Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 21:25:29 (4647)


[21:25]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka lítillega til máls um þetta mál og lýsa skoðunum mínum almennt um það. Ég er þess mjög fýsandi að af þessu verki geti orðið. Það eru augljósir hagsmunir af því fyrir landsbyggðarmenn, bæði á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi, að leiðin styttist á milli þeirra og höfuðborgarsvæðisins. Það er því að mínu viti verulegur ávinningur fyrir t.d. Vestfirðinga ef af þeirri framkvæmd verður að leggja jarðgöng undir Hvalfjörð.
    Hitt er auðvitað alveg rétt sem menn hafa bent á í umræðu um málið að verkið er mjög dýrt og það vefst fyrir mönnum að finna einhvern aðila til þess að taka að sér að greiða framkvæmdakostnað. Menn hafa því eðlilega leitað að leið til að finna fjármagn svo að unnt væri að hrinda verkinu af stað og framkvæma fyrr en ella væri ef menn ætluðu að fjármagna þetta eingöngu af mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar.
    Það er því miður þannig að óunnar framkvæmdir í vegamálum eru það miklar og það er ljóst að í fyrirsjáanlegri framtíð verða menn mjög aðkrepptir hvað varðar fjármagn til þess að standa undir þeim framkvæmdum eða öllu heldur mun mönnum reynast erfitt að fá fé til þeirra þörfu verkefna sem eftir er á þeim tíma sem menn vildu gjarnan sjá verkin unnin. Þannig er það t.d. á Vestfjörðum. Þar eru enn mjög mörg verkefni sem þarf að ráðast í og brýnt að unnin verði á næstu árum og væri mjög þarft að menn sæju fram á það að á næstu tíu árum yrðu unnin stórvirki í samgöngumálum þar. Svipaða sögu má segja um Austfirði en ég hygg að þar sé betra ástand hvað varðar önnur kjördæmi þó að ég sé ekki að draga úr því að þar séu verkefni sem brýnt er að ráðast í.
    Þessi staðreynd gerir það að verkum að menn velta fyrir sér hvort unnt er að taka ákveðnar framkvæmdir út fyrir vegáætlun og fjármagna þær og vinna með öðrum hætti. Ég er sammála þeirri leið sem valin hefur verið í þessu máli, að taka þessa framkvæmd út úr og reyna að fá aðila til þess að fjármagna verkið og láta síðan umferðina greiða hana á einhverju tilteknu árabili. Ég hygg að menn ættu að athuga hvort ekki væri hægt að fara þessa leið varðandi fleiri verkefni þar sem umferð er mjög mikil. Að öðrum kosti óttast ég að menn verði mjög lengi að ná þeim viðunandi árangri sem menn stefna að á næstu árum í hinum dreifðari kjördæmum og stærri þar sem enn eru mörg verkefni óunnin.
    Mig langar að bera fram við hæstv. ráðherra nokkrar spurningar um framvindu málsins. Mér finnst ekki ljóst á greinargerðinni, þó að hún sé að nokkru leyti ítarleg, hvernig málið er statt eða hvenær þess er að vænta að niðurstaða liggi fyrir um fjármögnun og hvenær framkvæmdir munu þá hefjast þegar það liggur fyrir.
    Enn fremur finnst mér vanta upplýsingar um það hvernig staðan er varðandi undirbúning málsins að öðru leyti, samninga við landeigendur og frágang á slíkum málum. Þá spyr ég hæstv. ráðherra um fjárveitingar í það hlutverk sem að ríkinu snýr, vegi að göngunum og annað því um líkt sem yrði væntanlega nauðsynlegt að fjármagna af vegáætlun. Er gert ráð fyrir því í yfirstandandi endurskoðun áætlunar að leggja fé til þess hluta verksins sem að ríkinu snýr?
    Að lokum langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvað gert sé ráð fyrir að samningstíminn geti orðið langur í 6. gr. samningsins. Þar er ekki tekið fram hvað menn áætla að það taki langan tíma að endurgreiða kostnaðinn en það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hversu mörg ár menn gera ráð fyrir, að sjálfsögðu að gefnum tilteknum forsendum, að endurgreiða göngin þannig að menn viti nokkurn veginn hvenær þessi göng munu færast yfir á hendur ríkisins en það mun gerast þegar endurgreiðslu er lokið.
    Virðulegur forseti. Ég vil ekki fjölyrða meira um þetta mál en tek undir óskir ráðherra um að það megi reynast unnt að afgreiða það frá þinginu fyrir þinglok.