Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 21:33:13 (4649)


[21:33]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstvirtur forseti. Ég fagna því að hér skuli vera komið fram þessi þáltill. þó hún sé seint á ferðinni, hana hefði þurft að leggja fram fyrr. Þessi mál hafa öll dregist nokkuð lengi og við höfum átt von á fréttum af því að þessar framkvæmdar væru tryggðar mjög lengi og kannski er spurningarmerkið jafnstórt enn þá um það hvort farið verði í þessar framkvæmdir. Ég tel að hér sé á ferðinni mjög mikið hagsmunamál, ekki bara Vestlendinga, Vestfirðinga og Norðlendinga heldur landsmanna allra. Menn keyra líka í gegnum göngin til Reykjavíkur og ég mundi telja að samgöngubætur í gegnum göng væru nú ekki síst fyrir Reykvíkinga. ( Gripið fram í: Já!) Það er kannski hugsun sem hvarflar ekki að þeim sem búa hér í þéttbýlinu. ( SvG: Takk fyrir.) En það er yfirleitt keyrt í báðar áttir í gegnum göng eins og þessi og þessi göng verða örugglega mikil samgöngubót. Ef til tekst eins og menn hafa reiknað með að þá er þarna á ferðinni framkvæmd sem stendur fullkomlega undir sér fjárhagslega sem eining og er þar með mjög hagstæð þjóðhagslega fyrir okkur Íslendinga.
    Það sem ég vildi nú færa í tal við þessa umræðu og biðja hæstv. ráðherra að svara einhverju um er með hvaða hætti hann telur að það eigi að koma fyrir fjármögnun á vegtengingunum við göngin. Þar er á ferðinni mjög stórt verkefni upp á 800 milljónir eða hvað það nú er. Ef málið verður eins og hæstv. ráðherra var að lýsa áðan, að ákvarðanir verði teknar á næstu vikum um þessa framkvæmd, þá þarf sjálfsagt að taka ákvarðanir um vegtengingarnar. Ég tel fráleitt að þessi framkvæmd, sem er fyrst og fremst breyting á hringveginum til hagsbóta fyrir alla Íslendinga, verði látin koma niður á þeim áætlunum í vegagerð sem fyrir liggja, t.d. á Vesturlandi. Ég tel að það þurfi ekki að vera þannig, það eigi að vera hægt að fjármagna þetta með lánsfé þannig að ekki verði raskað meira en orðið er þeim framkvæmdum sem menn hafa stefnt að því að fara í á Vesturlandi.
    Ég held að þetta hljóti að verða hægt að gera. Það eru nefnilega full rök fyrir því og það er hægt að benda á algjörar hliðstæður að verkefni lík þessum hafi verið tekin í heild sem stórverkefni, þ.e. vegirnir sem liggja að mannvirki eins og þessu eigi líka að fylgja verkefninu þannig að það verði sem ein heild. Í stórverkefnum hefur því verið komið þannig fyrir og ég tel eðlilegt að þær vegtengingar sem beinlínis eru gerðar vegna ganganna væru með í þessari fjármögnun. En niðurstaðan er að svo sé ekki og þess vegna tel ég að það sé full ástæða til að fjármagna þetta með einhverjum hætti lengra fram í tímann þannig að það komi ekki niður á þeim ákvörðunum sem hafa nú þegar verið teknar með drögum að vegáætlun sem eiga að gilda næstu fjögur árin.
    Þessu vildi ég koma á framfæri og vil gjarnan heyra afstöðu hæstv. ráðherra til málsins. Það er mjög mikilvægt fyrir Vestlendinga sérstaklega að vita hvernig hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin lítur á akkúrat þennan hluta málsins.
    Síðan vil ég segja það um þau vandamál sem hafa komið upp í sambandi við land sem þessar vegtengingar eiga að liggja um að það eru bara venjuleg vandamál sem koma upp við lagningu vega og hafa alltaf gert. Verði af þessari vegagerð fá miklu fleiri frið fyrir umferð en þeir sem verða fyrir ónæði af nýja veginum því þessi vegur styttir leiðina mjög mikið og í nágrenni fjölda bæja þar sem núna er mikil umferð verður miklu minni umferð í framtíðinni ef af þessari vegagerð verður.
    Ég ætlaði ekki að teygja lopann um þetta mál, ég fagna því að það skuli vera farið að glitta í lok þess og vonandi verður niðurstaðan jákvæð. Að vísu er greinilegt að það er tæpt á öllum tölum. Við sjáum það á því að sú fjármögnun sem menn stefndu að gekk ekki upp. Menn hafa verið að skipta um aðila í þessu og ég býst við að það sé vegna þess að það sé ekkert allt of mikill afgangur af því að þessi framkvæmd gangi upp miðað við þær áætlanir sem gerðar hafa verið. En verði niðurstaðan sú að menn fara í þetta verkefni þá tel ég nokkuð tryggt að þar sé á ferðinni mjög hagkvæmt verkefni fyrir bæði þjóðarbúið og þá sem munu nýta göngin.