Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 20:51:36 (4637)


[20:51]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hér er verið að skera flugmálaáætlun niður og það er verið að gera það til þess að standa undir rekstri Flugmálastjórnar. Ég held í þessu sambandi að það sé alveg full ástæða til að ræða hér lítillega og fara ofan í rekstur Flugmálastjórnar og starfshætti þar á bæ.
    Það vill svo til að ég er svolítið kunnugur starfsháttum Flugmálastjórnar vegna þess að einu sinni átti ég í nokkur ár sæti í flugráði. Ég losaði mig að vísu þaðan enda var það ekki skemmtilegur selskapur að því leyti til að það starfslið sem þarna vann var sumt næsta lausbeislað. Það skiptir þessa menn ósköp litlu hvað hér er samþykkt í þessari stofnun, það skiptir þá nákvæmlega engu. Starfsmenn Flugmálastjórnar varðar ekkert um það hvað hvað hér er verið að samþykkja. (Gripið fram í). Þeir hafa bara sína hentisemi. Þeir eyða peningunum í það sem þá langar til, ekki í það sem Alþingi ákveður. Þetta eru náttúrlega alveg gersamlega óviðunandi vinnubrögð.
    Svo ber líka á því ofan á allt annað að þeir fjandskapast við ákveðna staði og einn þeirra hefur komið hér til umræðu fyrr í þessari umræðu, þ.e. Sauðárkrókur. Framkoma flugmálayfirvalda við Sauðárkrók er alveg sérkapítuli út af fyrir sig og það hefur reyndar verið gert hér að umræðuefni mjög réttilega fyrr í þessari umræðu. Sennilega hefur eitthvert lið hjá Flugmálastjórn einhvern tíma orðið eitthvað pínulítið pirrað út í einhverja forráðamenn frá Sauðárkróki og síðan er alltaf verið að hefna sín. Ég kann enga aðra skýringu á þeim vinnubrögðum sem þar hafa verið tíðkuð og það er alveg með eindæmum hvernig framkoma Flugmálastjórnar varðandi Alexandersflugvöll á Sauðárkróki hefur verið í gegnum árin, ekki bara núna. Það eru ekki teknar nema 15 millj. núna, en það er búið að gera ýmislegt á undanförnum árum. Það er kannski sök sér þó að þeir séu tregir hjá Flugmálastjórn að gera tillögur um nauðsynlegar fjárveitingar, sanngjarnar og eðlilegar fjárveitingar til þessa flugvallar, til uppbyggingar hans, en ef fjárveiting er ákveðin af Alþingi þá er það alveg undir hælinn lagt að því sé nokkuð sinnt.
    Nú er verið að skera 15 millj. af Sauðárkróki til þess að Flugmálastjórn geti rekið sjálfa sig, flakkað og étið. Nú ætla þeir að éta bílastæðin á Króknum á þessu ári. Sauðárkrókur verður náttúrlega til áfram þó að þarna komi ekki bílastæði, en það sem mér þykir verra er með slitlagið sem þarna þarf að leggja. Það hefur komið upp sú hugmynd að skilja eftir malarkafla á miðjum vellinum og malbika bara til endanna. ( VE: Heldur þú að það sé ekki til þess að vekja menn eftir þægilegt flug?) Það kann að vera að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sé hættur að hafa neina samúð með Sauðárkróksvelli eftir að ljóst var hver kæmi til með að skipa fyrsta sætið hjá íhaldinu í Norðurl. v. Ég get vel trúað að hv. þm. sé nokkuð sama þó að presturinn vakni upp við vondan draum, hv. bráðum þm. séra Hjálmar Jónsson, þegar hann lendir á vellinum. En það er ekki víst að prestinum sé sama. Ég veit það af góðri reynslu að hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, er alveg frábær bílstjóri og keyrir eiginlega aldrei út af og ferðast yfirleitt á jeppanum

sínum. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að séra Hjálmar Jónsson neyðist til þess að fara með flugvél því að hann er ekki nærri eins flinkur að keyra eins og hv. þm., þó að hann sé að mörgu leyti mjög flinkur maður. ( Gripið fram í: Og svo sóknarbörnin hans.) Og svo er það með sóknarbörnin, já. Það er líka ástæða til þess að hafa það í huga að það kann að vera að þeir minnist þá hv. þm. Vilhjálms Egilssonar þegar þeir hrökkva upp í holunum á Sauðárkróki. Það er nefnilega einkennilegt að þrátt fyrir að Flugmálastjórn og hæstv. samgrh. beri verulega ábyrgð og höfuðábyrgð á þessari niðurskurðaráætlun til þess að traktera Flugmálastjórn, þá bera þeir líka ábyrgð á henni, stjórnarliðarnir, hv. formaður samgn., Pálmi Jónsson, 2. þm. Norðurl. v., og meira að segja Vilhjálmur Egilsson, hv. 5. þm. Norðurl. v.