin komin að Sauðárkróki og ég vona að hv. þm. geti betur sætt sig við þessar áherslur en hann lætur í ljósi í ræðustólnum.
    Aðalatriðið er að það var ekki hægt að una því lengur að ekki yrði lagt bundið slitlag á þá þrjá flugvelli sem ég nefndi hér.