Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 21:23:23 (4646)


[21:23]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég tek undir að það er ekki neitt aðalatriði þessa máls hvernig frá þessum samningum er gengið en ég er bara að vekja athygli á því smávægilega ósamræmi sem er annars vegar í tillögugreininni og hins vegar í greinargerð.
    Varðandi fjármögnunarþáttinn standa þessi mál sem sagt enn þá svo að menn eru að gera sér von um að einhvers konar viljayfirlýsing verði frágengin í bréfi um miðjan mars og er það talsvert annar hraði á fjármögnun en menn höfðu gert sér vonir um miðað við þann aðdraganda í undirbúningi sem hefur verið í verkinu og menn ætluðu sér að vera tilbúnir með til framkvæmda fyrir margt löngu. Reyndar hefur það allan tímann verið mín sannfæring að hið raunverulega próf sem þetta verkefni gengi undir yrði þegar fjármögnunaraðilarnir væru að meta sína áhættu í sambandi við verkið og það er auðvitað það sem hér er að gerast. Þá fer hið eiginlega áhættumat fram þegar menn meta hvort það sé áhættunnar virði að leggja fé í þetta með þeim tryggingum sem felast í annars vegar innlendu fjármögnuninni og hins vegar efnahagslegum styrk þess aðila sem tekur að sér framkvæmdina og reksturinn. Þetta er hreint mat á því hvort það sé áhættunnar virði að eiga von í þeim afrakstri af rekstri ganganna sem í sjónmáli er þá.
    Varðandi vegarstæðið er ekki annað um það að segja en að það er slæmt ef ekki næst um þetta samkomulag en ég tek undir það með hæstv. ráðherra að að sjálfsögu verða almannahagsmunir að ráða í stórmálum af þessu tagi þó að eftir sem áður standi að það sé skylt að reyna allt sem hægt er til að ná samkomulagi.