Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 20:57:52 (4638)


[20:57]
     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér þótti þessi síðasta ræða ekki sérlega viðeigandi að ýmsu leyti. Það er ekkert við Flugmálastjórn að sakast þó að Alþingi hafi tekið um það ákvörðun við afgreiðslu fjárlaga að taka af sérmerktum tekjustofnum til flugmála 40 millj. til rekstrar. Það var formlega að því staðið og er pólitísk aðgerð en ekki hægt að kenna Flugmálastjórn um það á nokkurn máta. Það er eðlilegt að flutt sé um það tillaga við breytingu á flugmálaáætlun að láta það sjást hvar þessi sparnaður í framkvæmdum eigi að koma niður og það er gert með þessari tillögu, sem að sjálfsögðu er allt of seint fram komin, svo seint að ég á ekki von á því að hún verði afgreidd. En það liggur þá fyrir í þingskjölum hvar ætlunin er að spara þessa peninga.
    Ég ætla ekki að fara að rekja neitt hvað gerst hefur á fyrri árum, en ég man þá tíð á síðasta kjörtímabili að eitt árið var frestað framkvæmdum fyrir 77 eða 78 millj. kr. og fært yfir í önnur verk. Það var ekki skorið niður með fjárlögum, það voru bara einhver handarverk framkvæmdarvaldsins. Þetta þskj. gefur ekki tilefni til þess að saka framkvæmdarvaldið um slíka hluti, það er formlega að þessu staðið.