Vitamál

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 21:51:47 (4654)

[21:51]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Samgn. hefur fjallað um þetta frv. um breytingar á ýmsum lögum vegna nýrra mælingareglna skipa, eins og það heitir. Frumvarpið fjallar um breytingar á tvennum lögum, eins og það var lagt fram. Í 1. gr. er einungis breyting sem gert er ráð fyrir að verði á lögum um vitamál vegna þess að breytt hefur verið mælingareglum skipa þannig að tekin hefur verið upp mæling í brúttótonnum í stað brúttórúmlesta áður. Þetta er nauðsynleg og tæknileg breyting sem þarf að gera á lögunum um vitamál og leggur nefndin einróma til að sú grein frv. verði samþykkt.
    Á hinn bóginn leggur nefndin til að 2. gr. frv., sem fjallar um allt annað mál, um lögskráningu sjómanna, verði felld brott úr frv. og eigi afgreidd að þessu sinni. Nefndin leggur sem sagt til einróma að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu að 2. gr. frv. falli brott og að fyrirsögn frv. verði breytt í samræmi við það.
    Þess er skylt að geta að hv. þm. Egill Jónsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Stefán Guðmundsson voru fjarstaddir þessa afgreiðslu málsins.